Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 603  —  376. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um lækkun orkuverðs til íslenskrar garðyrkju.

Flm.: Árni Johnsen, Sturla Böðvarsson.



    Alþingi ályktar að ríkisstjórnin beiti sér fyrir lækkun orkuverðs til íslenskrar garðyrkju. Garðyrkja, sérstaklega ræktun í gróðurhúsum, er vaxandi atvinnugrein á Íslandi og mikill vaxtarbroddur er í faginu sem kalla má græna stóriðju. Það stendur þó í vegi fyrir frekari vexti greinarinnar að orkuverð til garðyrkjunnar er of hátt. Með lækkun orkuverðs til garð­yrkju má gera ráð fyrir að notkun aukist og þá opnast fjölmargir möguleikar. Til dæmis verð­ur markaðssetning erlendis á íslensku grænmeti raunhæf með lækkuðu orkuverði, en eitur­efnanotkun í garðyrkju á Íslandi er sú minnsta í allri Evrópu. Garðyrkjubændur eru nú stór­kaupendur raforku og þegar orkunotkun þeirra er borin saman við orkunotkun stóriðju verður að hafa hliðsjón af því að íslensk garðyrkja er mjög umhverfisvæn og hefur jákvæð áhrif á loftslagsbreytingar og dregur úr neikvæðum áhrifum. Þá er garðyrkjan vaxtarbroddur í dreifðari byggðum landsins og stuðlar þannig að byggðajafnvægi.

Greinargerð.


    Garðyrkjubú á Íslandi eru nú um 135 talsins og eru ársverk í garðyrkju talin vera um 500, eða tæplega 9% af ársverkum í landbúnaði. Af þessum 500 störfum eru 120 störf komin til vegna notkunar raflýsingar við ræktun í gróðurhúsum. Störf í þjónustu tengdri blóma- og grænmetisframleiðslu eru áætluð vera um 1.000. Þannig starfa alls 1.500 manns beint og óbeint við garðyrkju og er markaðsverðmæti greinarinnar nálægt þremur milljörðum króna. Því má segja að garðyrkjan sé stóriðja á íslenskan mælikvarða, græn stóriðja.
    Kostnaðurinn sem liggur að baki hverri garðyrkjuafurð byggist að 85–88% á íslenskum aðföngum, t.d. raforku, heitu vatni og vinnuafli.
    Á undanförnum árum hefur orðið mjög áhugaverð þróun í ylrækt hér á landi. Aukin raf­lýsing í gróðurhúsum hefur gert ræktendum fært að lengja ræktunartíma ýmissa tegunda, allt upp í að gera ræktun þeirra mögulega allt árið um kring. Hefur þróun í þessa átt ekki síst orðið vegna þeirrar ákvörðunar orkusölufyrirtækja að veita garðyrkjunni raforku á lækkuðu verði. Þrátt fyrir það er raforkuverð til íslenskra garðyrkjumanna enn miklu hærra en það verð sem garðyrkjubændur á sambærilegum breiddargráðum greiða. Sem dæmi um raforku­notkun til garðyrkju má nefna að Hveragerðisbær keypti á sl. ári alls 15 gwst. og af þeim fór 7,1 gwst. til garðyrkju. Notar garðyrkjan í landinu rúmlega tvöfalt meira rafmagn til lýsingar en notað er í Hveragerði með 1.700 íbúa, fyrir utan rafmagn til garðyrkju.
    Garðyrkja á Íslandi er dreifð um allt land en að langmestu leyti (tæplega 90%) er hún stunduð á Suðurlandi og hún skiptir verulegu máli fyrir atvinnulífið í sumum sveitarfélögum á svæðinu.
    Í Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi fer fram kennsla á sviði blóma-, græn­metis- og garðplönturæktunar, skrúðgarðyrkju og blómaskreytinga. Við skólann er að rísa tilraunagróðurhús og ráðinn hefur verið tilraunastjóri. Tilgangurinn er að leggja meiri áherslu á rannsóknir og tilraunir á sviði garðyrkju, landgræðslu o.fl. Tilraunastöðin kemur því örugglega til með að hafa mjög jákvæð áhrif á garðyrkjuna í landinu. Þá er á döfinni að reisa garðyrkjumiðstöð að Reykjum þar sem leiðbeiningar, kennsla og tilraunir verða á ein­um stað.
    Við framleiðslu á helstu garðyrkjuafurðunum, svo sem blómum og grænmeti, er notuð kol­sýra ( CO2) sem unnin er úr jarðgufu, en hún er mikilvægt hjálpartæki plantnanna við ljóstillífun. Heitt vatn er notað til upphitunar gróðurhúsa og kalda vatnið til vökvunar. Raforkan kemur úr fallvötnum og eiturefnanotkun í garðyrkju á Íslandi er sú minnsta í allri Evrópu þar sem fremur eru notaðar lífrænar varnir, þ.e. flugur og önnur dýr. Með þessum þáttum saman­lögðum er óhætt að fullyrða að íslensk garðyrkja er umhverfisvæn framleiðsla.
    Garðyrkjan er ein þeirra búgreina sem fær allar sínar tekjur frá markaðinum, þ.e. búgrein án beingreiðslna. Þannig eru bændur í góðum tengslum við markaðinn og verða varir við breyttar þarfir og óskir neytenda á hverjum tíma.
    Um vetrarmánuðina er frjáls tollalaus innflutningur á helstu garðyrkjuafurðum til landsins og til þess að greinin geti þrifist í samkeppni við innfluttar afurðir þurfa rekstrarskilyrðin að vera þau sömu og í samkeppnislöndunum. Þess vegna er það ósk garðyrkjubænda að lækkun tollverndar á innfluttum afurðum verði í samræmi við minnkaðar niðurgreiðslur til garð­yrkjubænda í samkeppnislöndunum. Þannig verða rekstrarskilyrðin samanburðarhæf og sam­keppnin sanngjörn.
    Umræðan um útflutning á garðyrkjuafurðum hefur staðið talsvert lengi og nú er kominn tími til að skoða málið af alvöru. EES-samningurinn gerir ráð fyrir tollalausum innflutningi yfir vetrarmánuðina á garðyrkjuafurðum frá Evrópubandalagslöndunum til Íslands, en ekki frá Íslandi til EB-landa þar sem tollar eru mjög háir eða oft jafnháir í krónum talið og afurðaverð til bænda hér á landi. Mikilvægt er að íslenskri garðyrkju verði tryggðir sömu tollar og öðrum atvinnugreinum varðandi útflutning í þeim milliríkjasamningum sem gerðir verða fyrir Íslands hönd hér eftir.
    
Gæði og ferskleiki aðgreina íslenskt grænmeti frá öðru grænmeti sem neytendum stendur til boða. Aðeins líða nokkrar klukkustundir frá því að grænmetið fer frá garðyrkjustöðvunum þar til það er komið í verslanir. Sama gildir um blóm, en nú eiga neytendur möguleika á að kaupa blóm í stórmörkuðum og á bensínstöðvum. Blóm skipa þess vegna hærri sess á heimilum landsmanna en áður. Þá bjóða garðplöntustöðvar sífellt fjölbreyttara úrval garð- og skógarplantna sem nær eingöngu eru íslensk framleiðsla.
    „Vistvænt Ísland“ er gæðastjórnunarverkefni í landbúnaði þar sem stefnt er að því að all­ar íslenskar búvörur verði vottaðar. Tilgangurinn með verkefninu er að neytendur geti gengið að vöru sem framleidd hefur verið samkvæmt settum stöðlum sem tryggja eiga gæðin. Fram­leiðandinn getur verið öruggari með ræktun sína þar sem allt er skrásett og rekjanleiki er til staðar. Þær vörur sem fengið hafa vottun verða sérstaklega merktar, neytendum til glöggvun­ar. Garðyrkjan er fyrst búgreina í íslenskum landbúnaði til að koma verkefninu af stað. Þar er um að ræða gæðastjórnun í grænmetisræktun sem ætti að vera öðrum greinum fyrirmynd.