Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 16:12:23 (4979)

1999-03-11 16:12:23# 123. lþ. 87.11 fundur 612. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 9/1999, HG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[16:12]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ætli þetta sé ekki tilraun til að færa á milli flokka en slíkir hlutir koma gjarnan við sögu í sambandi við stjórn fiskveiða.

Það kom fram í ræðu hv. formanns sjútvn. að áheyrnarfulltrúi þingflokks óháðra í nefndinni fylgdist með undirbúningi þess samkomulags sem hér hefur verið kynnt og fyrir liggur á þskj. 1195 og er sammála þeirri niðurstöðu sem þar er fengin sem málamiðlun milli sjónarmiða flokkanna.

Ég vil lýsa ánægju yfir því að hér á lokamínútum funda Alþingis á þessu vorþingi, að frátöldu því stefnumóti sem við eigum síðar í mánuðinum, skuli hafa tekist samkomulag af þeim toga sem fyrir liggur og sem léttir svolítið þær miklu þrengingar sem krókaveiðibátar búa við vegna þess hvernig kerfið hefur leikið þá á undanförnum árum.

Það er umhugsunarefni út af fyrir sig hversu flóknar fiskveiðistjórnarreglurnar eru orðnar og ég hygg að það þurfi þó nokkra yfirlegu fyrir venjulegt fólk að átta sig á þeim gífurlega flóknu reglum sem eiga m.a. við veiðar smábáta.

Þótt þær breytingar sem hér er verið að gera séu ekki miklar, þá eru þær til bóta og því hlýt ég að lýsa yfir eindregnum stuðningi við þær. Það er verið að bæta inn heimild til veiða einn mánuð á haustdögum fyrir þessa báta eins og fram kemur í a-lið 1. gr. frv. og það sem mestu munar kannski þegar fram í sækir er að viðmiðuninni varðandi fækkun sóknardaga er breytt frá 25% niður í 10%. Og þó að ekki bjargist margir dagar við það ef til skerðingar kemur, þá munar um þetta.

Í sambandi við stöðu smábátanna almennt vil ég segja að það er sjónarmið okkar í þingflokki óháðra og í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að gera þurfi mjög róttækar breytingar til þess að styrkja stöðu bátaútgerðarinnar almennt og smábátaútgerðarinnar þar á meðal. Þessi útgerð hefur farið halloka í krafti þess afleita kerfis sem við búum við í stjórn fiskveiða. Það þarf að skilgreina veiðarnar alveg upp á nýtt, báta- og smábátaútgerðina, og koma í veg fyrir að framhald verði á því ryksugukerfi stórra báta sem þeir nota til þess að færa aflaheimildir til sín og útiloka þennan veiðiskap. Smábátaveiðar eru gífurlega þýðingarmiklar víða um land og þær eru vistvænar veiðar. Þær eru fjölskylduvænar veiðar og það munar um þær í sambandi við afla til landvinnslunnar. Ég lýsi ánægju minni með þetta samkomulag og við hefðum betur verið sammála á fleiri sviðum á því þingi sem er senn að ljúka.