Ferill 170. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 173  —  170. mál.



Frumvarp til laga



um ráðstafanir í skattamálum.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Ágúst Einarsson.



I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 96. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Komi í ljós að álagning á skattaðila hafi verið of há getur hann krafist að skattstjóri endurákvarði honum skatt samkvæmt þessari grein sex ár aftur í tímann, talið frá byrjun þess árs þegar krafa hans um endurákvörðun er sett fram.

2. gr.


    Við 2. mgr. 97. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þetta gildir þó ekki um endurákvörðun sem fer fram að kröfu skattaðila.

3. gr.


    Við 2. mgr. 112. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó skal greiða dráttarvexti skv. 10. gr. vaxtalaga, nr. 25/1987, frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um að endurákvörðun færi fram. Vextir skulu þó ekki greiddir ef endurgreiðsla fer fram innan 30 daga frá því að fé var oftekið. Það sama gildir um greiðslu dráttarvaxta ef endurgreiðsla fer fram innan 30 daga frá því að krafa um endurákvörðun var gerð.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar.
4. gr.

    Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Komi í ljós að álagning þungaskatts á skattaðila hafi verið of há getur hann krafist að skattstjóri endurákvarði honum þungaskatt samkvæmt lögum þessum sex ár aftur í tímann, talið frá byrjun þess árs þegar krafa hans um endurákvörðun er sett fram. Um vexti af endurgreiðslum gilda ákvæði 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
5. gr.

    Við 8. mgr. 28. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Það sama gildir ef skilafé samkvæmt lögunum er ofreiknað. Endurgreiða skal launagreiðanda ofreiknað skilafé sex ár aftur í tímann, talið frá byrjun þess árs þegar krafa hans um endurgreiðslu er sett fram. Um vexti af endurgreiðslum gilda ákvæði 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

IV. KAFLI
Breyting á tollalögum nr. 55/1987, með síðari breytingum.
6. gr.

    Við 99. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Komi í ljós að innflytjandi hafi ofgreitt aðflutningsgjöld getur hann krafist að tollstjóri endurákvarði honum aðflutningsgjöld samkvæmt þessari grein sex ár aftur í tímann, talið frá byrjun þess árs þegar krafa hans um endurákvörðun er sett fram. Um vexti af endur­greiðslum gilda ákvæði 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

7. gr.

    Við 26. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Komi í ljós að skattaðili hafi ofgreitt virðisaukaskatt getur hann krafist að skattstjóri endurákvarði honum virðisaukaskatt samkvæmt þessari grein sex ár aftur í tímann, talið frá byrjun þess árs þegar krafa hans um endurákvörðun er sett fram. Um vexti af endur­greiðslum gilda ákvæði 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
8. gr.

    Við 7. mgr. 17. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Það sama gildir ef skattur samkvæmt lögunum er ofreiknaður. Endurgreiða skal skilaskyldum aðila ofreiknað skilafé sex ár aftur í tímann, talið frá byrjun þess árs þegar krafa hans um endurgreiðslu er sett fram. Um vexti af endurgreiðslum gilda ákvæði 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

9. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Fjármálaráðherra skal fyrir árslok 1999 láta fara fram heildstæða úttekt á öllum þeim sköttum og gjöldum sem ríki og sveitarfélög leggja á einstaklinga og lögaðila hér á landi og hvaða málsmeðferðarreglur gilda um endurákvörðun slíkra skatta. Í framhaldi af þeirri úttekt skal fjármálaráðherra láta semja lagafrumvarp sem tryggi jafnræði skattþegna og hins opinbera við endurákvörðun skatta og opinberra gjalda á öllum sviðum skattlagningar.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er ætlunin að jafna aðstöðumun milli skattyfirvalda og skattþegna varðandi endurákvörðun skatta og opinberra gjalda. Skattyfirvöld, skattstjórar og tollstjórar hafa að meginstefnu til heimild til þess að endurákvarða skatta og önnur gjöld sex ár aftur í tímann frá því að þeim verður kunnugt um að upplýsingar í skattframtali hafi ekki verið fullnægjandi, sbr. meðal annars 96. og 97. gr. núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, 16. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, og 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ákvæðin eiga það öll sammerkt að þar er fyrst og fremst um heimild skattstjóra að ræða en ekki skyldu. Heimild þessa nýtir skattstjóri nánast undantekningar­laust ef um er að ræða vangoldna skatta og gjöld, enda eðlilegt í ljósi jafnræðisreglunnar. Á hinn bóginn kann að vera að heimild þessi sé ekki nýtt í sama mæli í þágu skattþegnanna þegar greiddir hafa verið of háir skattar einhverra hluta vegna.
    Má í því sambandi vekja athygli á dómi Hæstaréttar frá 19. desember 1996. Með dómin­um var viðurkenndur réttur stefnanda til að gjaldfæra á skattframtali eigin lífeyriskaup, en hann stóð í eigin atvinnurekstri. Hér var um stefnubreytingu að ræða miðað við fyrri túlkun yfirskattanefndar og áður ríkisskattstjóra á 3. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, með vísan til eftirfarandi forsendna: „er það meginregla í skattarétti, að öll gjöld, sem fara í að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við, komi til frádráttar frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Allar undantekningar frá þeirri reglu verða að vera skýrar og ótví­ræðar. [...] Er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms, að atvinnurekandaframlag stefnda í eigin lífeyrissjóð falli undir rekstrarkostnað, sem heimilt sé að gjaldfæra.“ Í kjölfar þessa dóms komu fram kröfur af hálfu fjölda skattþegna um að fram færi endurákvörðun á skatti þeirra sex ár aftur í tímann með vísan til heimildar í 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þessu var hafnað af hálfu skattyfirvalda og bent á að skattkröfur fyrnist á fjór­um árum og því eigi skattþegnar ekki rétt á endurákvörðun skatta vegna þessa dóms nema síðustu fjögur ár frá því að beiðni um endurákvörðun kemur fram. Velta má því fyrir sér hvort niðurstaðan hefði verið önnur ef um hefði verið að ræða niðurstöðu í deilu um túlkun skattalaga sem hefði verið skattyfirvöldum í hag.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að tryggja jafnræði skattþegnanna gagnvart ríkisvaldinu varðandi endurákvörðun skatta. Verði til dæmis breytingar á lagatúlkun skattþegni í vil skal hann eiga ótvíræðan rétt til þess að krefjast endurákvörðunar á skattgreiðslum sínum sex ár aftur í tímann með sama hætti og skattyfirvöld hafa talið sér heimilt að endurákvarða skatt verði slíkar breytingar til hagsbóta fyrir ríkissjóð. Frumvarpinu er einnig ætlað að ná til allra annarra atriða sem kunna að leiða til þess að skattþegn hafi ofgreitt skatta, svo sem ef skattþegn kemst að því að hann hafði heimild til að draga tiltekinn rekstrarkostnað frá tekjum eða fær vitneskju um ívilnun í skattalögum sem hann hefur ekki nýtt sér til hags­bóta. Skiptir ekki máli í því sambandi hvaða atvik breytast skattþegni í vil, hvort heldur um er að ræða ný gögn, aukna vitneskju um meðferð tiltekinna skattkrafna eða breytta lagatúlk­un. Gert er ráð fyrir að skattaðili muni í öllum þeim tilvikum eiga rétt á endurákvörðun skatta. Þó munu slíkar breytingar eðli málsins samkvæmt ekki ná til þess ef gerðar eru breytingar á skattalögum. Slíkar lagabreytingar munu einungis hafa áhrif frá gildistökudegi.
    Mjög mikilvægt er að það komi skýrt fram í lögum að um rétt skattaðila til endurákvörð­unar er að ræða. Af því leiðir að fyrningarfrestur byrjar ekki að líða vegna þessara skatt­krafna fyrr en endurákvörðun hefur farið fram. Ekki verður hróflað við þeim fyrningarfresti sem gildir um skattkröfur eftir að þær eru orðnar til. Einnig er rétt að geta þess að ekki er hróflað við þeim ákvæðum laga sem gilda um endurgreiðslu oftekinna skatta þar sem greitt er umfram rétta álagningu. Um slíkar greiðslur munu lög nr. 29/1995 gilda eftir sem áður.
    Taka ber fram að frumvarpinu er ekki ætlað að breyta venjuhelgaðri framkvæmd skatt­yfirvalda við endurupptöku mála skattaðila í hag. Í sumum tilvikum hefur ríkisskattstjóri með vísan til 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, endurákvarðað skatt­aðila skatt lengra en sex ár aftur í tímann mæli sérstakar ástæður með því.
    Ekki er víst að frumvarp þetta nái til allra skatta og opinberra gjalda. Flutningsmönnum hefur ekki gefist kostur á því að gera heildstæða úttekt á þeim málsmeðferðarreglum sem gilda um endurákvörðun skatta og opinberra gjalda hér á landi. Þess vegna er kveðið á um það í ákvæði til bráðabirgða að fjármálaráðherra hlutist til um að gerð verði úttekt á öllum tegundum skatta og opinberra gjalda hér á landi og tryggi í framhaldi að jafnræðis sé gætt milli skattyfirvalda og skattþegna við ákvörðun slíkra skatta og gjalda með breytingu á öllum lögum sem varða endurákvörðun skatta og opinberra gjalda eða með setningu sérstakra laga um málsmeðferðarreglur sem gildi um alla skattastjórnsýsluna.