Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 517  —  205. mál.Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, ásamt síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Gunnar Ottósson, forstjóra Nátt­úrufræðistofnunar Íslands, Árna Bragason, forstjóra Náttúruverndar ríkisins, Ævar Petersen frá Reykjavíkursetri Náttúrufræðistofnunar, Hörð Kristinsson frá Akureyrarsetri Náttúru­fræðistofnunar og Ármann Höskuldsson frá Náttúrustofu Suðurlands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á stjórnarfyrirkomulagi Náttúrufræðistofnunar Íslands þannig að forstjóri stofnunarinnar fari með stjórn hennar og beri þær skyldur sem stjórn stofnunarinnar hefur nú og ráði jafnframt alla starfsmenn stofnunarinnar. Einnig er lagt til að þær kröfur verði gerðar til forstjórans að hann hafi háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar. Þá er lagt til að eitt af hlutverkum stofnunarinnar verði að skrá jarðefni og flokka námasvæði og skapa þannig grunn fyrir áætlun til langs tíma um nýtingu og vernd jarðefna á einstökum landsvæðum. Loks er lagt til að sérstaklega verði tekið fram í lögunum að ekki megi flytja örverur sem uppruna sinn eiga á jarðhitasvæðum og erfðaefni þeirra úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur.
    Nokkrar umræður urðu í nefndinni um hugtakið náttúrugripur sem kemur fyrir í 4. mgr. 15. gr. laganna. Telur nefndin æskilegt að umrætt hugtak verði skilgreint betur en nú er gert í lögunum.
    Nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að 2. gr. verði breytt þannig að lögfest verði að forstöðumenn setra skuli taka þátt í mótun stefnu Náttúrufræðistofnunar.
     2.      Þá er lagt til að bætt verði við 3. gr. málslið þar sem fram komi að Náttúrufræðistofnun skuli við mat á verndargildi hafa samráð við Náttúruvernd ríkisins.
     3.      Loks er gerð tillaga um að 6. gr. verði breytt á þann veg að örverur verði ekki taldar til náttúrugripa. Þrátt fyrir það verði ákvæði greinarinnar um náttúrugripi látin ná til örvera á jarðhitasvæðum og erfðaefnis þeirra.
    Margrét Frímannsdóttir og Árni M. Mathiesen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. des. 1998.Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Tómas Ingi Olrich.


Ísólfur Gylfi Pálmason.Hjörleifur Guttormsson.


Kristján Pálsson.


Lúðvík Bergvinsson.Lára Margrét Ragnarsdóttir.