Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 361  —  301. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993.

Flm.: Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.



1. gr.


    Á eftir 1. mgr. 22. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Með hugtakinu slys er í lögum þessum átt við skyndilegan atburð sem veldur meiðslum á líkama.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, er meðal annars ætlað að tryggja launafólki bætur í vinnuslysum. Hugtakið slys er ekki skilgreint í lögunum sjálfum, en hins vegar er í 22. gr. þeirra að finna skýringar á hvenær viðkomandi er í vinnu. Þar segir að maður sé í vinnu þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum, í sendiferðum í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildi um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á laun­um hjá vinnuveitanda í ferðinni. Slys telst ekki verða við vinnu ef það hlýst af athöfnum slas­aða sjálfs sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna. Tryggingin tekur þó til allra slysa á sjómanni sem verða um borð í skipi hans eða þegar hann ásamt skipinu er staddur utan heimahafnar skips eða útgerðarstaðar.
    Atvinnusjúkdómar eru einnig lagðir að jöfnu við vinnuslys í greininni. Eins og af þessu má sjá er greininni ætlað að ná til fleiri tilvika en vinnuslysa í þrengstu merkingu þess orðs samkvæmt skilgreiningum í tryggingaskilmálum tryggingafélaga.
    Þegar reynt hefur á túlkun á hugtakinu vinnuslys samkvæmt almannatryggingalögunum hefur tryggingaráð hins vegar stuðst við þrönga skilgreiningu í skilmálum tryggingafélaga og því hvernig dómstólar hafa skilgreint hugtakið slys gagnvart þeim skilmálum. Hefur trygg­ingaráð í því sambandi vísað til þess hvað sé almenn málvenja og eðli máls og vísað til þeirrar skilgreiningar Arnljóts Björnssonar að með orðinu slys í merkingu almannatrygg­ingalaga sé fyrst og fremst átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama. Tryggingaráð hefur einnig vísað til túlkunar á slysahugtakinu í dönsku atvinnuslysa­tryggingalöggjöfinni. Hún getur ekki haft neitt fordæmi hér á landi þar sem tryggingamál í Danmörku eru gerólík því sem hér er.


Prentað upp.

    Þessi túlkun tryggingaráðs leiðir til þess að maður, sem lyftir 100 kg byrði í vinnu sinni og hlýtur af því brjósklos og varanlegan skaða á baki, á ekki rétt á vinnuslysabótum. Slíkt telst ekki utanaðkomandi atburður og því ekki slys í merkingu almannatryggingalaga. (Úr­skurður tryggingaráðs í málinu nr. 340/1997 frá 3. apríl 1998.) Þessi túlkun leiðir einnig til þess að kona sem annast umönnun aldraðra fær ekki bætur á grundvelli þessa ákvæðis við það að sjúklingur sem hún annast dettur á hana og hún hlýtur varanlegan bakskaða. Trygg­ingaráð telur að slíkt sé eðlilegur hluti af starfi konunnar, en ekki „skyndilegur utanaðkom­andi atburður“. (Sjá einnig úrskurði ráðsins í málunum nr. 150/1996, 31/1997 og 77/1997.)
    Þar sem telja má að þröng lagatúlkun Tryggingaráðs sé ekki í samræmi við vilja löggjafans sem virðist augljóslega vera að bæta slys og atvinnusjúkdóma sem tengjast vinnu er lögð til framangreind breyting á 22. gr. almannatryggingalaga. Með því að skilgreina hugtakið slys þannig í almannatryggingalögum að slys sé skyndilegur atburður sem veldur meiðslum á lík­ama er tekið út úr skilgreiningu tryggingafélaganna hugtakið „utanaðkomandi“ sem virðist gefa tryggingaráði tilefni til þröngrar túlkunar sinnar.
    Betra er að ganga hreint til verks og breyta almannatryggingalögum í stað þess að láta reyna á túlkun hugtaksins „slys“ fyrir dómstólum. Sú leið er tímafrek og kostnaðarsöm og kann jafnframt að leiða til sömu niðurstöðu og Tryggingaráð hefur komist að þar sem lög­skýringargögn eru óljós.