Ferill 273. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 759  —  273. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um bifreiðaumferð og losun gróð­urhúsalofts á Reykjanesbraut.

    Þar sem efni fyrirspurnarinnar heyrir ekki eingöngu undir umhverfisráðuneytið leitaði ráðuneytið, að höfðu samráði við samgönguráðuneytið, eftir upplýsingum frá Vegagerðinni og byggjast svörin að hluta til á upplýsingum stofnunarinnar.

     1.      Hver er núverandi notkun bensíns og dísilolíu í núverandi bifreiðaumferð milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar, að meðtalinni umferð að Leifsstöð?
    Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er heildarakstur á Reykjanesbraut á umræddum kafla talinn hafa verið tæplega 71 milljón km á árinu 1996. Ætla má að eldsneytisnotkun hafi verið um 5.250 tonn af bensíni og rúmlega 1.600 tonn af gasolíu.

     2.      Liggja fyrir áætlanir um umferðarþunga og bensín- og dísilolíunotkun á umræddri leið, t.d. til ársins 2020, og hver yrði þá áætluð notkun jarðefnaeldsneytis?
    Vegagerðin hefur gert umferðarspá fyrir landið allt, en umferð á Reykjanesbraut hefur fylgt þeirri spá nokkuð vel á undanförnum árum. Umferðarspáin er orðin tíu ára gömul og er unnið að endurskoðun hennar. Samkvæmt áðurnefndri umferðarspá yrði heildarakstur á Reykjanesbraut árið 2020 um 87 milljón km. Á undanförnum tíu árum hefur eldsneytiseyðsla á hvern ekinn km minnkað um u.þ.b. 1,9% á ári að meðaltali og má fastlega reikna með að sú þróun haldi áfram. Sé reiknað með að minnkunin verði 2% á ári að jafnaði næstu 20 ár gæti heildareldsneytisnotkunin orðið 5.200–5.300 tonn árið 2020.

     3.      Hver er áætluð losun gróðurhúsalofts frá bifreiðaumferð skv. 1. og 2. lið hér að framan, talið í CO2-ígildum?
    Ef miðað er við framangreint magn af eldsneyti var CO2-losun árið 1996 milli 21 og 22 þúsund tonn og gæti orðið 16–17 þúsund tonn árið 2020. Við þetta bætast aðrar gróðurhúsa­lofttegundir sem myndast við eldsneytisbrennslu. Aðrar gróðurhúsalofttegundir sem myndast við eldsneytisbrennslu og tilteknar eru í Kyoto-bókuninni eru einkum metan ( CH4) og tvíköfnunarefnisoxíð ( N2O). Viðbótargróðurhúsaáhrif vegna þeirra árið 1996 eru um 3% sem svarar til rúmlega 600 tonna í CO2-ígildum. Vegna áhrifa hvarfakúta má ætla að viðbótargróðurhúsaáhrif sömu lofttegunda árið 2020 verði um 5% sem svarar til 825 tonna í CO2-ígildum.
    Við eldsneytisbrennslu myndast einnig lofttegundirnar köfnunarefnisoxíð (NO x), rokgjörn kolvetni (NMVOC) og kolmónoxíð (CO). Þessar lofttegundir valda gróðurhúsaáhrifum með óbeinum hætti þar sem þær stuðla að myndun ósons sem veldur gróðurhúsaáhrifum. Hvarfa­kútar draga verulega úr myndun þessara lofttegunda.