Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 223  —  205. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, ásamt síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)


1. gr.


    Í stað orðsins „stjórnar“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: forstjóra.

2. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skipar forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar. Forstjóri ræður forstöðumenn setra og aðra starfsmenn stofnunarinnar.
    Forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar, mótar stefnu í störfum hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri hennar. Forstjóri samþykkir fjárhagsáætlanir setra og fylgist með fjár­reiðum þeirra og ráðstöfun fjár. Fjármál einstakra setra eru að öðru leyti á ábyrgð forstöðu­manna þeirra.
    Forstjóri boðar árlega til fundar með starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar og forstöðu­mönnum náttúrustofa til að samræma starfsemina og greina frá niðurstöðum rannsókna.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um hlutverk og starfsskyldur forstjóra og for­stöðumanna, svo og um aðsetur forstjóra á hverjum tíma.

3. gr.


    Við 2. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr stafliður sem orðast svo: að skrá berg- og jarðgrunna landsins með kerfisbundnum hætti og vinna að flokkun námasvæða eftir efni, magni, aðgengi, gæðum og verndargildi.

4. gr.


    Í stað orðsins „stjórnar“ í 4. mgr. 6. gr. laganna kemur: forstjóra.

5. gr.


    4. málsl. 7. gr. laganna fellur brott.

6. gr.


    4. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Náttúrugripi, þar með taldar örverur sem uppruna sinn eiga á jarðhitasvæðum og erfðaefni þeirra, má ekki flytja úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur hverju sinni.

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, ásamt síðari breytingum. Megintilgangur með frumvarpinu er að gera breytingar á stjórnarfyrirkomulagi Náttúrufræðistofnunar Íslands þannig að forstjóri stofnunarinnar fari með stjórn hennar og beri þær skyldur sem stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands hefur haft og að hann ráði jafnframt alla starfsmenn stofnun­arinnar.
    Samkvæmt gildandi lögum hefur stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands á hendi yfirstjórn stofnunarinnar. Stjórnin hefur m.a. haft það hlutverk að fjalla um starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar og fara yfir fjárhagsáætlanir setra og fylgjast með fjárhag þeirra og ráðstöfun fjár. Þær breytingar sem hér eru lagðar til á stjórn stofnunarinnar eru í samræmi við breytta stefnu í rekstrarmálum ríkisstofnana og mótaða stefnu í lögum um réttindi og skyldur starfs­manna ríkisins, nr. 70/1996.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands komi í stað stjórnar stofnunarinnar. Varðandi rök fyrir þessari breytingu er vísað til athugasemda um 2. gr.

Um 2. gr.


    Í greininni er gerð tillaga um að stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands verði lögð niður og að forstjóri stofnunarinnar beri þær skyldur sem stjórnin hefur haft. Þetta er í samræmi við breytta stefnu í rekstrarmálum ríkisstofnana, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Sem dæmi um þessa breyttu stefnu má nefna að með lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, kom forstjóri í stað stjórnar sem var yfir Hollustuvernd ríkisins.
    Lagt er til að forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands beri alla ábyrgð á fjárreiðum hennar og rekstri í samræmi við fyrrgreind lög nr. 70/1996.
    Einnig er lögð til sú breyting á 3. gr. laganna að nú skipi forstjóri forstöðumenn setra stofnunarinnar í stað ráðherra og er þessi breyting í samræmi við lög nr. 70/1996. Samkvæmt 6. mgr. 3. gr. gildandi laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur skipar um­hverfisráðherra forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og forstöðumenn setra hennar til fimm ára í senn. Með nýjum lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sem öðluðust gildi 1. júlí 1996, er gerður greinarmunur á starfsmönnum eftir því hvort þeir gegna „störfum“ sem lögin ná til eða „embættum“, en í síðara tilvikinu er einungis átt við starf sem maður er skipaður til að gegna, sbr. 22. gr. laganna. Í þeirri grein eru taldir upp þeir starfsmenn ríkisins sem teljast embættismenn, en þar kemur fram að í þeim hópi eru forstöðumenn ríkisstofnana, sbr. 13. tölul. greinarinnar.
    Þar sem forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands er eini embættismaður stofnunarinnar í skilningi áðurnefndra laga er lagt til að forstjóri verði einn skipaður af ráðherra en forstöðu­menn setra og aðrir starfsmenn stofnunarinnar verði ráðnir af forstjóra.

Um 3. gr.


    Í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku sam­félagi, sem samþykkt var af ríkisstjórn Íslands í febrúar 1997, hefur umhverfisráðherra ákveðið að Náttúrfræðistofnun Íslands beri m.a. að skrá jarðefni, flokka námasvæði eftir efni, magni, aðgengi, gæðum efnis og verndargildi og skapa þannig grunn fyrir áætlun til langs tíma um nýtingu og vernd jarðefna á einstökum landsvæðum. Talið hefur verið á grundvelli 4. gr. gildandi laga að stofnunin eigi ekki aðeins að annast rannsóknir á berg­grunni landsins heldur einnig rannsóknir á jarðgrunni sem sýni laus jarðlög og þar með mögulegar námur. Gerð er sú tillaga að þessi breyting verði gerð á greininni til að taka allan vafa um fyrrgreint hlutverk stofnunarinnar og jafnframt að eyða óvissu sem upp gæti komið um gerð jarðgrunnskorta og rannsóknir á lausum jarðefnum með tilkomu laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998.
    

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Lagt er til að 4. málsl. 7. gr. falli brott þar sem gert er ráð fyrir að almenn heimild for­stjóra til að ráða starfsmenn stofnunarinnar verði að finna í 1. mgr. 3. gr. laganna. Að öðru leyti er vísað til athugasemda um 2. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.


    Í samningnum um líffræðilega fjölbreytni, sem Ísland fullgilti 4. nóvember 1994 og sem tók gildi 11. desember 1994 er viðurkennt að þau verðmæti sem finna megi í lífríki einstakra landa tilheyri upprunalandinu og utanaðkomandi aðilum sé óheimilt að hagnýta sér slík verð­mæti án samþykkis og eftirlits viðkomandi lands. Með þessu ákvæði er verið að tryggja markmið samningsins að þessu leyti, en ekki hafa enn verið sett lög á Íslandi sem hafa þann tilgang.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og
náttúrustofur, ásamt síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands verði lögð niður og að forstjóri verði að fullu ábyrgur fyrir stjórn og fjárreiðum stofnunarinnar. Á síðasta ári nam kostnaður vegna stjórnarinnar um 0,5 m.kr. og lækkar kostnaður sem því nemur. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfesta verði það hlutverk stofnunarinnar að skrá berg- og jarðgrunna landsins o.fl. Þegar er áætlað fyrir útgjöldum vegna þeirra starfa í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999 og hefur þetta ákvæði því ekki í för með sér kostnaðarauka á næsta ári. Endanlegt umfang verkefnisins er ekki ljóst né kostnaðarþátttaka annarra, svo sem sveitarfélaga.
    Í heild er því ætlað að frumvarpið hafi í för með sér lítils háttar sparnað verði það óbreytt að lögum.