Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 272  —  241. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stuðning ríkisvaldsins við kræklingarækt og annan fjörubúskap.

Flm.: Ólafur Hannibalsson, Guðjón Guðmundsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lagalega umgjörð fyrir kræklingaeldi og hvers konar annan fjörubúskap sem ætla má að verði á næstu árum tekinn upp á lögbýlum sem aðgang eiga að sjó og að sjá til þess að á viðeigandi rannsóknastofnunum verði sú sérfræðiþekking fyrir hendi sem að haldi má koma og þarf til þess að leiðbeina væntanlegum ræktendum skelfisks og hafa fullnægjandi eftirlit með framleiðslu þeirra í samræmi við kröfur einstakra markaða.

Greinargerð.


    Fjörunytjar hafa verið stundaðar á Íslandi frá aldaöðli. Sá búskapur hefur þó hingað til ekki verið skipulegur ef frá er talinn þarasláttur bænda við Breiðafjörð fyrir Þörungaverk­smiðjuna á Reykhólum og margvíslegar tilraunir til kvíaeldis á laxi hin síðustu ár.
    Langt er síðan athygli manna beindist að eldi á skelfiski. Skömmu fyrir stríð fékk sænskt fyrirtæki einkaleyfi hér til ostruræktar, sem það hugðist koma á fót í Hvalfirði. Eru lögin sem sett voru um það efni, nr. 21 12. júní 1939, birt hér á eftir sem fylgiskjal með greinargerðinni mönnum til gamans og sögulegs fróðleiks.
    Á síðustu árum hafa ýmsir beint sjónum að eldi á kræklingi (bláskel, Mytulus edulis). Verður þá að hafa í huga að starfsemi þessi fer fram í netlögum sjávarjarða, og mun strand­lengjan mestöll tilheyra lögbýlum. Því heyrir mál þetta undir landbúnaðarráðuneytið, félaga­kerfi landbúnaðarins og sjóði á þess vegum. Sjá flutningsmenn enga ástæðu til að breyta því. Hins vegar er nauðsynlegt að skapa þessari nýju atvinnugrein lagaumhverfi við hæfi.
    Fyrsta flutningsmanni er kunnugt um að töluverð sérþekking er til á Hafrannsóknastofn­unni varðandi lífsháttu kræklings hér við land. Dr. Guðrún Þórarinsdóttir stóð fyrir eldistil­raunum á kræklingi í Hvalfirði fyrir áratug og kom í ljós að hann hafði þolanlegan vaxtar­hraða, náði markaðsstærð, 75–100 mm (3–4 þumlungum), á tveimur árum. Besti árangur erlendis er eitt og hálft ár og munar þar náttúrlega talsverðu í afkastagetu og fjárhagslegum ávinningi. Sjálfsagt væri að kanna hvort ávinningur væri í því að flytja inn annan stofn með meiri vaxtarhraða undir ströngu vísindalegu eftirliti og með tilheyrandi sóttvarnarráðstöfun­um. Fordæmi er fyrir slíku þegar M. edulis var fluttur með góðum árangri frá Atlantshafsströnd Kanada til Bresku-Kólumbíu við Kyrrahaf og þess vandlega gætt að engir sjúkdómar eða sníkjudýr fylgdu með.
    Helsti kostur skeldýraeldis af þessu tagi er sá að til eldisins þarf ekkert fóður. Skelfiskur­inn vinnur sjálfur fæðu sína úr sjó. Sú eldisaðferð sem algengust er í Kanada er að strengja tvær langar, láréttar línur á enda málmsívalninga sem komið er fyrir með vissu millibili og samstæðan tryggilega fest við botninn til endanna. Niður úr höfuðlínunum eru hengd reipi, sem kræklingurinn tengir sig við með spunaþræði, eða netpokar með kræklingnum í. Þessa tækni tóku brautryðjendur í Norður-Ameríku upp eftir ostru- og hörpudiskræktendum í Japan.
    Við val á eldisstað þarf helst að varast afrán æðarfugls og krossfiska. Lagnaðarís þarf ekki að vera neitt vandamál ef þess er gætt að lengja í uppistöðunum og ísinn gerir í raun kræklingnum ekkert nema að hægja á vaxtarhraða.
    Þótt eldið sé einfalt og ódýrt þarf þó nokkra stofnfjárfestingu í reipum, akkerum, flotholt­um, netpokum o.fl. og hafa ber í huga að tvö ár líða frá upphafi rekstrar þar til fyrsta upp­skera næst. Því þurfa brautryðjendur í greininni að hafa góðan aðgang að stofnlánum til þessara hluta. Lánakerfi landbúnaðarins er vel í stakk búið til að sinna þessari þörf og sama má segja um ráðunautaþjónustuna, sem byggist á gömlum merg.
    Hitt ættu menn að varast frá upphafi að blanda byggðasjónarmiðum eða öðrum félagsleg­um viðhorfum í þetta mál, eins og gjarnan hefur tíðkast með nýjungar í atvinnugreinum á sviði landbúnaðarins. Þessi atvinnugrein hefur alla burði til að standa undir sér á eigin fótum og á ekki að byggjast á öðru en hreinum viðskiptasjónarmiðum.
    Afskipti ríkisins ættu frá upphafi að vera þau ein að skapa greininni hagstætt lagaum­hverfi frá byrjun og sjá henni fyrir eðlilegri þjónustu stofnana eins og Hafrannsóknastofnun­arinnar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, fjármálastofnana og stofnana landbúnaðar­ins. Þá þarf atvinnugreinin strangt aðhald eftirlitsstofnana, þar sem á mörkuðunum eru gerð­ar strangar kröfur um gæði skelfisks og fylgjast þarf vel með skelfiskeitrun og mengun, gera strangar umhverfiskröfur og sjá til þess að framleiðslan fái öll hugsanleg vottorð þar að lút­andi frá aðilum sem teknir eru gildir á alþjóðavettvangi.
    Markaðshorfur á þessu sviði eru mjög góðar. Framleiðendur hafa hingað til engan veginn getað svarað eftirspurn. Vinnslan er vel vélvædd og að mestu í því fólgin að láta kræklinginn sjálfan hreinsa úr sér sand og óhreinindi en að því loknu er skelin snyrt og flokkuð eftir stærð. Kræklingur er að mestu seldur í skelinni og þannig fæst best verð fyrir hann en komi tímabil þar sem framboð fersks kræklings er umfram eftirspurn má auðvitað frysta hann eða sjóða niður, þótt það skili lægra verði. Helstu framleiðendur nú eru á Nýja Sjálandi og Ír­landi, í Skotlandi, Svíþjóð, Bandaríkjunum og Kanada auk rótgróinna framleiðenda í Hol­landi, Frakklandi og á Spáni.
    Fyrsti flutningsmaður hefur átt þess kost að kynnast þessum iðnaði á Prince Edwards eyju, minnsta sjálfstjórnarhéraði Kanada, 130 þúsund manna eyju í St. Lárensflóa. Þar hefur þessi iðnaður orðið að stóratvinnugrein innan sjávarbúskapar á 10–15 árum. Uppbyggingunni hefur verið stjórnað með opinberum leyfisveitingum. Hafa þyrfti í huga hér á landi í upphaf­inu að beina fyrirgreiðslu til samvinnuhópa fjörubænda, sem sameinuðust um vinnslustöð og jafnvel sameiginleg innkaup á stofnfjárfestingarvörum. Þessir staðir þyrftu að liggja vel við flugsamgöngum því að afurðirnar þurfa að komast á markað eins fljótt og unnt er þar sem líftími þeirra er stuttur, 2–3 vikur að hámarki, og hver dagur dýrmætur á leið þeirra á disk neytandans.
    Á Prince Edwards eyju er þetta orðinn talsvert sérhæfður iðnaður sem byggður hefur ver­ið upp skipulega á 10–15 árum. Sérstakar klakstöðvar sjá um að koma lirfunum af stað og ala upp í skelstærð. Þær fara síðan í eldisstöð og eru aldar þar áfram í hæfilega stærð til flutnings í sjó. Sér þá hver um þann þátt sem hentastur er á hverjum stað og aðrir geta snúið sér að því sem þeim fer best úr hendi. Má þá búast við betri árangri og öruggari afkomu. Á Prince Edwards eyju eru nú framleidd um 9.000 tonn af kræklingi á ári að útflutningsverð­mæti um 1 milljarður kr. og starfsmenn eru um 650. Landþrengsli eru farin að há vexti grein­arinnar og því hafa fyrirtæki í kræklingaeldi, ásamt framleiðendum á búnaði, markaðsfyrir­tækjum og fleiri aðilum, verið að færa út kvíarnar til annarra landa og hafa stofnað til sam­starfs um framleiðslu og markaðssetningu. Framleiðsluvara þeirra er markaðssett undir nafn­inu Island Blue og er orðin heimsþekkt gæðavara á veitingastöðum um allan heim. Áhugi þeirra beinist að því að þjóna Evrópumarkaði frá Íslandi og nýta sér þar með víðtækt flutningakerfi Flugleiða á Evrópuleiðum, tíðar og tiltölulega stuttar siglingar frá Íslandi til annarra Evrópulanda og aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu til að njóta tollfríðinda.
    Hópar sjávarbænda á Vesturlandi, við Breiðafjörð og á Vestfjörðum hafa verið að skoða þessi mál og afla sér þekkingar á þeim og eru komnir í samband við kunnáttumenn úr grein­inni frá Prince Edwards eyju fyrir milligöngu vel þekkts íslensks fyrirtækis. Má þess því vænta að fljótlega komi skriður á málið og þarf löggjafinn því að vera við því búinn að skapa greininni lagalegt og fjárhagslegt umhverfi við hæfi.
    Fyrsti flutningsmaður hefur lengi verið þeirrar skoðunar að ræman milli ytri netlagamarka og fjörukambs sé eitthvert auðugasta landsvæði á Íslandi. Hingað til höfum við umgengist það af vægast sagt takmarkaði virðingu og er hirðuleysið raunar öllum sýnilegt sem gaman hafa af fjöruferðum. Sú tillaga sem hér liggur fyrir markar upphaf skipulegs landnáms á þessu svæði. Sé skipulega að verki staðið mun það gefa ríkulega uppskeru og, ef marka má reynslu annarra þjóða, standa undir meiri háttar atvinnurekstri í fyllingu tímans.



Fylgiskjal.


LÖG um ostrurækt,
nr. 21/1939.

Vér Christian hinn Tíundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg,

Gjörum kunnugt: Alþingi hefir fallizt á lög þessi og Vér staðfest þau með samþykki Voru:

1. gr.

    Atvinnumálaráðherra skal heimilt að ákveða í reglugerð, að tiltekin svæði í fjörðum inni skuli um tiltekinn tíma friðuð til ostruræktar fyrir hverskonar veiðum, öðrum en ostruveiðum. Ennfremur skal þar ákveðið, hvernig og á hvaða árstíma heimilt sé að stunda ostruveiðar.
    Slík friðun skal þó því skilyrði bundin, að hún komi ekki í bága við veiðiskap, sem fyrir er á svæðinu, hvort heldur er um að ræða veiði nytjafiska eða skelfiskatekju, nema samkomu­lag náist við þá, er þar eiga hagsmuna að gæta, og ennfremur, að forstjóri fiskveiðideildar rannsóknarstofnunar atvinnuveganna telji ostrurækt nytjavænlega hér við land.

2. gr.

    Enginn má stunda ostrurækt á friðlýstu svæði nema með leyfi atvinnumálaráðherra.
    Leyfi þessi má veita innlendum og erlendum félögum og einstaklingum, og skulu þau bundin við ákveðin svæði og til ákveðins árafjölda. Ennfremur getur atvinnumálaráðherra sett þau skilyrði fyrir leyfum þessum, sem hann telur nauðsynleg til verndar hagsmunum rík­is, almennings eða einstakra manna.

3. gr.

    Sérhver, sem á land eða hefir land til afnota, er liggur að friðlýstu svæði, er skyldur til að þola þær eignakvaðir, óhagræði eða takmörkun á afnotarétti, sem ostruræktin hefir í för með sér, allt gegn því, að fullar bætur komi fyrir af hálfu leyfishafa. Náist ekki samkomulag um bæturnar, skulu þær ákveðnar með mati tveggja dómkvaddra manna. Kostnað við matið greiðir leyfishafi. Nú vill annarhvor málsaðili ekki una mati, og getur hann heimtað yfirmat, en gera skal hann það innan 30 daga frá því að matsgerð er lokið. Yfirmatið skal framkvæmt af 4 dómkvöddum mönnum.
    Kostnaðinn við yfirmatið greiðir sá, er þess hefir krafizt, ef matsupphæðinni verður ekki breytt meira en sem nemur 10% af hinni ákveðnu endurgjaldsupphæð, ella greiðist kostn­aðurinn af leyfishafa.

4. gr.

    Heimilt er að undanþiggja tilrauna-ostrur (móðurdýr) öllum innflutningsgjöldum.

5. gr.

    Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum, allt að 1000 krónum.
    Fara skal um slík mál sem almenn lögreglumál.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Eftir þessu eiga allir hlutaðeigendur sér að hegða.

              Gjört á Sorgenfríhöll, 12. júní 1939.

              Undir Vor konunglega hönd og innsigli.

              Christian R.
              (L.S.)


    ___________________
    Ólafur Thors.