Ferill 95. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 95 — 95. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um sérstakt átak til að draga úr reykingum kvenna.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir,


Kristín Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að efna til sérstaks átaks til að draga úr reyk­ingum kvenna. Verði sjónum einkum beint að stúlkum og ungum konum þannig að takast megi að koma í veg fyrir að stúlkur hefji reykingar og þær sem byrjaðar eru hætti.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á 122. löggjafarþingi en varð þá eigi útrædd.
    Á undanförnum árum hefur margsinnis verið bent á þá staðreynd að íslenskar konur eru meðal mestu reykingakvenna í Evrópu. Aðeins danskar konur reykja meira en þær íslensku. Á sama tíma og íslenskir karlmenn hafa dregið verulega úr reykingum virðist konum ganga verr að hætta að reykja og nú er svo komið að konur og karlar reykja jafnmikið, en þar höfðu karlar löngum mikið forskot. Jafnframt hefur komið fram að dánartíðni kvenna af völdum lungnakrabba hér á landi er einhver sú hæsta í heimi og hefur því miður hækkað. Nýlegar rannsóknir benda til þess að konur þoli reykingar mun verr en karlar, auk þess sem æ betur kemur í ljós að áhrif reykinga á heilsu kvenna eru miklu víðfeðmari en áður var talið. Þannig valda reykingar ekki aðeins krabbameini í lungum heldur tengjast þær brjóstakrabba, krabba­meini í legi, hjarta- og æðasjúkdómum, beinþynningu o.fl. Nikótín er miklu sterkara eitur en menn hafa viljað viðurkenna. Bandarískur læknir sagði flutningsmanni að rannsóknir sýndu að rottur gerðu engan mun á heróíni og nikótíni, þær væru jafnsólgnar í hvort tveggja. Heróín er stranglega bannað en tóbak er selt ómælt.
    Á ráðstefnu um heilsu kvenna sem haldin var á vegum heilbrigðisráðuneytisins sl. vetur kom fram að aldur þeirra kvenna sem hefja reykingar hefur farið stöðugt lækkandi. Upp úr 1960 hófu konur reykingar eftir tvítugt, en nú hefja stúlkur reykingar á unglingsaldri, 14–15 ára. Þetta þýðir að sá tími ævinnar sem konur reykja hefur lengst verulega. Það á því miður eftir að skila sér í mun verri heilsu síðar meir og þar með auknum kostnaði fyrir heilbrigðis­kerfið og í tjóni fyrir samfélagið. Ungir og óþroskaðir líkamar glíma við eiturverkanir sem hljóta að hafa í för með sér heilsutjón síðar meir. Tóbaksframleiðendur sem eiga nú í vök að verjast beina sjónum mjög að ungu fólki og snýst nýjasta herferðin um það að fá konur til að reykja vindla, undir þeim formerkjum að þannig séu þær jafnokar karla, gott ef það hefur ekki örvandi áhrif á samskipti kynjanna að hafa vindla um hönd.
    Umhverfið og félagahópurinn hefur veruleg áhrif á það hvort unglingar byrja að reykja eða ekki. Því er afar nauðsynlegt að beina áróðri gegn misnotkun á tóbaki að þeim og þá sér­staklega stúlkunum sem er enn hættara við sjúkdómum og heilsutjóni, þótt alls ekki megi gleyma strákunum.
    Afleiðingar reykinga eru eitthvert alvarlegasta og erfiðasta viðfangsefni heilbrigðisþjón­ustunnar. Það er stórkostlegt hagsmunamál þjóðarinnar að draga úr reykingum til að bæta megi líðan einstaklinga, bjarga mannslífum og draga verulega úr kostnaði samfélagsins. Öflugri forvarnir eru besta leiðin til að ná árangri í baráttunni við þann aldagamla ósið sem tóbaksnotkun er. Tilgangur þessarar tillögu er sá að fá heilbrigðisyfirvöld til þess að beina sjónum að reykingum kvenna sérstaklega þannig að hluti þess fjármagns sem nú þegar er var­ið til tóbaksvarna verði notaður til að ná til þess allt of fjölmenna hóps kvenna sem reykir.