Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 332  —  284. mál.
Frumvarp til lagaum breytingar á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    219. gr. laganna fellur brott.


2. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 220. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Sjópróf fyrir héraðsdómi skal haldið ef Siglingastofnun Íslands, rannsóknarnefnd sjóslysa, eigandi, útgerðarmaður, leigutaki skips eða skipstjóri fyrir þeirra hönd, farm­eigandi eða vátryggjandi skips, áhafnar, farþega eða farms eða lögreglustjóri, yfirvél­stjóri, meiri hluti skipshafnar eða stéttarfélög viðkomandi sjómanna óska þess sérstak­lega. Nú hlýst tjón af siglingu skips eða útgerð skips og getur þá tjónþoli á sama hátt óskað eftir sjóprófi.
     b.      Í stað orðanna „landhelgi, sbr. 1. gr. l. nr. 41/1979“ kemur: efnahagslögsögu, sbr. 3. gr. laga nr. 41/1979.
     c.      Í stað orðanna „getur þá Siglingastofnun Íslands og rannsóknarnefnd sjóslysa“ í 3. mgr. kemur: geta þá sömu aðilar og greinir í 1. mgr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 221. gr. laganna:
     a.      2. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir orðinu „lögregluyfirvöld“ í 3. mgr. kemur: og rannsóknarnefnd sjóslysa.
     c.      5. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Lokamálsliður 222. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    223. og 224. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 226. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Þegar sjópróf fer fram gefur dómari sjóprófsbeiðanda kost á að leiða og spyrja vitni. Aðrir þeir sem óskað geta sjóprófs, sbr. 220. gr., geta á sama hátt leitt og spurt vitni, kynnt sér málsskjöl og gert þær bókanir sem þeir telja nauðsynlegar. Vitnaskýrslur skal bóka eða samandregin skýrsla dómara um framburð vitna hljóðrituð og síðan vélrituð nema dómari telji nauðsyn bera til að milliliðalaus hljóðritun sé notuð.
     b.      3. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað orðanna „við sjópróf skal“ og „jafnframt skal“ í 4. mgr. kemur: við sjópróf getur, og: jafnframt getur.
     d.      5. mgr. orðast svo:
                  Þegar halda skal sjópróf ber sjóprófsbeiðanda að tilkynna Siglingastofnun Íslands, rannsóknarnefnd sjóslysa og lögreglustjóra þar sem sjópróf er haldið þar um.
     e.      6. og 7. mgr. falla brott.
     f.      Á eftir orðinu „senda“ í 8. mgr. kemur: viðkomandi lögreglustjóra.

7. gr.

    Í stað orðanna „getur þá Siglingastofnun Íslands, rannsóknarnefnd sjóslysa, útgerðarmað­ur eða skipstjóri“ í 228. gr. laganna kemur: geta þá þeir sem sjóprófs geta beiðst, sbr. 1. mgr. 220. gr.

8. gr.

    229.–231. gr. laganna falla brott.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi til laga um rannsóknir sjóslysa sem lagt er fram samhliða þessu kemur fram að ekki er lagt til að leggja sjópróf af, enda geta þau verið nauðsynleg af öðrum ástæðum en vegna sjóslysarannsókna sem fara eiga fram sjálfstætt. Af þessum sökum þarf að gera nokkr­ar breytingar á kaflanum um sjópróf í siglingalögum. Annars vegar falla greinarnar um rann­sóknarnefnd sjóslysa brott, og jafnframt er ákvæðið um skyldu skipstjóra til að skrá slys haft í frumvarpinu um rannsóknir sjóslysa, en hins vegar hafa ákvæðin um sjópróf verið endur­skoðuð með hliðsjón af breytingum sem gerðar hafa verið á réttarfari landsins. Meginbreyt­ingin er þó sú að ekki verður lengur skylda að halda sjópróf.
    Samkvæmt 1. mgr. 221. gr. siglingalaga er tilgangur sjóprófs „að leiða í ljós, svo sem framast má verða, orsakir viðkomandi atburðar og aðrar staðreyndir sem máli skipta í því sambandi, þ.m.t. upplýsingar um allt það er varðar mat á haffærni skips eða öryggi á sigl­ingu, svo og um allt er leitt gæti til aukins öryggis sjófarenda eða refsi- eða skaðabóta­ábyrgðar útgerðarmanns, skipstjóra, skipverja eða annarra manna“.
    Þar sem sjóslysarannsóknir fjalla einungis um öryggi sjófarenda er undanskilið það hlut­verk sjóprófa að leiða í ljós refsi- eða skaðabótaábyrgð. Nú er skylt að halda sjópróf ef skip­verji eða farþegi deyr eða slasast alvarlega, svo og ef skip hefur farist, árekstur hefur orðið með skipum, ásigling eða strand átt sér stað, skip hefur laskast að mun eða valdið umtals­verðu tjóni á verðmætum utan skips, svo og þegar skip hefur verið yfirgefið í hafi eða lent í bráðri hættu svo sem þegar sprenging eða eldsvoði verður um borð, þegar farmur hefur færst verulega úr stað eða aðrar sambærilegar hættur ber að. Þá ber að halda sjópróf ef Sigl­ingastofnun Íslands, rannsóknarnefnd sjóslysa, útgerðarmaður eða skipstjóri fyrir hans hönd óska þess sérstaklega, enda þótt um sé að ræða önnur tilvik en að framan greinir.
    Siglingastofnun Íslands eða rannsóknarnefnd sjóslysa geta auk þess krafist þess að sjó­próf séu haldin vegna slysa eða tjóna sem verða á erlendum skipum ef slys verður í íslenskri landhelgi eða þau snerta verulega íslenska hagsmuni, enda komi skipið eða áhöfn þess í íslenska höfn. Loks geta yfirvélstjóri, meiri hluti skipshafnar eða stéttarfélög viðkomandi sjó­manna farið fram á að haldið verði sjópróf og skal þá leggja fram skriflega og rökstudda beiðni þar um.
    Sjópróf eru í eðli sínu hliðstæð þinghöldum sem haldin eru skv. 77. gr. einkamálalaga, og má færa rök fyrir því að þau ákvæði ein séu nægjanlegar heimildir til þess að taka sjóferðar­skýrslu fyrir dómi. Ríkissaksóknari og hagsmunaaðilar telja hins vegar nauðsynlegt með hliðsjón af sérstöðu siglinga og útgerðar að hægt sé að halda sjópróf eins og verið hefur þótt þau verði ekki skylda. Í frumvarpinu er lagt til að sjópróf verði ekki skylda, en hins vegar geti þeir sem getið er í 2. gr. frumvarpsins óskað eftir sjóprófum. Gera má ráð fyrir að sjó­prófum fækki heldur, enda eru flest tilvikin rannsökuð af öðrum aðilum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Þar sem ekki verður lengur skylda að halda sjópróf er greinin óþörf, sbr. almennar at­hugasemdir.

Um 2. gr.


    Hér eru taldir upp þeir aðilar sem geta krafist sjóprófs og þeim fjölgað til samræmis við frumvarp sem Guðmundur Hallvarðsson og fleiri þingmenn hafa flutt. Þá er talið eðlilegt að farmeigendur og vátryggjendur farms, áhafnar, farþega og skips geti krafist sjóprófs, svo og lögreglustjórar. Jafnframt þykir rétt að yfirvélstjóri, meiri hluti áhafnar og stéttarfélög hafi þennan rétt. Þótt rannsóknarnefnd sjóslysa hafi sjálfstæðar rannsóknarheimildir er ekki talið rétt að útiloka þann möguleika að nefndin geti krafist sjóprófs.

Um 3. gr.

    Breytingin er gerð með hliðsjón af réttarfarslögum, og er hún sú að frumkvæðisskyldan er hjá sjóprófsbeiðanda. Dómari stjórnar réttarhaldinu. Fellt er brott ákvæði um að dómari geti fyrirskipað lögreglurannsókn, en óbreytt eru ákvæði um skyldu skipstjóra til að láta lög­reglu vita um mannskaða eða meiri háttar líkamstjón. Síðasta málsgrein 221. gr. fellur brott, en samsvarandi ákvæði er í frumvarpi um rannsóknarnefnd sjóslysa.

Um 4.–9. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á siglingalögum,
nr. 34/1985, með síðari breytingum.

    Breytingar í frumvarpinu eru afleiðing af breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi til laga um rannsóknir sjóslysa það tekur m.a. til rannsóknarnefndar sjóslysa. Einnig eru gerðar breytingar á ákvæðum um sjópróf með hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á réttarfari.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér breytingar á kostnaði ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.