Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 523  —  185. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um lögheimili, nr. 21/1990, með síðari breytingum.

Frá félagsmálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Guðmundsson frá Hagstofu Íslands. Málið var ekki sent til umsagnar.
    Í frumvarpinu er lagt til að 1. mgr. 8. gr. laganna verði breytt þannig að barn 17 ára og yngra skuli eiga sama lögheimili og foreldrar þess ef þeir búa saman, en ella hjá því foreldr­inu sem hefur forsjá þess. Var áður miðað við 15 ára aldur. Búi barnið hjá öðrum verður það ekki skráð með lögheimili þar nema með samþykki foreldra eða með annari lögmæltri skip­an.
    Hinn 1. janúar 1998 tóku gildi ný lögræðislög, nr. 71/1997, þar sem sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Í kjölfar þess að lögin voru samþykkt skipaði dómsmálaráð­herra nefnd til að gera tillögur um hvaða lögum þyrfti að breyta við hækkun sjálfræðisaldurs. Lagði umrædd nefnd m.a. til þá breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Er ljóst að ósam­ræmi er nú milli umræddra laga um þetta atriði og því nauðsynlegt til samræmis að gera þessa breytingu á lögheimilislögum.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að nokkuð virðist skorta á að breytingar sem gera verður á lögum vegna hækkunar sjálfræðisaldurs séu gerðar á samræmdan hátt. Er því talsverð hætta á ósamræmi milli laga um þetta efni. Leggur nefndin áherslu á að nauðsynlegt er að móta heildarstefnu í þessum efnum sem fyrst.
    Þá telur nefndin nauðsynlegt að heildarendurskoðun fari fram á lögum um lögheimili í ljósi breyttra þjóðfélagshátta.
    Nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 16. des. 1998.Kristín Ástgeirsdóttir,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Rannveig Guðmundsdóttir.Siv Friðleifsdóttir.


Kristján Pálsson.


Pétur H. Blöndal.Magnús Stefánsson.


Guðný Guðbjörnsdóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.