Ferill 231. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 463  —  231. mál.
Frumvarp til lagaum vegabréf.

(Eftir 2. umr., 10. des.)1. gr.

    Íslenskur ríkisborgari á samkvæmt umsókn rétt á að fá gefið út vegabréf eftir lögum þess­um og reglum settum samkvæmt þeim.
    Utanríkisráðuneytið gefur út diplómatísk vegabréf og þjónustuvegabréf samkvæmt reglum sem utanríkisráðherra setur.


2. gr.

    Vegabréf skal gefið út af ríkislögreglustjóra.
    Heimilt er að fela öðrum stjórnvöldum að gefa út vegabréf til bráðabirgða þegar sérstak­lega stendur á.
    Vegabréf telst eign íslenska ríkisins.


3. gr.

    Þegar sótt er um vegabréf skal umsækjandi sanna á sér deili og gengið skal úr skugga um ríkisfang hans.
    Með umsókn skal umsækjandi leggja fram ljósmyndir og önnur nauðsynleg gögn.


4. gr.

    Við útgáfu vegabréfs til barns undir 18 ára aldri skal liggja fyrir samþykki þess eða þeirra sem fara með forsjá barnsins. Þegar annað forsjárforeldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms, fjarvistar eða annarra sérstakra aðstæðna er samþykki hins fullnægjandi.
    Samþykki lögráðamanns þarf til að gefið verði út vegabréf til þess sem sviptur hefur verið sjálfræði.
    Heimilt er að víkja frá framangreindum skilyrðum ef sérstaklega stendur á.


5. gr.

    Nú er umsækjandi um vegabréf eftirlýstur af lögreglu, gefin hefur verið út handtökuskipun á hendur honum eða lagt á hann farbann samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála og skal þá synja um útgáfu vegabréfs.
    Heimilt er að synja um útgáfu vegabréfs þegar svo stendur á:
     a.      fram er komin kæra á hendur umsækjanda fyrir refsivert brot sem ætla má að varði fangelsisrefsingu og hætta er talin á að hann muni reyna að komast undan refsiábyrgð með því að fara úr landi eða dveljast áfram erlendis eða
     b.      umsækjandi hefur verið dæmdur til fangelsisrefsingar sem ekki hefur verið afplánuð eða sætt sektarrefsingu fyrir dómi eða hjá stjórnvaldi sem hvorki hefur verið greidd né sett trygging fyrir og hætta er á að hann muni reyna að komast hjá fullnustu refsingarinnar með því að fara úr landi eða dveljast áfram erlendis.

6. gr.

    Vegabréf gildir aðeins fyrir einn einstakling.
    Gildistími vegabréfs skal vera tíu ár frá útgáfudegi. Þó skal gildistími vegabréfs barns yngra en 18 ára vera fimm ár frá útgáfudegi.
    Nú glatast vegabréf og skal þá nýtt vegabréf gefið út til sama tíma og fyrra vegabréf.


7. gr.

    Ríkislögreglustjóra er heimilt að afturkalla vegabréf þegar:
     a.      skilyrði til útgáfu vegabréfs eru ekki lengur fyrir hendi,
     b.      fyrir liggja aðstæður þær sem greinir í 5. gr.,
     c.      útliti vegabréfs eða efni hefur verið breytt,
     d.      vegabréf er skemmt eða slitið eða upplýsingar í því svara ekki lengur til auðkenna handhafa,
     e.      vegabréf finnst í vörslu óviðkomandi eða
     f.      aðstæður eða atvik að öðru leyti gera það að verkum að óhjákvæmilegt er að afturkalla vegabréf.
    Handhafa vegabréfs er skylt að verða við kröfu um afhendingu vegabréfs sem er afturkall­að skv. 1. mgr.


8. gr.

    Ríkislögreglustjóri heldur skrá um útgefin vegabréf. Þar skal einnig skrá bráðabirgða­vegabréf og vegabréf sem utanríkisráðuneytið gefur út. Í skránni skulu glötuð vegabréf sér­staklega tilgreind.


9. gr.

    Handhafi vegabréfs skal varðveita vegabréf sitt þannig að ekki sé hætta á að það glatist. Tilkynna skal lögreglu eða sendimönnum Íslands erlendis þegar í stað ef vegabréf glatast og skal þá gera sérstaka grein fyrir afdrifum þess.

10. gr.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður:
     a.      með vísvitandi röngum upplýsingum eða sviksamlegu undanskoti upplýsinga gagnvart útgefanda vegabréfs eða viðtakanda umsóknar aflar sér ranglega vegabréfs eða annars ferðaskilríkis eða verður þess valdandi að vegabréf eða annað ferðaskilríki sem gefið er út fyrir hann hljóðar ekki á rétt nafn hans og kennitölu,
     b.      gefur rangar upplýsingar um forsjá barns í þeim tilgangi að gefið verði út vegabréf til þess án samþykkis forsjárforeldris,
     c.      aflar sér án sérstakrar heimildar fleiri en eins vegabréfs eða ferðaskilríkis sem hljóðar á nafn hans, breytir eða nemur á brott hluta af vegabréfi eða öðru ferðaskilríki eða árit­anir á því eða
     d.      selur vegabréf eða gerir sér á annan hátt að féþúfu.

11. gr.

    Dómsmálaráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. Þar skal meðal annars kveðið á um:
     a.      gerð, form og efni vegabréfa og þau gögn sem umsækjandi skal leggja fram með umsókn,
     b.      heimild til að einstaklingur megi í sérstökum tilvikum hafa fleiri en eitt gilt vegabréf,
     c.      heimild annarra stjórnvalda til útgáfu vegabréfs til bráðabirgða í sérstökum tilvikum,
     d.      heimild til að binda vegabréf við tiltekið svæði, svo og til að takmarka gildistíma þess þegar 5. gr. á við eða ef ætla má að umsækjandi hafi misfarið með vegabréf,
     e.      heimild til að gefa út hópvegabréf, þar á meðal um gildistíma og gildissvið,
     f.      heimild til að gefa út vegabréf til útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn og
     g.      vegabréfaskrá, færslu hennar og aðgang að upplýsingum úr skránni.


12. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 1999.
    Jafnframt falla úr gildi lög um íslensk vegabréf, nr. 18 11. febrúar 1953.