Ferill 290. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 501  —  290. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um nám í arkitektúr og skipulags­fræði.

     1.      Hve margir Íslendingar stunda nú nám í arkitektúr og skipulagsfræði og er fjöldi þeirra nægur til þess að eðlileg endurnýjun verði í stéttinni á næstu árum?
    Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna eru 54 íslenskir lánþegar við nám í arkitektúr háskólaárið 1998–99. Síðustu ár hefur fjöldi lánþega verið eftirfarandi:
    1990–1991              127
    1991–1992              114
    1992–1993              98
    1993–1994              83
    1994–1995              67
    1995–1996              61
    1996–1997              49
    1997–1998              46
    1998–1999              54
    Skráðir lánþegar í skipulagsfræðum síðustu ár hafa verið 1–2.
    Við athugun á þörf fyrir menntun einstakra starfsstétta þarf jafnan að vega og meta mörg álitamál. Ráðuneytið telur sig ekki hafa tök á að meta á hlutlægan hátt hvort framangreindur fjöldi nemenda er nægur til þess að eðlileg endurnýjun verði í stéttinni á næstu árum.

     2.      Telur ráðherra tímabært að hefja kennslu í arkitektúr og skipulagsfræðum hér á landi og þá hvenær?
    Í ræðu menntamálaráðherra við opnun sýningar nýrra arkitekta og hönnuða í Ráðhúsi Reykjavíkur 23. janúar 1998 segir m.a. um þessa kennslu:
    „Íslenskir arkitektar hafa lengi barist fyrir því að kennd verði byggingarlist hér á landi. Var samþykkt á félagsfundi í Arkitektafélagi Íslands árið 1985 að hefja undirbúning að kennslu í greininni. Fyrir tæpum tíu árum lá fyrir skýrsla nefndar, sem starfaði á vegum menntamálaráðherra, þar sem lagt var til að kennsla í þessari grein yrði hafin hér sem fyrst.
    Arkitektafélag Íslands stofnaði síðan Íslenska arkitektaskólann, ÍSARK, í apríl 1994. Hefur skólinn það meginmarkmið að miðla kennslu í byggingarlist með sérstöku tilliti til ís­lenskra aðstæðna, með ríkri áherslu á samfélagslega vitund, umhverfislega víðsýni, faglegan metnað og listrænt innsæi.
    Þessi lýsing á inntaki námsins í ÍSARK gefur til kynna metnaðarfull markmið og hefur þeim verið fylgt eftir á fjórum sumarnámskeiðum skólans, sem 73 nemendur, þar af 10 Ís­lendingar, hafa sótt. Stjórn ÍSARK telur ekki unnt að halda fleiri sumarnámskeið nema þau séu þáttur í starfsemi raunverulegs skóla, eins og það er orðað. Boðar stjórnin að hún muni á grunni sumarnámskeiðanna undirbúa enn frekar jarðveginn fyrir stofnun viðurkennds arkitektaskóla á Íslandi. Gæti námið í upphafi verið 1–2 ár fyrir lengra komna nemendur sem stunda nám við erlenda arkitektaskóla.
    Ég rek þetta hér vegna þess að undanfarið hefur verið unnið markvisst að því af hálfu menntamálaráðuneytisins að auðvelda framkvæmd þeirra áforma sem arkitektar hafa í menntamálum.
    Með lögum frá 1995 hefur menntamálaráðherra heimild til að ganga til samninga við einkaaðila um að annast menntun á háskólastigi í listum, sem fram færi á vegum sjálfstæðrar stofnunar, og er gert ráð fyrir að háskólinn verði til húsa á Laugarnesi hér í Reykjavík. Frá því snemma árs 1997 hefur bráðabirgðastjórn fyrir Listaháskólann starfað og lagt á ráðin um stofnun hans.
    Hinn 1. janúar 1998 gengu fyrstu íslensku heildarlögin um háskóla í gildi. Samkvæmt þeim hefur menntamálaráðherra heimild til þess að veita einkaskólum leyfi til að starfa sem háskólastofnun. Jafnframt ber að gefa út skrá um viðurkenndar prófgráður og inntak þeirra og setja reglur um gæðaeftirlit með námi og kennslu.
    Á grundvelli þessara lagaheimilda er ýmsum eldri, formlegum hindrunum rutt úr vegi og skapað nýtt svigrúm til að þróa nám á háskólastigi með allt öðrum hætti en áður. Tel ég að þeir sem vilja stuðla að háskólanámi í byggingarlist eða öðrum nýjum greinum hafi nú fengið vísbendingu og heimild frá löggjafanum til að láta að sér kveða með nýjum hætti. Háskólar verða þó að sjálfsögðu að starfa á þeim grunni að ekki verði véfengt að nemendur þeirra öðl­ist menntun sem standist alþjóðlegar kröfur.“

     3.      Hvort ætti slíkt nám heima í Háskóla Íslands eða Listaháskólanum?
    Í áliti nefndar um kennslu í byggingarlist er starfaði á vegum menntamálaráðuneytisins og skilaði áliti í desember 1988 segir m.a.:
    „Arkitektúr er ofinn þremur meginþáttum: Tækni, notum og list. Arkitekt þarf að kunna góð skil á byggingartækni, jafnframt því sem hann þarf að geta skipulagt og samræmt nýtingu og not þeirra húsa eða mannvirkja er hann mótar en framar öllu verður hann að fella báða höfuðþætti í röklega og listræna heild.“
    Þegar nám í arkitektúr er athugað kemur í ljós að víðast hvar erlendis tekur það að nokkru mið af hinu framangreinda þrískipta eðli greinarinnar og er í stórum dráttum víðast hvar eins upp byggt, þ.e. að stofni til hið listræn mótunarstarf er annars vegar tengist tækni og raun­greinum og hins vegar listum og hugvísindum. Á grundvelli þessa telur ráðuneytið jöfnum höndum koma til greina að nám í arkitektúr á Íslandi fari fram innan vébanda Háskóla Ís­lands eða fyrirhugaðs Listaháskóla.
    Í 3. tbl. Fréttabréfs menntamálráðuneytisins 1998 er viðtal við fyrsta rektor Listaháskóla Íslands, Hjálmar H. Ragnarsson. Þar bendir hann á að við undirbúning að stofnun Listahá­skólans hafi menn hingað til aðallega rætt um nám á sviði tónlistar, myndlistar og leiklistar en að þó sé ljóst að við uppbyggingu skólans þurfi að gefa sérstaklega gaum að frekari þróun hönnunarnáms og náms á sviði byggingarlistar.
    Stjórn Íslenska arkitektaskólans hefur átt viðræður við fulltrúa Háskóla Íslands og full­trúa Listaháskólans um menntun arkitekta. Ráðuneytið telur rétt að þegar niðurstöður við­ræðnanna liggja fyrir verði þær metnar með tilliti til hagkvæmni í rekstri og faglegs ávinn­ings. Ákvörðun um frekara framhald málsins verði tekin á grundvelli þess mats.