Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 192  —  37. mál.



Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um greiðslukortastarfsemi.

    Svör við fyrirspurn þessari eru að hluta byggð á upplýsingum frá Seðlabanka Íslands, Samkeppnisstofnun, Greiðslumiðlun hf. og Kreditkortum hf. (Europay hf.). Ekki reyndist unnt að afla nægilegra upplýsinga til að veita svör við öllum liðum fyrirspurnarinnar á til­settum tíma og ólíklegt að unnt sé að svara öllu því sem spurt er um.

     1.      Er ráðherra sammála því mati samkeppnisráðs að setja þurfi sérstaka löggjöf um greiðslukortastarfsemi? Ef svo er, er áformað að leggja fram frumvarp til laga um slíka starfsemi?
    Í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 1/1998 er m.a. fjallað um þörf á sérlöggjöf um greiðslukort. Í ákvörðuninni segir m.a. í 5. kafla niðurstaðna:
    „Eins og fram hefur komið eru engin sérlög um greiðslukort í gildi hér á landi en ýmis lög taka til starfseminnar. Starfsemi greiðslukortafyrirtækja með tilliti til samkeppnishamlna og annars tengdu samkeppnismálum fellur undir samkeppnislög. Jafnframt er tilgangur sér­ákvæðanna í VIII. kafla laganna að hafa eftirlit með viðskiptaháttum og skilmálum greiðslu­kortafyrirtækja.
    Samkeppnisráð telur að setja þurfi sérstaka löggjöf um greiðslukortastarfsemi þar sem t.d. greiðslukortafyrirtækjum verði settar starfsreglur og fjárhagslegt eftirlit með starfsemi þeirra tryggt. Þannig verði haft eftirlit með greiðslukortafyrirtækjum til jafns við önnur fjár­málafyrirtæki, svo sem hvað varðar starfsleyfi og fjárhagslega stöðu. Einnig verði réttur greiðsluviðtakenda betur tryggður frá því sem nú er. Hið sama gildir um réttindi korthafa, t.d. um ábyrgðir þriðja manns fyrir úttektum korthafa, en þeim málum er öðruvísi háttað hér á landi en í nágrannaríkjum okkar þrátt fyrir að ýmislegt hafi áunnist á síðustu árum.
    Samkeppnisráð telur mikilvægt að með sérlögum verði ekki á nokkurn hátt dregið úr heimildum samkeppnisyfirvalda til að hafa eftirlit með samkeppnishömlum, viðskiptaháttum og neytendavernd frá því sem nú er á greiðslukortamarkaðnum.“
    Ráðherra er í meginatriðum sammála þeim sjónarmiðum sem fram koma í fyrrgreindu áliti samkeppnisráðs. Rétt þykir hins vegar að rekja í stuttu máli helstu ákvarðanir Alþingis um þessi mál.
    Nú er kveðið á um eftirlit með greiðslukortastarfsemi í VIII. kafla samkeppnislaga, nr. 8/1993. Fyrir setningu þeirra laga hafði á 112., 113. og 115. löggjafarþingi verið lagt fram frumvarp til laga um greiðslukortastarfsemi, þar sem m.a. var kveðið á um skráningu og eft­irlit með starfsemi greiðslukortaútgefenda, réttindi og skyldur kortaútgefenda, ábyrgð kort­hafa og kortaútgefenda, skráningu og meðferð upplýsinga sem kortaútgefandi skráir, viður­lög og málsmeðferð. Frumvörp þessi voru ekki afgreidd. Í greinargerð með frumvarpi til samkeppnislaga sem lagt var fram á 116. löggjafarþingi kemur fram að vorið 1992 hafi efna­hags- og viðskiptanefnd Alþingis óskað eftir því að meginefni frumvarpsins yrði fellt inn í frumvarp til samkeppnislaga og verði samkeppnisráði m.a. veitt heimild til að setja reglur um greiðslukortastarfsemi. Í 40. gr. frumvarpsins var kveðið á um að ráðherra setti með reglugerð nánari reglur um greiðslukortastarfsemi að fengnum tillögum samkeppnisráðs þar að lútandi. Sú grein var felld brott í þinglegri meðferð.
    Ráðherra hefur hins vegar talið tilefni til þess að huga að endurskoðun á þeirri skipan sem ákveðin var af Alþingi samkvæmt framangreindu. Í því efni hefur ráðuneytið haft til skoðun­ar tvær leiðir. Annars vegar að setja sérstök lög um starfsemi greiðslukortafyrirtækja þar sem kveðið yrði sjálfstætt á um starfsleyfi þeirra og skilyrði til starfsleyfis, starfsheimildir og skyldur, eftirlit og fleira. Hins vegar að fella greiðslukortafyrirtæki undir lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, með svipuðum hætti og eign­arleigufyrirtæki, sbr. 9. gr. laganna. Greiðslukortafyrirtækin hefðu þrengri starfsheimildir og þyrftu ekki að uppfylla sömu skilyrði um fjárhæð stofnhlutafjár og lánastofnanir. Hins vegar giltu þá sömu ákvæði um starfsleyfi, rekstur og eftirlit um greiðslukortafyrirtækin.
    Mikil umræða hefur verið um þessi mál og nýjungar í notkun greiðslukorta á alþjóðlegum vettvangi, meðal annars útgáfu svokallaðs rafeyris, en með því er átt við örgjörvakort sem líklegt er að á næstu árum muni koma í stað stað seðla og mynta í flestum tegundum smásölu­viðskipta. Ráðuneytið hefur fylgst með umræðu og þróun á vettvangi Evrópusambandsins og EES. Á þeim vettvangi hafa drög að tilskipun um starfsemi rafeyrisfyrirtækja verið til umfjöllunar. Ekki hefur náðst samstaða um setningu slíkrar tilskipunar og er þess ekki að vænta að hún öðlist gildi á næstu missirum.
    Að mati ráðuneytisins verður ekki skilið milli umræðu um rafeyri og mótun löggjafar þar að lútandi annars vegar og mótun laga um starfsemi greiðslukortafyrirtækja hins vegar. Hef­ur ráðherra því ákveðið að skipa nefnd til að fjalla um þessi mál og móta tillögur um hvernig haga beri löggjöf um greiðslukortastarfsemi, m.a. með hliðsjón af þróun löggjafar á Evr­ópska efnahagssvæðinu. Ákvörðun um breytingar og eftir atvikum framlagningu frumvarps um málið verður tekin á grundvelli vinnu nefndarinnar.
    Rétt er að vekja athygli á því að viðskiptaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, Greiðslu­miðlun hf., Kreditkort hf., Samband íslenskra viðskiptabanka, Samband íslenskra sparisjóða og Neytendasamtökin hafa gert með sér sérstakt samkomulag um að draga úr sjálfskuldar­ábyrgðum. Aðilar að samkomulaginu eru sammála um gildi þeirrar stefnu að draga úr vægi sjálfskuldarábyrgða og að lánveitingar verði í auknum mæli eingöngu miðaðar við greiðslu­getu greiðanda og eigin tryggingar hans. Með samkomulaginu eru settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er sjálfskuldarábyrgð er sett til tryggingar fjár­hagslegri skuldbindingu. Í samkomulaginu eru jafnframt sérákvæði til verndar ábyrgðar­mönnum sem skrifað hafa undir ábyrgð vegna úttektar með kreditkortum.

     2.      Hvaða reglur gilda nú um fjárhagslegt eftirlit með starfsemi greiðslukortafyrirtækja?
    Um eftirlit með greiðslukortastarfsemi gilda ákvæði VIII. kafla samkeppnislaga, nr. 8/1993. Það eftirlit lýtur fyrst og fremst að viðskiptaskilmálum fyrirtækjanna. Starfsemi þeirra fellur hins vegar ekki undir eftirlit bankaeftirlitsins nema að því leyti sem eftirlit þess með viðskiptabönkum og sparisjóðum snertir eignarhlut þeirra í greiðslukortafyrirtækjunum. Við­skiptabönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum er heimilt að stunda greiðslukortastarf­semi og mundi slík starfsemi fyrirtækjanna sjálfra falla undir eftirlit bankaeftirlits sem liður í almennu eftirliti þess með lánastofnunum.
    Það er hins vegar álit ráðherra að stefna beri að því að greiðslukortafyrirtæki lúti sam­bærilegu eftirliti og önnur fyrirtæki á fjármagnsmarkaði.
    Hins vegar ber að líta til þess að fyrirtækin lúta endurskoðun samkvæmt almennum lög­um.

     3.      Hvað má áætla að árleg heildarfjárhæð viðskipta með milligöngu greiðslukorta (kreditkorta) sé há, annars vegar innlend og hins vegar erlend?
    Í Hagtölum mánaðarins, sem Seðlabanki Íslands gefur út, eru birtar veltutölur um kreditkortanotkun. Árið 1997 var veltan 70,4 milljarðar kr. innan lands og um 12 milljarðar kr. er­lendis, eða samtals 82,4 milljarðar kr.

     4.      Hvern má áætla árlegan kostnað af greiðslukortastarfsemi og hvernig skiptist hann milli korthafa, greiðsluviðtakenda, greiðslukortafyrirtækja og banka?
    Ekki fengust upplýsingar um árlegan kostnað af greiðslukortastarfsemi eða hvernig hann skiptist milli þeirra aðila sem spurt er um. Þó má finna nokkra vísbendingu um skiptingu kostnaðar í ársreikningum Greiðslumiðlunar hf. og Kreditskorta hf. fyrir árið 1997. Sam­kvæmt ársreikningi Greiðslumiðlunar hf. er hlutfallsleg skipting rekstrarkostnaðar þannig að korthafar bera 36% í formi kortagjalda (árgjalda, útskriftargjalda, færslugjalda o.fl.), sölu- og þjónustuaðilar um 54% í formi þjónustu- og ábyrgðargjalda, en um 10% er mismun­ur fjármagnstekna og gjalda og tekjur af erlendum viðskiptum.
    Samkvæmt ársreikningi Kreditkorta hf. fyrir árið 1997 greiddu korthafar um 40% af tekj­um félagsins, aðildarfyrirtæki (kaupmenn og þjónustuaðilar) um 40% og mismunurinn, um 20%, voru fjármagnstekjur og gengismunur.

     5.      Hverjar voru tekjur bankakerfisins annars vegar og greiðslukortafyrirtækjanna hins vegar af greiðslukortastarfsemi á árunum 1995, 1996 og 1997?
    Ekki tókst að afla þessara upplýsinga á þeim tíma sem gefinn var til að svara. Mismunandi uppbygging greiðslukortafyrirtækjanna tveggja gerir erfitt að afla nákvæmra upplýsinga um tekjur þeirra annars vegar og bankakerfisins hins vegar af greiðslukortastarfsemi. Útgáfa og öll viðskipti með Eurocard eru hjá Kreditkortum hf. og ganga reikningsskil þess inn í reikningsskil eigendanna, banka og sparisjóða, sem þáttur hlutdeildarfélags samkvæmt svo­nefndri hlutdeildaraðferð. Viðskipti með VISA, kreditkort Greiðslumiðlunar hf., skiptast hins vegar á milli banka og sparisjóða sem útgefenda kortanna og Greiðslumiðlunar hf. sem viðtakanda færslna og þjónustuaðila við útgefendur. Viðskipti með VISA koma því með tvennu móti inn í reikningsskil banka og sparisjóða; annars vegar vegna beinnar hlutdeildar þeirra í árgjöldum, vöxtum og þóknunum og hins vegar vegna hlutdeildar í rekstri Greiðslu­miðlunar hf.

     6.      Að hve miklu leyti má áætla að kostnaður við greiðslukortaviðskipti komi fram í hærra verði á vöru og þjónustu og telur ráðherra eðlilegt að þeir sem staðgreiða fyrir vöru og þjónustu beri kostnað af greiðslukortaviðskiptum til jafns við þá sem greiða með kreditkorti?
    Verðmyndun ræðst af ýmsum þáttum og því er erfitt að greina hvernig kostnaður við greiðslukortaviðskipti kemur fram í verði á vöru og þjónustu. Við úttekt á slíku þyrfti til samanburðar að meta þann kostnað sem hlýst af öðrum greiðsluformum, t.d. peningum. Færa má fyrir því rök að fyrirtæki hafi kostnað af viðtöku seðla, mynta og ávísana, svo dæmi séu tekin. Að öðru jöfnu má búast við að notkun kreditkorta hækki verðlag ef kostnaður söluað­ila af viðtöku kreditkorta er meiri en hagræðið af rafrænum viðskiptum, tryggum greiðslum og hugsanlega auknum ágóða þeirra af meiri viðskiptum. Þannig er ljóst að kostnaður fyrir­tækja af móttöku kreditkorta er mismunandi, sem og hagræði þeirra af sömu viðskiptum. Á frjálsum markaði er það fyrirtækjanna sjálfra að meta þann kostnað sem af viðskiptunum hlýst og taka tillit til hans við verðlagningu til viðskiptavina.

     7.      Hverjar má áætla viðbótartekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti sem til verður af hærra verði á vöru og þjónustu vegna greiðslukortaviðskipta?
    Ekki liggur ljóst fyrir hvort greiðslukortaviðskipti leiði til hærra verðs á vöru og þjónustu, sbr. umfjöllun hér að framan, og því er ekki unnt að svara þessari spurningu.

     8.      Hver er munurinn á hæsta og lægsta gjaldflokki þjónustugjalda greiðslukortafyrirtækja og banka og telur ráðherra eðlilegt að greiðsluviðtakendum sé mismunað með þjónustugjöldum?
    Samkvæmt upplýsingum frá Samkeppnisstofnun er þjónustugjald greiðsluviðtakenda hjá Greiðslumiðlun hf. 0,9–4,0% af veltu í kreditkortaviðskiptum og 0,2–0,8% af veltu í debet­kortaviðskiptum. Samkvæmt gjaldskrá Kreditkorta hf. er þóknun greiðsluviðtakenda fyrir ábyrgð og þjónustu 1,0–3,0% af veltu í kreditkortaviðskiptum og 0,45–0,8% af veltu í debet­kortaviðskiptum. Þá greiða greiðsluviðtakendur einnig svokallaða posaleigu, símakostnað og kostnað við pappírs- og leturborða í posana.
    Gjald greiðslumóttakenda ræðst af tegund viðskipta, veltu og áhættuþáttum og er samn­ingsatriði. Þá er gerður greinarmunur á því hvort viðskipti eru rafræn eða handvirk. Lægsta gjaldið greiða dagvöruverslanir og stórmarkaðir því að áhætta er minni í þeim rekstri, velta að jafnaði mikil og kostnaður greiðslukortafyrirtækjanna því lægri en hjá þeim fyrirtækjum sem greiða hæsta gjaldið. Sem dæmi um fyrirtæki í hæsta flokki eru söluturnar, smærri sér­vöruverslanir, verkstæði, öldurhús og fleiri fyrirtæki sem eru áhættumeiri og hafa minni veltu.
    Viðskiptaráðherra telur ekki óeðlilegt að í þessum viðskiptum sem öðrum fari verð eftir magni viðskipta og áhættu. Ávallt er þó spurning hve mikinn afslátt eigi að veita stærstu við­skiptavinum. Hvorki Samkeppnisstofnun né samkeppnisráð hafa tjáð sig um hvort framan­greindur munur á þjónustugjöldum sé eðlilegur eða ekki.