Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 345  —  208. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Ólafs Hannibalssonar um vöxt fiskstofna og stjórnkerfi fisk­veiða.

     1.      Verður vöxtur og viðgangur einstakra tegunda innan fiskveiðilögsögunnar rakinn til þeirrar breytingar að kerfi aðskilinna, framseljanlegra aflaheimilda var tekið upp, sbr. orð ráðherra í ræðu hans á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nýlega?
    Í ræðunni hjá Sameinuðu þjóðunum nú á haustdögum var fjallað um mikilvægi þess að hafa yrði stjórn á fiskveiðum í heiminum. Það var megininntak ræðunnar. Lögð var áhersla á að stjórn og takmörkun á sókn í íslenska fiskstofna hefði tvímælalaust stuðlað að vexti þeirra og viðgangi. Samspil lífríkis og umhverfisþátta í hafinu er hins vegar svo flókið og margslungið fyrirbæri að hæpið er að fullyrða að einn þáttur eða tveir ráði þar úrslitum. Til þess eru hafrannsóknir og fiskrannsóknir ekki nógu fullkomin vísindi.
    Reynslan sýnir að með aflamarki er auðveldara að takmarka veiðarnar en með sóknar­marki. Framseljanlegar aflaheimildir stuðla að hagkvæmni í rekstri sjávarútvegs og auknum arði fyrir þjóðarbúið.

     2.      Hver hefur vöxtur og viðgangur eftirfarandi tegunda verið síðan kerfi framseljanlegra aflaheimilda var tekið upp: Þorskur, ýsa, gullkarfi, djúpkarfi, úthafskarfi, ufsi, stein­bítur, grálúða, skarkoli, sandkoli, langlúra, skrápflúra, innfjarðarrækja, hafrækja, humar, hörpudiskur, loðna, sumargotssíld, norsk-íslensk síld?
    Nákvæmar upplýsingar um vöxt og viðgang einstakra fiskstofna eru ekki fyrirliggjandi hjá utanríkisráðuneytinu, hvorki frá því fyrir eða eftir þann tíma að kerfi framseljanlegra aflaheimilda var tekið upp. Ljóst er að aflamarkskerfið hefur leitt til betri stjórnunar og tak­markana en sóknarmarkskerfið hefði skilað.

     3.      Geta íslenskir vísindamenn á þessu sviði staðfest áðurgreind ummæli ráðherra? Ef ekki, finnst ráðherra þá ástæða til að senda allsherjarþinginu frekari skýringu á um­mælunum?
    Margítrekað hefur komið fram hjá virtum vísindamönnum innan hafrannsókna og hag­fræði að fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga hefur stuðlað að betri nýtingu sjávarfangs og auknum vexti fiskstofna.