Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 98 —  98. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um fyrirbyggjandi aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að setja á fót nefnd sem hafi það hlutverk að kanna hvort og þá hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir geti orðið til að draga úr þunglyndi meðal kvenna. Verði tillögum nefndarinnar síðan fylgt eftir með sérstöku átaki heilbrigðisyfir­valda.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á 122. löggjafarþingi en varð þá eigi útrædd.
    Á ráðstefnu heilbrigðisráðuneytisins um heilsu kvenna sem haldin var sl. vetur kom fram að um 20% kvenna fá veruleg þunglyndiseinkenni einhvern tíma á ævinni meðan samsvar­andi tala fyrir karla er um 10%. Erfiðlega hefur gengið að skýra þennan mikla mun og hafa margar kenningar verið settar fram, svo sem um áhrif kvenhormóna, erfðir, önnur áhrif lyfja á konur en karla o.fl. Ljóst er að félagslegar aðstæður kvenna hafa mikil áhrif á líkamlegt og andlegt ástand þeirra, en svo sem kunnugt er þá eru félagslegar aðstæður kvenna að jafn­aði verri en karla nánast alls staðar í heiminum. Kvenfyrirlitning sem m.a. birtist í lágum launum kvenna, mikið vinnuálag, ábyrgð á heimili og börnum, heimilisofbeldi, skilnaðir og einvera með börnum, ásamt ýmiss konar áföllum í lífinu, allt hefur þetta áhrif í þá veru að gera margar konur kvíðnar og þunglyndar.
    Á fyrrnefndri ráðstefnu var því varpað fram af Halldóru Ólafsdóttur geðlækni hvort ekki væri ástæða til að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að draga úr þunglyndi. Á sínum tíma hófst mikil herferð til að draga úr hjarta- og æðasjúkdómum með góðum árangri. Fólki var bent á hvernig breytt mataræði og aukin hreyfing gæti dregið úr hættu á slíkum sjúkdómum sem leiddi til þess að margir hugsa nú mun betur um heilsuna en áður. Með aukinni fræðslu um þunglyndi og einkenni þess, sem og bættum rannsóknum á áhættuþáttum og ráðlegging­um um æskileg viðbrögð mætti án efa draga úr þunglyndi meðal kvenna og karla og þar með bæta heilsu og líðan og minnka lyfjanotkun og kostnað í heilbrigðiskerfinu.
    Öllum má ljóst vera að það er ekki á valdi heilbrigðisráðherra að bæta félagslega stöðu kvenna nema hvað varðar tryggingabætur og aðgang að heilbrigðisþjónustu. Þar þurfa aðrar og víðtækari aðgerðir að koma til. Heilbrigðisyfirvöld geta þó lagt sitt af mörkum til að draga úr þunglyndi kvenna með því að efla rannsóknir og efna til fræðsluherferðar sem einkum yrði beint að konum og fjölskyldum þeirra. Það er tilgangur þessarar tillögu að fá heilbrigðisyfirvöld til að grípa nú þegar til aðgerða þannig að draga megi verulega úr þeim hörmulegu afleiðingum sem þunglyndi hefur á líf þeirra sem við það stríða, sem og aðstand­enda þeirra og samfélagið allt.