Ferill 51. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 51 — 51. mál.



Frumvarp til stjórnarskipunarlaga



um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Flm.: Siv Friðleifsdóttir.



1. gr.

    51. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo:
    Ráðherrar mega ekki eiga sæti á Alþingi. Þó eiga þeir rétt á að taka þátt í umræðum eins oft og þeir vilja og svara fyrirspurnum, en gæta verða þeir þingskapa.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Íslenskt réttarríki byggist á hugmyndum franskra umbótasinna á 18. öld um greiningu rík­isvaldsins í þrjá þætti, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, sbr. 2. gr. stjórnar­skrárinnar. Hugsunin með slíkri skiptingu var að hver valdhafi um sig takmarkaði vald hins, en hver hluti ríkisvaldsins fyrir sig átti þó að vera sem sjálfstæðastur. Þó að stjórnarskrá okkar byggist á þessum hugmyndum gerir hún samt ráð fyrir að ráðherrar geti jafnframt verið alþingismenn. Aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdarvalds er því í raun ekki eins mik­ill og 2. gr. stjórnarskrárinnar áskilur.
    Sagt er að stærsti hluti hinnar eiginlegu vinnu við þingmál fari fram í þingnefndum. Sú hefð hefur hins vegar skapast að ráðherrar eiga ekki sæti í nefndum þingsins. Núverandi fyr­irkomulag leiðir því til þess að um sjötti hluti þingheims er ekki nema að litlu leyti virkur í þingstarfinu. Með þessu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga er lagt til að ráðherrar geti ekki átt sæti á þingi þann tíma er þeir gegna ráðherradómi. Jafnhliða þeirri breytingu, sem frum­varpið mælir fyrir um, telur flutningsmaður rétt að skoða hvort ástæða sé til að fækka þing­mönnum. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði sú að um leið og forseti hefur skipað al­þingismann ráðherra taki varamaður sæti ráðherrans á þingi. Ráðherra á hins vegar rétt á þingsæti sínu aftur jafnskjótt og hann lætur af ráðherradómi ef þing hefur ekki verið rofið og boðað til nýrra kosninga. Með þessu móti munu allir sem sæti eiga á Alþingi hverju sinni geta sinnt þeim skyldum sem á þeim hvíla. Hins vegar er áfram gert ráð fyrir að ráðherrar geti tekið þátt í umræðum á þingi og svarað fyrirspurnum samkvæmt nánari reglum sem sett­ar yrðu þar um í þingsköpum. Sú breyting á stjórnarskránni, sem hér er lögð til, á sér hlið­stæðu bæði í Noregi og Svíþjóð þar sem slíkt fyrirkomulag þykir hafa gefist mjög vel.