Ferill 374. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 732 — 374. mál.
Svar
félagsmálaráðherra við fyrirspurn Þórunnar H. Sveinbjörnsdóttur um aðstöðu þingmanna og starfsmanna í Alþingishúsinu.
Leitað var til Vinnueftirlits ríkisins um upplýsingar vegna fyrirspurnarinnar.
1. Hafa Vinnueftirlitinu borist kvartanir um aðstöðu starfsmanna og þingmanna í Alþingishúsinu eða hefur Vinnueftirlitið sjálft haft frumkvæði að því að gera úttekt á aðstöðunni?
Þar sem Vinnueftirlitið hefur ekki tök á að skoða alla vinnustaði reglubundið eru fyrirtæki og stofnanir flokkuð í fjóra áhættuflokka til forgangsröðunar. Alþingi og stjórnsýslustofnanir falla undir fjórða flokk en fyrirtæki í honum eru ekki skoðuð reglubundið heldur eingöngu ef kvörtun berst eða beiðni um úttekt, eða þá sem liður í átaksverkefni. Skoðun fer einnig fram ef umtalsverðar breytingar eru gerðar á húsnæðinu og tilkynnt er um þær, sbr. 2. gr. reglna nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða. Ekki hafði farið fram heildarúttekt á Alþingishúsinu sem vinnustað og ekki borist ósk um slíkt áður en fyrirspurnin barst stofnuninni til umsagnar, en skoðun var þá gerð svo svara mætti fram komnum spurningum.
2. Telur ráðherra að uppfyllt séu ákvæði reglna um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995, sbr. lög nr. 46/1980, varðandi eftirfarandi:
a. kaffi- og matstofur, sbr. 31. gr.,
b. fjölda salerna, sbr. 22. gr.,
c. aðstöðu fréttamanna?
a. Húsnæðið uppfyllir ekki ákvæði gildandi reglna um húsnæði vinnustaða hvað varðar kaffi- og matstofur ef þingmenn og starfsmenn í Alþingishúsinu matast allir samtímis. Með því að þeir sem starfa í húsinu skiptist á um notkun þessa rýmis er unnt að uppfylla ákvæði reglnanna.
b. Fjöldi salerna er nægjanlegur miðað við núverandi skiptingu starfsmanna og þingmanna milli kynja, sbr. 22. gr. áðurnefndra reglna. Þó þyrfti ef til vill að fjölga salernum ætluðum konum, því í húsinu eru tvö salerni ætluð konum og dugir það 30 konum samkvæmt reglunum. Sérstaklega ætti það við ef konum fjölgaði á þingi.
c. Eftir skoðun gerir Vinnueftirlit ríkisins ekki athugasemdir við aðstöðu fréttamanna á þriðju hæð (svalahæð) hvað stærð og lofhæð snertir, en lagfæra þarf rakaskemmdir í útveggjum. Aðstaða sjónvarpsmanna á fjórðu hæð (í þakherbergjum) telst hins vegar ófullnægjandi, bæði með tilliti til lofthæðar herbergja og rýmingarleiða ef hættuástand skapast.
3. Eru önnur ákvæði reglugerðarinnar uppfyllt að mati ráðherra?
Það er mat Vinnueftirlits ríkisins að starfsmönnum Alþingis sé þröngur stakkur sniðinn hvað varðar aðstöðu að ýmsu leyti, t.d. kaffi- og mataraðstöðu og stjórnstöð öryggisgæslu.
4. Mun hann beita sér fyrir úttekt á aðstöðunni og úrbótum í framhaldi af henni?
Alþingi hefur samþykkt að byggja nýtt þjónustuhúsnæði við hlið Alþingishússins og hefur veitt fé til undirbúnings þess í fjárlögum. Teikningar liggja fyrir og hafa þær hlotið jákvæða umsögn Vinnueftirlitsins og verið samþykktar af byggingarnefnd Reykjavíkur. Með tilkomu þessa nýja húsnæðis verður unnt að stórbæta aðstöðu frá því sem nú er.