Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 371  —  237. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndal um sjómannaafslátt.

     1.      Hver er fullur mánaðarlegur sjómannaafsláttur einstaklings og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að njóta hans?
    Samkvæmt 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síð­ari breytingum, skal sjómannaafsláttur vera 656 kr. fyrir hvern dag, tekjuárið 1998, sbr. a-lið 5. gr. laga nr. 65/1997. Sjómannaafslátturinn er ávallt ákvarðaður miðað við dagafjölda, en ekki miðað við tímabil talin í vikum eða mánuðum. Ef afslátturinn er 656 kr. á dag er fullur mánaðarlegur sjómannaafsláttur einstaklings því 19.953 kr. á þessu ári. Við staðgreiðslu tekjuársins 1999 verður sjómannaafslátturinn 655 kr., eða 19.923 kr. á mánuði. Við stað­greiðslu tekjuársins 1997 var sjómannaafslátturinn hins vegar 671 kr., eða 20.410 kr. á mán­uði.
    Skilyrði um rétt til sjómannaafsláttar byggjast á ákvæðum B-liðar 68. gr. laga um tekju­skatt og eignarskatt og eru útfærð nánar í reglugerð nr. 10/1992, um persónuafslátt og sjó­mannaafslátt, sbr. 12. og 13. gr.
     a.      Rétt til sjómannaafsláttar eiga þeir sem stunda sjómannsstörf og skylt er að lögskrá í skipsrúm fiskiskips. Sama rétt eiga þeir menn sem ráðnir eru sem fiskimenn á fiskiskip undir 12 rúmlestum brúttó eða stunda fiskveiðar á eigin fari, þó að ekki sé skylt að lög­skrá þá. Í því tilviki skal miða við almenna vinnudaga (mánudaga til föstudaga) á úthaldstímabili í stað lögskráningardaga. Úthaldstímabil telst samfellt tímabil sem skipi er haldið úti við veiðar miðað við löndun samkvæmt kvótaskýrslum og vigtarskýrslum. Réttur þessara manna er þó háður því að laun fyrir sjómennsku séu a.m.k. 30% af tekju­skattsstofni þeirra. Þetta á bæði við eigendur skipa sem sjálfir stunda fiskveiðar á eigin fari og launþega á skipum undir 12 rúmlestum brúttó.
     b.      Enn fremur eiga rétt til sjómannaafsláttar sjómenn sem skylt er að lögskrá á varðskip, rannsóknarskip, sanddæluskip sem taka efni utan hafna og flytja það á land, ferju eða farskip sem er í förum milli landa eða í strandsiglingum hér við land. Til viðbótar við þessa sjómenn hefur yfirskattanefnd úrskurðað að sama rétt eigi sjómenn á björgunar­skipum (úrskurður nr. 386/1995) og hafnsögubátum (úrskurður nr. 377/1995), þótt ekki sé kveðið á um það í ákvæðum laganna né reglugerðarinnar. Hæstiréttur hefur í dómi sínum frá árinu 1994, bls. 2912, staðfest rétt hafnsögumanna til sjómannaafsláttar. Þar kemur fram að leiðsögn skipa hljóti að teljast til sjómannsstarfa í almennri merkingu, hvort sem leiðsögumaður er aðfenginn eða í skipsrúmi um borð, og krefjist bæði kunn­áttu og reynslu á sviði siglinga. Þótt hafnsaga eins og í Reykjavík sé stunduð frá landi girðir það eitt ekki fyrir að umrædd ákvæði nái til hennar, eins og efni þeirra í heild er varið. Starfið er áhættusamt og oft unnið við erfið skilyrði, þótt það varði ekki langar siglingar. Dómurinn tók jafnframt fram að hafnsögumaðurinn var lögskráður á báta hafnarinnar vegna starfa síns og að útköll til hafnsögu máttu heita daglegur viðburður. Allt þetta styður tilkall hafnsögumannsins til hins umdeilda afsláttar.
     c.      Jafnframt eiga hlutaráðnir beitningarmenn í fullu starfi, sem ráðnir eru samkvæmt skriflegum samningi um hlutaskipti, rétt á sjómannaafslætti. Beitningarmaður í hlutastarfi eða ákvæðisvinnu á ekki rétt á sjómannaafslætti. Hjá hlutaráðnum beitningarmönnum skal við ákvörðun dagafjölda sem veitir rétt til sjómannaafsláttar miða við þá daga sem þeir eru ráðnir við slík störf samkvæmt skriflegum samningi um hlutaskipti, þó mest þann dagafjölda sem reiknaður er til afsláttar hjá sjómönnum á viðkomandi línubáti.
    Dagafjöldi sjómannaafsláttar ákvarðast af:
     1.      fjölda lögskráðra daga sjómanna á skipum yfir 12 rúmlestum brúttó að viðbættum þeim dögum sem þeir geta ekki sinnt störfum vegna veikinda eða slysa,
     2.      fjölda úthaldsdaga á skipum undir 12 rúmlestum brúttó,
     3.      fjölda daga sem maður er hlutaráðinn til beitningarstarfa.
    Ákvarðaðan fjölda daga sjómannaafsláttar samkvæmt framanrituðu skal reikna með margfeldinu 1,49 sem er hámark fjölda sjómannaafsláttardaga án tillits til ráðningartíma, en sjómannaafsláttardagar geta þó aldrei orðið fleiri en ráðningardagar og ekki fleiri en dagar ársins.

     2.      Hversu margir njóta sjómannaafsláttar? Hve stór hluti er konur? Hvað er tekjutap ríkissjóðs mikið?
    Á tekjuárinu 1997 nutu 8.565 menn sjómannaafsláttar. Þar af voru 327 konur. Viður­kenndur dagafjöldi sem gaf rétt til sjómannaafsláttar ársins 1997 var 2.020.964. Sjómanna­afsláttur fyrir hvern dag ársins 1997 var 671 kr. Reiknaður sjómannaafsláttur ársins 1997 var því 1.356 millj. kr. Taka skal fram að þegar búið er að ákvarða fjölda daga sem veita rétt til sjómannaafsláttar er afslátturinn reiknaður. Hann er föst fjárhæð fyrir hvern dag, og kem­ur til frádráttar reiknuðum tekjuskatti af launum sem greidd eru fyrir sjómannsstörf. Þar af leiðir að aldrei verður til „ónýttur sjómannaafsláttur“ og ekki er um að ræða millifærslu til maka. Því er hugsanlegt að lækkun tekna ríkissjóðs sé ekki sú fjárhæð sem reiknuðum sjó­mannaafslætti nemur miðað við fjölda daga þar sem hann er í einhverjum tilvikum ekki nýttur að fullu.

     3.      Geta menn fengið sjómannaafslátt á meðan þeir vinna hluta dags eða allan daginn:
                  a.      í landi,
                  b.      í höfnum eða
                  c.      eru ekki á sjó um nætur, t.d. dagróðramenn, ferjusjómenn, útgerðarstjórar, hafnsögumenn, starfsmenn hafna?
         Geta menn fengið sjómannaafslátt þá daga sem þeir eru ekki við vinnu?

     a.      Eins og fram kemur í 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt eiga hlutaráðnir beitningarmenn rétt á sjómannaafslætti þá daga sem þeir eru ráðnir við slík störf samkvæmt skriflegum samningi um hlutaskipti.
     b.      Sjómenn geta átt rétt á sjómannaafslætti í höfnum ef um er að ræða eðlilegar tafir frá veiðum, svo sem viðgerð á skipi, ógæftir o.s.frv. Skilyrði er að menn séu ráðnir til skips og lögskráðir eða að úthaldstímabil sé samfellt.
     c.      Dagróðramenn, ferjusjómenn og hafnsögumenn eiga rétt til sjómannaafsláttar þó að þeir séu ekki á sjó um nætur, enda eru þeir lögskráðir eða stunda sjómennsku á fiskiskipum undir 12 brúttólestum, sem ekki er skylt að lögskrá á. Þá skal þó miðað við almenna vinnudaga. Útgerðarstjórar og starfsmenn hafna eiga ekki rétt á sjómannaafslætti.
    Meginregla sjómannaafsláttarins er að menn fái notið hans meðan unnið er við sjómanns­störf, en það byggist á lögskráningu eða úthaldstímbilum. Þó eru til dæmi um að menn fái sjómannaafslátt þótt sjómennska sé ekki stunduð, svo sem vegna veikinda, fæðingarorlofs, orlofs og ráðningartíma í skipsrúm. Vegna ákvæða um ráðningartíma í skipsrúm hefur sú regla verið sett, sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 10/1992, að menn sem skylt er að lögskrá á tiltekið skip skulu á hverju launatímabili njóta sjómannaafsláttar sem miðast við fjölda daga með margfeldinu 1,49 fyrir hvern lögskráðan dag að viðbættum veikinda- og slysadögum. Samkvæmt þessu geta menn notið sjómannaafsláttar fyrir einhverja daga sem þeir eru ekki á sjó.

     4.      Hver er skipting framteljenda sem njóta sjómannaafsláttar eftir flokkum a–c-liðar í 3. tölul. og svo þeirra sem eru á sjó um nætur?
    Ekki liggur fyrir í fjármálaráðuneytinu skipting framteljenda eftir störfum, skv. a–c-lið 3. tölul. Ekki eru heldur fyrirliggjandi upplýsingar um fjölda þeirra sem ekki eru á sjó um nætur.

     5.      Hvernig er eftirliti með framkvæmd sjómannaafsláttar háttað? Er haft eftirlit með lögskráningu á skip? Er tekið á brotum á skattalögum gagnvart sjómannaafslætti á sama hátt og öðrum brotum á skattalögum?
    Eftirlit með sjómannaafslætti er eins og annað skatteftirlit. Skattstjórar annast það hver í sínu umdæmi. Eftir föngum er aflað gagna frá Fiskistofu og öðrum opinberum aðilum, svo sem upplýsingar um úthaldstímabil, landanir, vigtarskýrslur, skýrslur um móttekinn afla frá kaupendum og afladagbækur. Auk þess skoða skattstjórar reglulega skrá um lögskráningu sjómanna.
    Um eftirlit með lögskráningu gilda ákvæði laga nr. 43/1987, um lögskráningu sjómanna. Í 3. gr. kemur fram að tollstjórar eru lögskráningarstjórar hver í sínu umdæmi. Hreppstjórar og lögskráningarfulltrúar tollstjóra skulu hafa eftirlit með skráningu og skila yfirliti til toll­stjóra um lögskráningar í umdæmum sínum eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Verði þeir varir við að ekki er farið eftir fyrirmælum laga um lögskráningu sjómanna skulu þeir tafar­laust tilkynna meint brot með símskeyti til hlutaðeigandi skipstjóra og tollstjóra. Tollstjóri skal hafa eftirlit með lögskráningarfulltrúum í umdæmi sínu. Það eru því tollstjórar sem ann­ast eftirlit með lögskráningu sjómanna og fylgja því eftir að lögskráning sé rétt. Skattyfir­völd eru því nokkurn vegin bundin af þeim upplýsingum sem fram koma í skránni um lög­skráningu.
    Með brot á skattalögum gagnvart sjómannaafslætti er farið eins og önnur brot í skattalegu tilliti. Engar sérreglur gilda um þetta efni.

     6.      Telur ráðherra að sjómannaafsláttur sé niðurgreiðsla til útgerðar frá sjónarmiði hagfræðinnar?
    Já, það er skoðun fjármálaráðherra að sjómannaafslátturinn sé í eðli sínu niðurgreiðsla á launakostnaði útgerðar og að uppruni afsláttarins og saga hans beri það með sér.

     7.      Njóta aðrar stéttir, hópar manna eða einstaklingar sértækra skattfríðinda? Ef svo er, hverjir og hvaða skattfríðinda?
    Í lögum um tekjuskatt og eignarskatt er að finna sérreglu fyrir sendimenn íslenska ríkisins. Samkvæmt 2. tölul. A-liðar 30. gr. þeirra má draga frá tekjum, skv. II. kafla laganna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, launatekjur sem greiddar eru emb­ættismönnum, fulltrúum og öðrum starfsmönnum sem starfa hjá alþjóðastofnunum eða ríkja­samtökum enda sé kveðið á um skattfrelsið í samningum sem Ísland er aðili að. Staðaruppbót sem greidd er vegna starfa erlendis í þjónustu hins íslenska ríkis er einnig frádráttarbær frá tekjum. Þeir einir teljast starfa erlendis í þessu sambandi sem eru fastráðnir, settir eða skip­aðir starfsmenn við sendiráð Íslands, hjá sendiræðismönnum eða eru fastafulltrúar Íslands við alþjóðastofnanir sem Ísland er aðili að.
    Að auki njóta forseti Íslands og maki hans skattfrelsis.

     8.      Telur ráðherra sjómannaafsláttinn samrýmast jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar?
    Tilgangur skattalaga er m.a. að jafna samfélagslegan kostnað á borgarana eftir þeim regl­um sem þau kveða á um. Í því efni verður að sjálfsögðu að gæta jafnræðisreglu stjórnar­skrárinnar, þannig að sama gildi fyrir alla sem eins er ástatt um. Innan þess ramma gera skattalögin mismun í skattlagningu eftir fjölskyldugerð, fjölskyldustærð, húsnæðisaðstöðu, búsetu o.fl. Sjómannaafslátturinn hefur verið talinn ein tegund mismununar í skattalegu tilliti. Með skírskotun til grundvallarreglna um jafnræði verða sérhverjar ívilnanir eða skatt­undanþágur að vera byggðar á efnislegum rökum, og ber að skýra þær þröngt. Við þá skýr­ingu er óhjákvæmilegt að hafa hliðsjón af forsögu undanþáguákvæða í löggjöfinni. Upphaf sjómannaafsláttar verður rakið til ákvæða í lögum nr. 41/1954 um svonefndan hlífðarfatafrá­drátt og fæðisfrádrátt. Bæði þá og síðar, þegar sjómannafrádráttur var útfærður með ýmsum hætti í lögum, aðallega í tengslum við gerð kjarasamninga sjómanna, er augljóslega byggt á þeirri sérstöðu sjómannsstarfsins að það er að jafnaði unnið við erfiðar aðstæður fjarri heimilum og fjölskyldum sjómannanna, sérstaklega fiskimanna, á annan hátt en þeirra sem starfa í landi. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/1991 þar sem sjó­mannaafslættinum var breytt í það horf sem hann er nú, koma fram ýmis rök gegn sjómanna­afslætti. Samt sem áður var talið að tilvist hans væri svo veigamikið atriði hvað varðar kjör sjómanna og hag útgerðar að ekki væri unnt að afnema hann án fyrirvara. Með hliðsjón af framansögðu verður ekki talið að sú mismunun sem felst í sjómannaafslætti gangi gegn jafn­ræðisreglu stjórnarskrárinnar.