Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 452  —  217. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þórunnar H. Sveinbjörnsdóttur um skort á starfsfólki í heil­brigðiskerfinu.

     1.      Hve mikil skortur hefur verið á starfsfólki á sjúkrahúsum og öldrunarstofnunum á höfuðborgarsvæðinu:
                  a.      hjúkrunarfræðingum,
                  b.      sjúkraliðum,
                  c.      Sóknarstarfsmönnum,
        á þessu ári miðað við fullmannaðar stöður og eðlilega þjónustu?

    Haft var skriflega samband við eftirtaldar stofnanir: Ríkisspítala, Sjúkrahús Reykjavíkur, Hrafnistu, hjúkrunarheimilið Skógarbæ, hjúkrunarheimilið Eir, elli- og hjúkrunarheimilið Grund, St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, sjúkrahúsið Sólvang í Hafnarfirði, umönnunar og hjúkrunarheimilið Skjól og hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi. Svör stofnananna mið­ast við ástandið í lok nóvember 1998.
    Samanlagður skortur á hjúkrunarfræðingum er 210 stöðugildi, skortur á sjúkraliðum er 59,5 stöðugildi og skortur á Sóknarstarfsmönnum er 42 stöðugildi til þess að fullmannað sé í allar stöður.

     2.      Hvernig eiga viðkomandi deildir að bregðast við ef meira en helming starfsmanna vantar? Er til neyðaráætlun?
    Aðgerðir vegna vanmönnunar hafa meðal annars verið að sameina deildir, flytja til starfs­fólk, endurskoða vinnuferli, flytja verkefni milli starfsstétta, kaupa aukavaktir, flytja sjúk­linga sem þurfa mikla þjónustu milli deilda o.fl. Viðbrögð deilda við því að meira en helming starfsmanna vanti eru á þann veg að loka deildum eða hluta deilda. Sumar stofnanirnar hafa formlegar neyðaráætlanir sem grípa má til vegna undirmönnunar en aðrar leysa þetta eftir að­stæðum hverju sinni þar eð hefðbundinn uppsagnarfrestur gefur stjórnendum nokkurn fyrir­vara til viðbragða.

     3.      Hafa borist formlegar kvartanir frá heilbrigðisstofnunum vegna skorts á starfsmönnum? Ef svo er, frá hvaða stofnunum og hver hefur skorturinn verið?
    Mönnunarvandi stofnana er ráðuneytinu kunnur og hefur oft verið ræddur á fundum með stjórnendum þeirra, bæði í ráðuneytinu og á stofnunum. Skorturinn er alvarlegastur á Ríkis­spítulum þar sem vantar um 74 hjúkrunarfræðinga, í 48 stöður sjúkraliða og í 20 stöðugildi Sóknarstarfsmanna og á Sjúkrahúsi Reykjavíkur þar sem vantar 123 hjúkrunarfræðinga og í stöður 14 Sóknarstarfsmanna. Stofnanir hafa upplýst ráðuneytið um ástand mönnunar á hverjum tíma.

     4.      Hafa heilbrigðisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu leitað eftir starfsfólki til vinnumiðlunar Reykjavíkur á þessu ári? Ef svo er, hver hefur árangurinn verið?
    Allar þær stofnanir sem hafa átt við mönnunarvanda að stríða hafa leitað til vinnumiðlunar Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar. Af svörum stofnananna að dæma virðist árangur hafa verið lítill.

     5.      Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa vegna alvarlegs skorts á starfsfólki í heilbrigðisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu í mjög mörgum starfsgreinum?
    Heilbrigðisráðherra hefur þegar falið starfsfólki ráðuneytisins að setja á laggirnar starfshóp sem ætlað er að greina nánar umfang og orsakir mönnunarvandans og skort á starfsfólki í framangreindum stéttum heilbrigðisstarfsmanna og skila ráðherra tillögum til úrbóta.