Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 776  —  471. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um raforkuver, nr. 60/1981, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 1. gr., svohljóðandi, og breytist númeraröð annarra greina sam­kvæmt því:
    Iðnaðarráðherra er heimilt að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka eftirtaldar virkj­anir:
     1.      Virkjun fallvatns sem veitt er um Vatnsfellsveitu úr Þórisvatni í Krókslón (Vatnsfellsvirkjun) með allt að 110 MW afli.
     2.      Virkjun á ármótum Köldukvíslar og Tungnaár við Búðarháls (Búðarhálsvirkjun) með allt að 120 MW afli.
    Þá er iðnaðarráðherra heimilt að veita Rafmagnsveitum ríkisins eða félagi með aðilum í Skagafirði sem þær eiga aðild að leyfi til að reisa og reka virkjun Héraðsvatna við Villinga­nes í Skagafirði (Villinganesvirkjun) með allt að 40 MW afli.
    Veiting leyfa skv. 1. og 2. mgr. er háð niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum og því að uppfyllt séu skilyrði annarra laga. Þá getur ráðherra sett nánari skilyrði í virkjunarleyfi.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku þeirra fellur brott lokamálsliður 1. mgr. 6. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með áorðnum breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt til þess að afla lagaheimilda fyrir nýjum virkjunum, annars vegar vegna aukinnar raforkuþarfar á almennum markaði á næstu árum og hins vegar vegna stór­iðjuframkvæmda sem hugsanlegt er að ráðist verði í á næstu árum. Nauðsynlegt er að afla lagaheimilda fyrir Vatnsfellsvirkjun og Búðarhálsvirkjun vegna yfirstandandi samningavið­ræðna um aukna orkusölu Landsvirkjunar, m.a. til Norðuráls hf. á Grundartanga, þannig að unnt verði að auka framleiðslu verksmiðjunnar úr 60 þúsund tonnum á ári í 90 þúsund tonn. Jafnframt er það mikilvægt vegna hugsanlegrar orkusölu til fjórða ofns járnblendiverksmiðj­unnar, en í samningi frá 12. mars 1997 varðandi útgáfu hlutabréfa og stækkun Íslenska járn­blendifélagsins hf. er kveðið á um rétt Elkem og Sumitomo til að kaupa samtals 12% hlut af íslenska ríkinu ef ákveðið verður að bæta fjórða ofni við verksmiðjuna fyrir 1. júlí 1999. Til þess að Landsvirkjun geti gengið til samninga um orkusölu til þessarra aðila þurfa að koma til nýjar virkjanaheimildir.
    Undirbúningur þessara virkjunarkosta er langt kominn og því er talin ástæða til að afla lagaheimilda fyrir þeim til að tryggja grundvöll fyrir lokaáföngum undirbúningsvinnunar. Þessir kostir eru í senn hagkvæmir, bæði í byggingu og rekstri, og áhrif þeirra á umhverfi og aðra landnýtingu fremur lítil.
    Með hliðsjón af framansögðu er nauðsynlegt að þessir virkjunarkostir bætist við virkjun­arheimildir sem fyrir eru og að þá megi nýta á undan viðameiri virkjunarkostum sem þegar hafa verið heimilaðir með lögum. Eftir sem áður þarf leyfi iðnaðarráðherra í hverju tilviki. Vísast og til 2. gr. laganna þar sem segir að röð framkvæmda við virkjanir og aðrar stórfram­kvæmdir í raforkumálum skuli ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar og skuli þess gætt að orkuöflunin verði sem hagkvæmust fyrir þjóðarbúið. Við val á virkjunum skuli einnig leitast við að auka öryggi í vinnslu og flutningi á raforku um landið.
    Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að reisa og reka Villinganesvirkjun, en sá réttur er bundinn við Landsvirkjun. Lagt er til að sú heimild Landsvirkjunar verði felld niður en Rafmagnsveitum ríkisins eða félagi sem þær eiga aðild að veitt heimildin þess í stað. Þessi breyting á virkjunaraðila er lögð til með hliðsjón af breyttum áherslum stjórnvalda í raforku­málum sem lúta m.a. að því að raforka úr nýjum virkjunum nýtist fyrst þeim byggðarlögum þar sem hún er unnin, og með tilliti til samstarfs Rafmagnsveitna ríkisins við aðila í Skaga­firði og nágrannabyggðum um virkjun Villinganess í því skyni að efla atvinnulíf á svæðinu.
    Með hliðsjón af framansögðu er í frumvarpinu lagt til að í lög nr. 60/1981, um raforkuver, verði bætt heimildum fyrir tvær nýjar virkjanir, þ.e. Vatnsfellsvirkjun með allt að 110 MW afli og Búðarhálsvirkjun með allt að 120 MW afli. Auk þess er lagt til að aflað verði laga­heimildar til að veita Rafmagnsveitum ríkisins eða félagi sem þær eiga aðild að ásamt aðilum í Skagafirði leyfi til að reisa og reka virkjun við Villinganes með allt að 40 MW afli, en Landsvirkjun hefur þennan rétt nú á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 42/1983, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um raforkuver og samning ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkj­unar um virkjanamál, yfirtöku byggðalína o.fl. frá 11. ágúst 1982. Áður en aðili fær úthlutað leyfi til að reisa og reka virkjun við Villinganes skal viðkomandi hafa gert samkomulag við Landsvirkjun um endurgreiðslu kostnaðar fyrirtækisins við rannsóknir og aðra útgjaldaliði er tengjast Villinganesvirkjun. Við útgáfu leyfis til virkjunar við Villinganes verður einnig að taka tillit til þess að ofar á sama vatnasviði hefur verið unnið við rannsóknir á ýmsum virkjunarmöguleikum til að nýta Austari-Jökulsá og fleiri ár með upptök í Hofsjökli til orkuvinnslu, m.a. svonefndri Stafnsvatnavirkjun. Verði sú virkjun talin hagkvæm skulu væntanlegir virkjunaraðilar gera með sér samkomulag áður en framkvæmdir verða heimilaðar um rekstur virkjana og skiptingu sameigninlegs undirbúnings- og rekstrarkostn­aðar. Í fylgiskjölum I–III er þessum virkjunum lýst nánar.

1. Breytingar á skipulagi raforkumála og veitingu virkjunarleyfa.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir óbreyttri skipan við veitingu virkjunarleyfa fyrir þær þrjár virkjanir sem til umfjöllunar eru. Í því felst að Alþingi ákveður hvaða aðilum skuli veitt leyfi til að nýta tilgreinda virkjunarkosti, en ráðherra er heimilt að veita þeim endanlegt virkjunar­leyfi þegar skilyrði eru uppfyllt. Rétt þykir í þessu sambandi að fjalla um líklegar breytingar á þessari skipan í tengslum við breytingar á heildarskipulagi raforkumála.
    Á síðasta löggjafarþingi var lögð fram tillaga til þingsályktunar um framtíðarskipan raf­orkumála. Þar voru gerðar tillögur um stefnumörkun í raforkumálum og áfanga að breyting­um sem miðuðu að því að skapa skilyrði til aukinnar samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Í tillögunni var sérstaklega kveðið á um að móta yrði að nýju skilyrði fyrir veitingu virkjunarleyfa sem m.a. taki til öryggis og áreiðanleika raforkukerfisins, landnýtingar og umhverfis­mála, eðli vatnsorkunnar og jarðvarmans sem og tæknilegrar og fjárhagslegrar getu umsækj­anda.
    Til grundvallar þessum fyrirhuguðu breytingum liggur m.a. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 96/92/EB frá 19. desember 1996 um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku. Samkvæmt ákvæðum hennar skal tilskipunin vera komin til framkvæmda í ríkjum sambandsins 19. febrúar 1999, en Belgía og Írland hafa frest í eitt ár til viðbótar og Grikkland í tvö ár. Tilskipunin hefur hins vegar ekki enn verið formlega afgreidd samkvæmt EES-samningnum. Við meðferð málsins hafa íslensk stjórnvöld m.a. óskað eftir hliðstæðum fresti og Grikkland til að laga íslenska löggjöf að tilskipuninni.
    Frumvarp til nýrra raforkulaga er nú í smíðum og er stefnt að því að leggja það fyrir Alþingi á þessu þingi. Ekki er þó búist við að frumvarpið verði afgreitt á þinginu enda má ætla að ákvæði þess þarfnist mikillar umræðu. Í frumvarpinu verður kveðið á um nýja skipan við veitingu virkjunarleyfa sem taki mið af ákvæðum fyrrgreindrar tilskipunar.
    Ekki er unnt að bíða með að heimila veitingu virkjunarleyfa samkvæmt þessu frumvarpi þangað til nýrri skipan við veitingu virkjunarleyfa hefur verið komið á samkvæmt framan­sögðu, enda nauðsynlegt að skapa grundvöll til frekari undirbúnings þessara virkjana og framkvæmda til að tryggja að unnt sé að mæta aukinni raforkuþörf á næstu árum.
    Líta verður svo á að í ákvörðun Alþingis um að heimila veitingu tiltekins virkjunarleyfis til tilgreinds aðila felist í raun ákvörðun um veitingu virkjunarleyfis, að uppfylltum öllum skilyrðum, í skilningi tilskipunar um innri markað raforku. Skv. 2. gr. núgildandi laga um raforkuver ræðst röð framkvæmda við virkjanir og aðrar stórframkvæmdir í raforkumálum af væntanlegri nýtingu orkunnar og fleiri atriðum.
    Eðli málsins samkvæmt er löggjafinn ekki bundinn af ákvæðum tilskipunarinnar þar sem ekki hefur verið staðfest að hún verði hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, auk þess sem stjórnvöld munu hafa nokkurn tíma til að gera nauðsynlegar breytingar á íslenskum rétti í samræmi við tilskipunina.
    Engu síður verður að telja að veiting leyfanna samræmist vel ákvæðum tilskipunarinnar. Í því efni verður að líta til þess að Vatnsfellsvirkjun og Búðarhálsvirkjun eru á vatnasviði núverandi orkuvera Landsvirkjunar á Þjórsársvæðinu og nátengdar þeim. Að því er Villinga­nesvirkjun varðar er einungis um breytingu á virkjunaraðila að ræða, en skv. 2. mgr. 1. gr. núgildandi laga um raforkuver er ríkisstjórninni heimilt að semja við Landsvirkjun um að reisa og reka vatnsaflsvirkjun við Villinganes. Það var gert með samningi um virkjanamál, yfirtöku byggðalínu o.fl. frá 11. ágúst 1982.
    Þá verður tæpast talinn vafi á því að Landsvirkjun og Rafmagnsveitur ríkisins búi yfir tæknilegri og fjárhagslegri getu til að reisa og reka virkjun á umræddum stöðum, þó fjár­mögnun liggi ekki endanlega fyrir. Þá er skýrt kveðið á um að veiting leyfanna sé háð niður­stöðum mats á umhverfisáhrifum, skilyrðum annarra laga og skilyrðum sem ráðherra kann að setja í virkjunarleyfi.

2. Orkuöflun vegna aukinnar almennrar raforkuþarfar og stóriðju.
    Samkvæmt endurreiknaðri spá orkuspárnefndar frá 1997 er gert ráð fyrir að orkueftir­spurn almenns markaðar muni aukast um 2% á ári að jafnaði til ársins 2025 eða 50–60 GW-stundir á ári að jafnaði. Aukningin er áætluð einna mest næstu árin eða um 60–70 GW-stund­ir á ári sem er nokkru meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir og endurspeglar það uppsveifl­una í þjóðfélaginu.
    Framkvæmdir Landsvirkjunar sem nú standa yfir við byggingu virkjana, háspennulína og aðveitustöðva taka mið af samningum sem gerðir voru á árunum 1995–97 um orkusölu til stækkunar álvers Íslenska álfélagsins hf. í Straumsvík, álvers Norðuráls hf. á Grundartanga og þriðja ofns verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. á Grundartanga auk aukinnar sölu almenningsrafveitna. Orku- og aflþörf þessara iðjuvera og gangsetning þeirra er sem hér segir:

Iðjuver MW GWst/ári Gangsetning
Stækkun Ísals
135 1.070 júní 1997
Norðurál (60.000 tonn)
105 930 júní 1998
Stækkun Járnblendiverksmiðjunnar (50.000 tonn)
55 450 október 1999

    Í eftirfarandi töflu er sýnd áætlun orkuspárnefndar fyrir tímabilið 1997–2025 um raforku­notkun og aflþörf almenna markaðarins ásamt núverandi og umsaminni stóriðju að með­töldum flutnings- og dreifitöpum.

Forgangsorka
Ár GWst/ári MW
1997 1 4.329 739
1998 5.483 819
2000 6.806 964
2005 7.090 1.016
2010 7.389 1.069
2015 7.697 1.125
2020 8.040 1.186
2025 8.401 1.240

    Til að mæta aukinni raforkuþörf hefur verið ráðist í ýmsar framkvæmdir í raforkukerfinu. Lokið hefur verið við hækkun Blöndustíflu sem jók orkugetu Blönduvirkjunar um 160 GW-stundir á ári. Þá hefur verið unnið að endurnýjun vatnshjóla og fleiri framkvæmdum við Búr­fellsvirkjun og var afl virkjunarinnar aukið úr 210 í 280 MW og orkugetan um 380 GW-stundir á ári. Framkvæmdum við 5. áfanga Kvíslaveitu lauk fyrir ári. Við það jókst orkugeta raforkukerfisins um 290 GW-stundir á ári. Framkvæmdum við Hágöngumiðlun er nánast lokið en þær juku orkugetu raforkukerfisins um 200 GW-stundir á ári. Vinna stendur nú yfir við að reisa Sultartangavirkjun en uppsett afl virkjunarinnar verður 120 MW í tveimur áföngum, 60 MW hvorum um sig. Með tilkomu hennar verður orkuaukning í raforkukerfi landsins 880 GW-stundir á ári. Seinni vél Kröfluvirkjunar hefur verið sett upp. Með því jókst afl virkjunarinnar um 30 MW og orkugetan um 240 GW-stundir á ári. Framkvæmdir Hitaveitu Reykjavíkur við 60 MW raforkuver á Nesjavöllum eru á lokastigi og eykur virkj­unin orkugetuna um 480 GW-stundir á ári. Loks áformar Hitaveita Suðurnesja að auka raforkuvinnslu sína um 28 MW á árinu 1999. Þá hefur verið ráðist í aðrar framkvæmdir á raforkukerfinu til að auka flutningsgetu þess.

3. Orkumarkaður á næstu árum.
    Auk aukinnar orkuþarfar almenna markaðarins á næstu árum, sbr. töfluna hér að framan, þarf að gera ráð fyrir að sala til starfandi stóriðjufyrirtækja aukist umtalsvert og að ný fyrirtæki hefji rekstur. Á undanförnum missirum hefur verið rætt um aðra möguleika á orkufrekum iðnaði en að framan greinir. Þar má nefna stækkun álvers Norðuráls á Grundar­tanga, en í starfsleyfi er miðað við allt að þreföldun verksmiðjunnar, og stækkun Járnblendi­verksmiðjunnar um einn eða tvo ofna. Á vegum Íslenska magnesíumfélagsins hf. er unnið að undirbúningi magnesíumverksmiðju á Reykjanesi. Þá er í starfsleyfi fyrir Ísal miðað við allt að 200 þúsund tonna framleiðslu á ári. Yfirlit um afl- og orkuþörf iðjukosta á Suðvesturlandi sem hugsanlegt er að geti orðið að veruleika á næsta áratug eða svo, umfram þær fram­kvæmdir sem nú er unnið að, er í eftirfarandi töflu:

Iðjuver MW GWst/ári
Stækkun Járnblendiverksmiðju um tvo ofna
100 740
Stækkun álvers Norðuráls um 120.000 tonn
210 1.860
Stækkun álvers Ísals um 40.000 tonn
70 550
Magnesíumverksmiðja á Reykjanesi (50 þúsund tonn)
100 870

    Ef allir þessir kostir verða að veruleika gæti aflþörfin aukist um 480 MW og orkuþörfin um rúmlega 4.000 GW-stundir á ári og er þá ekki tekið tillit til afl- og orkutaps við flutning orkunnar frá orkuverum til iðjuveranna. Þar sem framangreindir kostir eru á Suðvesturlandi er eðlilegt að gera ráð fyrir að þessari auknu afl- og orkuþörf verði að mestu mætt með virkj­unum á Suður- og Suðvesturlandi, enda verður þannig dregið úr þörf fyrir flutningslínur um hálendi landsins.
    Sem kunnugt er eru íslensk stjórnvöld og Landsvirkjun, í samvinnu við Norsk Hydro, að kanna hagkvæmni þess að reisa 480 þúsund tonna álver á Reyðarfirði og virkjanir til að mæta raforkuþörfinni. Gert er ráð fyrir að orkunnar yrði að mestu aflað í virkjunum norðan Vatnajökuls og er einkum horft til Jökulsár á Fljótsdal og Jökulsár á Dal í því sambandi. Álverið yrði byggt í áföngum sem tengdust heppilegum virkjunaráföngum.

4. Þörf fyrir nýjar heimildir Alþingis.
    Samkvæmt núgildandi lögum um raforkuver er óráðstafað að hluta heimildum Alþingis fyrir Landsvirkjun. Í fyrsta lagi er ráðherra samkvæmt lögum um raforkuver heimilt að veita leyfi til allt að 330 MW virkjunar í Jökulsá í Fljótsdal, en leyfi ráðherra frá 1991 tekur til 210 MW virkjunar. Í öðru lagi er heimild til að stækka Sigölduvirkjun í allt að 200 MW afl, en virkjunin er 150 MW. Í þriðja lagi er heimild til að stækka Hrauneyjafossvirkjun í allt að 280 MW afl, en hún er 210 MW. Í fjórða lagi er heimild til 310 MW virkjunar við Búrfell, en hún er 280 MW eftir stækkun. Þessar virkjanir kemur vart til greina að byggja vegna auk­innar raforkusölu á Suðvesturlandi. Fljótsdalsvirkjun hentar mun betur orkumarkaði á Austurlandi þar sem að öðrum kosti yrði að leggja flutningslínur yfir hálendið til Suðurlands. Stækkun Sigölduvirkjunar og Hrauneyjafossvirkjunar var fyrst og fremst hugsuð sem hag­kvæm lausn til að mæta reiðuaflsþörf raforkukerfisins, en orkugeta kerfisins eykst lítið með stækkun þeirra nema aðrennsli til Tungnaár verði aukið, t.d. með byggingu Skaftárveitu.
    Þá er óráðstafað 16 MW til Nesjavallavirkjunar, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga um raforkuver, og hluta af opinni heimild til að reisa og reka jarðvarmavirkjanir til raforkuframleiðslu skv. 4. mgr. 1. gr. laganna.
    Til að afla orku fyrir viðbótarraforkumarkað sem lýst er í 3. kafla koma fjölmargar virkj­anir til álita og á þessu stigi er ekki ástæða til að setja fram röð virkjana miðað við mismun­andi þróun markaðarins. Framkvæmdaröð á hverjum tíma kemur til með að taka mið af tæknilegu undirbúningsstigi mannvirkis, umhverfisathugunum og mati á umhverfisáhrifum, byggingartíma, fjárhagslegri hagkvæmni og heimildum Alþingis og stjórnvalda.
    Til þess að gera Landsvirkjun kleift að halda áfram viðræðum um aukna raforkusölu, m.a. til Norðuráls hf. sem hugsanlega munu fara fram á fyrri hluta ársins 1999 og til fjórða ofns járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, er nauðsynlegt að afla heimilda Alþingis fyrir virkjunum við Vatnsfell og Búðarháls. Báðar þessar virkjanir eru á aðalvirkjunarsvæði Landsvirkjunar, falla vel að rekstri fyrirtækisins og hafa tiltölulega lítil áhrif á náttúrulegt umhverfi og landnýtingu.
    Ekki er þörf á sérstakri lagaheimild Landsvirkjunar til að reisa eða leggja nýjar stofnlínur, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 42/1983, sbr. og 6. mgr. 1. gr. laga nr. 60/1981, en til byggingar þeirra þarf hins vegar leyfi iðnaðarráðherra, sbr. 7. gr. laga nr. 42/1983. Áður en slíkt leyfi er gefið út þarf að fara fram mat á umhverfisáhrifum.

5. Lýsing á fyrirhuguðum virkjunum og helstu áhrifum þeirra á umhverfi.
    Í þessum kafla er þeim virkjunum sem óskað er eftir heimildum Alþingis fyrir lýst í stuttu máli og gerð grein fyrir heilsu áhrifum þeirra á umhverfi. Í fylgiskjölum I–III er virkjununum og fyrirhuguðum framkvæmdum lýst nánar.

5.1 Vatnsfellsvirkjun.
    Virkjunin nýtir 67 m fall milli Þórisvatns og Sigölduvirkjunar. Árið 1997 var lokið við endurskoðun á verkhönnun 140 MW virkjunar. Verkhönnunin hefur verið endurskoðuð og er nú miðað við að virkjunin verði um 90 MW án veitu úr Norðlingaöldulóni. Meðalrennsli til virkjunarinnar verður um 80 m3/s en virkjað rennsli um 160 m3/s. Hins vegar er endanleg stærð virkjunar venjulega ekki ákveðin fyrr en að loknum nákvæmum athugunum eftir að tilboð í mannvirki og búnað liggja fyrir og upplýsingar um raforkumarkað. Aflið getur þess vegna breyst og orðið allt að 110 MW. Áætlað er að orkugeta raforkukerfisins aukist um allt að 430 GW-stundir á ári með byggingu Vatnsfellsvirkjunar. Gerð verður um 980 m löng stífla yfir veitufarveg Vatnsfellsveitu um 2 km neðan við núverandi lokuvirki við suðurenda Þórisvatns. Ofan við stífluna myndast lítið uppistöðulón með um 3,2 Gl miðlun. Úr lóninu mun liggja um 700 m aðrennslisskurður fram eftir höfða austan veitunnar að steyptu inntaks­virki á brekkubrún. Frá inntaki verður vatninu veitt í tveimur 126 m löngum stálpípum að stöðvarhúsi neðan höfðans og þaðan um 2 km langan frárennslisskurð að Krókslóni. Í stöðv­arhúsi verða tveir 45 MW hverflar af Francis-gerð ásamt tilheyrandi vél- og rafbúnaði. Frá stöðvarhúsi verður reist 220 kV flutningslína að tengivirki við Sigölduvirkjun. Heildarkostn­aður án virðisaukaskatts fyrir 90 MW virkjun er áætlaður um 8.600 millj. kr. á verðlagi í janúar 1998. Framkvæmdatími að gangsetningu fyrri vélar er áætlaður um þrjú ár. Veitulón virkjunarinnar verður í núverandi veituskurði frá Þórisvatni að Krókslóni. Lónstæði er um 0,6 km2 að flatarmáli, gróðurlítið og þakið möl og sandi. Gróðurröskun vegna annarra mannvirkja á svæðinu er lítil. Helstu umhverfisáhrif verða vegna röskunar á landi við efnisnámur á byggingartíma. Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar var send til skipulags­stjóra í desember 1998. Gert er ráð fyrir að úrskurður hans liggi fyrir í mars 1999.

5.2 Búðahálsvirkjun.
    Búðarhálsvirkjun nýtir rennsli Tungnaár og Köldukvíslar neðan Hrauneyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Verkhönnun virkjunarinnar er að mestu lokið. Miðað er við að virkjunin verði 100 MW. Fallið eru um 40 m og virkjað rennsli um 325 m3/s. Hins vegar er endanleg stærð virkjunar venjulega ekki ákveðin fyrr en að loknum nákvæmum athugunum eftir að tilboð í mannvirki og búnað liggja fyrir og upplýsingar um raforkumarkað. Aflið getur þess vegna breyst og orðið allt að 120 MW. Áætlað er að orkugeta raforkukerfisins aukist um allt að 520 GW-stundir á ári með byggingu Búðarhálsvirkjunar. Kaldakvísl verður stífluð rétt ofan við ármót hennar og Tungnaár og er lengd stíflunnar 1.600 m. Þannig myndast um 7 fer­kílómetra uppistöðulón sem nær upp að Þóristungum. Úr lóninu verður vatninu veitt um að­rennslisskurð og þaðan um 4 km löng aðrennslisgöng að stöðvarhúsi ofan jarðar vestanmegin í Búðarhálsi við Sultartangalón. Frá stöðvarhúsi verða lagðar flutningslínur að tengivirkjum við Sultartangavirkjun og Sigölduvirkjun. Heildarkostnaður án virðisaukaskatts fyrir 100 MW virkjun er áætlaður um 12.400 millj. kr. á verðlagi í janúar 1998. Framkvæmdatími er áætlaður þrjú til fjögur ár. Miðlunarlón virkjunarinnar nær yfir eyrar Köldukvíslar og Sporð­öldukvíslar, en lítillega vatnar yfir gróður að austan- og norðanverðu. Miðlunarrými lóns verður um 26 Gl. Flatarmál lónsins verður um 7 km2 og flatarmál gróðurs, sem fer undir lón verður um 1 km2. Gert er ráð fyrir að leggja veg um Búðarháls og brúa Tungnaá neðan miðlunarlónsins. Helstu veitumannvirki verða neðan jarðar og gert er ráð fyrir að meginhluti efnis í stíflur verði tekinn úr væntanlegu miðlunarlóni og jarðgöngum. Röskun á landi við gerð mannvirkja verður því haldið í lágmarki. Unnið er að skýrslu um mat á umhverfisá­hrifum virkjunarinnar. Þess er að vænta að skýrslu um matið verði komið til skipulagsstjóra fyrri hluta árs 1999.

5.3 Villinganesvirkjun.
    Árið 1977 kom út skýrsla á vegum Orkustofnunar um verkhönnun virkjunar Héraðsvatna í Skagafirði við Villinganes. Þar er gert ráð fyrir 30 MW virkjun með áætlaða 180 GW-stunda orkuframleiðslu á ári. Virkjunin er sem næst hrein rennslisvirkjun með 59 m3/s virkjað rennsli og 62,7 m3/s meðalrennsli. Vatnamælingar sem stundaðar hafa verið lengi á þessu svæði sýna að vetrarrennsli er mjög jafnt og lindarþáttur sterkur á vetrum. Gert er ráð fyrir að gerð verði um 900 m löng og 60 m há jarðstífla um 2 km neðan við ármót Austari- og Vestari-Jökulsár á móts við bæina Villinganes og Tyrfingsstaði. Ofan stíflunnar kemur til með að myndast 33,5 Gl lón sem áætlað er að nái nokkuð upp fyrir ármótin. Stöðvarhús Vill­inganesvirkjunar er fyrirhugað í gilbotninum neðan við stífluna. Heildarkostnaður við 30 MW virkjun við Villinganes er áætlaður 4.185 millj. kr. án virðisaukaskatts á verðlagi í jan­úar 1998. Áður en tekin verður ákvörðun um framkvæmdir við Villinganesvirkjun verður að endurreikna orkugetu virkjunarinnar með tilliti til nýrra rennslisraða og breytinga á raforku­markaði, en líkur eru á að orkugetan hafi frekar aukist frá fyrra mati. Samhliða þarf að meta aflstærð virkjunarinnar ásamt stærð á lóni og nýtingu þess. Enn fremur verður hönnun Vill­inganesvirkjunar endurskoðuð, en framfarir í jarðgangagerð, verktækni o.fl. geta haft áhrif á útfærslu hennar enda þótt ekki sé gert ráð fyrir verulegum breytingum á fyrirhuguðum mannvirkjum. Þá er nauðsynlegt að meta umhverfisáhrif virkjunarinnar. Þegar endurskoðuð hönnun liggur fyrir þarf að meta hagkvæmni virkjunarinnar að nýju. Að lokum verður að gera nýja verkáætlun sem tekur mið af framkvæmdatíma virkjunar, markaðsaðstæðum og öðrum þáttum sem hafa áhrif á endanlega tímasetningu hennar. Gert er ráð fyrir að liðlega eitt ár fari í frekari undirbúning undir Villinganesvirkjun, en framkvæmdir geti hafist vorið 2000 og virkjunin tekið til starfa haustið 2002.
    Aðrar hugmyndir um útfærslu virkjunar hafa komið fram. Þannig hefur Orkustofnun bent á að með löngum frárennslisgöngum megi nýta a.m.k. 50 m fall neðan eldri virkjunartil­högunar. Villinganesvirkjun yrði þá stækkuð með göngum undir Norðurárdal og út með Blönduhlíð, jafnvel út fyrir Miklabæ. Inn í göngin yrði tekið vatn úr Norðurá í skurði og göngum frá stíflu um 1 km innan við bæinn Egilsá. Inntak vatns úr Héraðsvötnum yrði á sama stað og fyrir eldri útfærsluna, þ.e. við Villinganes, en stöðvarhús yrði í landi Flata­tungu. Áætlað er að orkuframleiðsla þessarar virkjunar gæti verið um 570 GW-stundir á ári og 90–100 MW að afli. Við þessa útfærslu mundi 15–20 km kafli af Héraðsvötnum neðan Villinganess verða vatnslaus drjúgan hluta af árinu. Rafmagnsveiturnar mæla ekki með þessari útfærslu. Hún hefði í för með sér meiri umhverfisáhrif. Sú útfærsla hentar einnig illa gagnvart almenna raforkumarkaðnum, svo og vegna flutningstakmarkana sem eru nú þegar til staðar í aðalflutningskerfi raforkukerfis landsins. Þrátt fyrir að minni virkjun verði byggð á næstu árum útilokar það ekki að Flatatunguvirkjunin verði byggð síðar meir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er kveðið á um að ný grein, 1. gr., bætist við lögin. Í 1. mgr. hennar er iðnaðar­ráðherra heimilað að veita leyfi til að reisa og reka framangreindar virkjanir. Gert er ráð fyr­ir að Landsvirkjun verði veitt verði heimild til að reisa og reka tvær vatnsaflsvirkjanir, Vatnsfellsvirkjun með allt að 110 MW afli og Búðarhálsvirkjun með allt að 120 MW afli.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að Rafmagnsveitum ríkisins eða félagi sem þær eiga aðild að verði veitt heimild til að reisa og reka Villinganesvirkjun. Í núgildandi lögum um raforkuver er heimild til handa ríkisstjórninni til að semja við Landsvirkjun um að reisa og reka ýmsar virkjanir, þar á meðal Villinganesvirkjun. Sú heimild var nýtt með samningi milli ríkisstjórn­arinnar og Landsvirkjunar, dags. 11. ágúst 1982.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að áður en ráðherra gefur út virkjunarleyfi á grundvelli heimilda samkvæmt greininni skuli liggja fyrir mat á umhverfisáhrifum. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að leyfi samkvæmt öðrum lögum þurfi að liggja fyrir. Má sem dæmi nefna að virkjunarleyfi á þjóðlendu eru háð leyfi forsætisráðherra, sbr. ákvæði laga um þjóðlendur. Loks er iðnaðar­ráðherra veitt heimild til að setja nánari skilyrði í virkjunarleyfi.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. er lagt til að fellt verði brott ákvæði til bráðabirgða I um tiltekna orkuöflun í tengslum við samningaviðræður við ATLANTAL-aðilanna um álver, en sem kunnugt er hefur ekki orðið af framkvæmdum við álverið og það er nú úrelt. Með lögum nr. 74/1990 var fellt brott ákvæði laga um raforkuver frá 1981 og þingsályktunar um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu, sem samþykkt var á Alþingi 6. maí 1982 með vísun til laganna, þess efnis að Fljótsdalsvirkjun skyldi verða næsta stórvirkjun á eftir Blönduvirkjun, en þess í stað er lögð áhersla á að röð framkvæmda skuli ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar þannig að tryggt verði hæfilegt jafnvægi orkuframboðs og eftirspurnar á sem hagkvæmastan hátt. Það varð fyrst endanlega ljóst að Fljótsdalsvirkjun yrði ekki næsta stórvirkjun á eftir Blöndu­virkjun þegar orkuöflunarframkvæmdir vegna stækkunar á álverksmiðju Ísals í Straumsvík hófust seint á árinu 1995 og tók undirbúningur virkjunarinnar mið af því.
    

Um 3. gr.

    Lagt er til að við gildistöku laganna falli niður heimild Landsvirkjunar til að reisa og reka Villinganesvirkjun samkvæmt lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983. Er þetta til samræmis við fyrirhugaða breytingu skv. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins.


Fylgiskjal I.


Greinargerð Landsvirkjunar um Vatnsfellsvirkjun.
(13. nóvember 1998.)


    Þórisvatnsmiðlun var byggð á árunum 1970–72 í tengslum við virkjun Þjórsár við Búrfell. Kaldakvísl var stífluð við Sauðafell og veitt um skurð inn í Þórisvatn og fyrra afrennsli vatnsins, Þórisós, var jafnframt stíflað.
    Nýtt útrennsli Þórisvatns var gert við suðurenda vatnsins með vesturhlíð Vatnsfells. Graf­inn var veituskurður út úr vatninu og byggt steypt lokuvirki í skurðinum til stjórnunar á rennsli úr vatninu. Veitan var nefnd Vatnsfellsveita og um hana er miðluðu rennsli úr Þóris­vatni veitt til Krókslóns ofan Sigölduvirkjunar og þaðan til annarra virkjana neðar á vatna­sviðinu.
    Við gerð mynsturáætlunar um orkunýtingu á vatnasviði Þjórsár, sem út kom árið 1980, var gerð tillaga um virkjun í farvegi Vatnsfellsveitu um 2 km neðan við lokuvirkið. Verk­hönnun 100 MW virkjunar á þeim stað var lokið árið 1984.
    Á árinu 1997 var lokið við endurskoðun á verkhönnun 140 MW virkjunar. Nú er miðað við að virkjunin verði um 90 MW án veitu frá Norðlingaöldulóni. Meðalrennsli til virkjunar­innar er um 80 m3/sek. en virkjað rennsli um 160 m3/sek. Hins vegar er endanleg stærð virkjunar venjulega ekki ákveðin fyrr en að loknum nákvæmum athugunum eftir að tilboð í mann­virki og búnað liggja fyrir og upplýsingar um raforkumarkað. Aflið getur þess vegna breyst og orðið allt að 110 MW.
    Í stuttu máli er tilhögun virkjunar sem hér segir (mynd 1). Byggð verður um 980 m löng stífla yfir veitufarveginn og ofan við hana myndast lítið uppistöðulón. Stíflan verður grjót­stífla með steyptri klæðningu vatnsmegin. Í veitufarveginum undir stíflunni verður byggð botnrás þannig að veita megi vatni niður farveginn fram hjá virkjuninni. Auk þess er gert ráð fyrir steyptri yfirfallsrennu yfir stífluna niður í veitufarveginn til öryggis við óvæntar rennsl­isbreytingar. Úr lóninu mun liggja um 700 m aðrennslisskurður fram eftir höfða austan veit­unnar að steyptu inntaksvirki á brekkubrún. Frá inntaki verður vatninu veitt í tveimur 126 m löngum stálpípum að stöðvarhúsi neðan höfðans og þaðan um 2 km langan frárennslis­skurð að Krókslóni. Í stöðvarhúsi er áætlað að verði tveir hverflar af Francis-gerð um 45 MW hvor ásamt tilheyrandi vél- og rafbúnaði. Tengivirki stöðvar verður innan húss og spennar í sérstöku rými. Frá stöðvarhúsi verður reist 220 kV flutningslína að tengivirki við Sigölduvirkjun. Aðkomuvegur að stöðvarhúsi verður lagður austan við frárennslisskurð virkjunar. Byggð verður brú á frárennslisskurðinn rétt ofan við Krókslón og tengist aðkomu­vegurinn við Sprengisandsleið 4 km ofan við Sigölduvirkjun.
    Heildarkostnaður án virðisaukaskatts fyrir 90 MW virkjun er áætlaður um 8.600 millj. kr. á verðlagi í janúar 1998. Framkvæmdatími að gangsetningu fyrri vélar er áætlaður um þrjú ár. Áætlað er að vinna við framkvæmdirnar á verkstað fyrir 90 MW virkjun nemi um 400 ársverkum. Með byggingu Vatnsfellsvirkjunar, án veitu frá Norðlingaöldulóni, er áætlað er orkugeta raforkukerfisins aukist um allt að 430 GWst á ári.
    Rekstur Vatnsfellsvirkjunar verður með þeim hætti að virkjunin verður nær eingöngu í rekstri þann hluta ársins, sem miðluðu vatni er veitt úr Þórisvatni. Því er gert ráð fyrir að virkjunin verði ekki í rekstri hluta úr sumri, þegar álag í raforkukerfinu er minnst. Daglegu eftirliti og viðhaldi Vatnsfellsvirkjunar verður sinnt frá Hrauneyjafossvirkjun, virkjuninni verður fjarstýrt frá stjórnstöð Landsvirkjunar og verður hún því að öðru jöfnu mannlaus.

Helstu kennitölur
Rennsli
Vatnasvið
2.500 km2
Meðalrennsli án Norðlingaölduveitu
80 m3/sek.
Virkjað rennsli
160 m3/sek.
Afl og orka
Hönnunarfallhæð
65 m
Afl véla, gerð Francis
2 x 45 MW
Orkugeta
430 GWst/ári
Stíflur og lón
Venjulegt rekstrarvatnsborð
563,0 m y.s.
Miðlunarrými
3,2 Gl
Flatarmál Vatnsfellslóns
0,6 km2
Lengd stíflu
980 m
Vatnsvegir
Aðrennslisskurður, lengd
700 m
Frárennslisskurður, lengd
2.000 m
Stöðvarhús og búnaður
Stærð stöðvarhúss
1.300 m2
Tengivirki, gerð
SF6
Aðalspennar, 2 stk.
2 x 50 MVA

Umhverfisáhrif.
    Veitulón virkjunarinnar verður í núverandi veituskurði frá Þórisvatni að Krókslóni. Lón­stæði er um 0,6 km2 að flatarmáli, gróðurlítið og þakið möl og sandi. Gróðurröskun vegna annarra mannvirkja á svæðinu er lítil. Helstu umhverfisáhrif verða vegna röskunar á landi við efnisnámur á byggingartíma. Hluti efnisins verður tekið úr skurðum og nýtt til fyllingar. Nokkur breyting kann að verða á grunnvatnshæð við inntakslónið í aðliggjandi móbergs­öldum. Þá mun vegslóðin frá Vatnsfellslokuvirki að Veiðivötnum og í Jökulheima fara undir lón á kafla og verður gerð ný slóð ofan lónsins. Jafnframt verður gerð vegtenging frá að­komuvegi virkjunar inn á Veiðivatnaveg.
    Unnið er að skýrslu um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Þess er að vænta að skýrslu um matið verði komið til skipulagsstjóra í nóvember 1998.
Mynd 1.




(Kort, myndað.)

Fylgiskjal II.


Greinargerð Landsvirkjunar um Búðarhálsvirkjun.
(11. nóvember 1998.)

    Búðarhálsvirkjun (mynd 2) nýtir rennsli og fall Tungnaár og Köldukvíslar neðan Hraun­eyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Núverandi tilhögun virkjunar var kynnt í mynsturáætl­un um orkunýtingu á vatnasviði Þjórsár, sem út kom árið 1980. Frumhönnun Búðarháls­virkjunar með því sniði sem gert var ráð fyrir í mynsturáætlun var gerð árið 1989 og er sú tilhögun talin hagkvæmust og hafa minnst umhverfisáhrif þeirra tilhagana, sem skoðaðar hafa verið. Verkhönnun virkjunarinnar er að mestu lokið. Miðað er við að virkjunin verði um 100 MW. Fallið eru um 40 m og virkjað rennsli um 325 m3/sek. Hins vegar er endanleg stærð virkjunar venjulega ekki ákveðin fyrr en að loknum nákvæmum athugunum eftir að til­boð í mannvirki og búnað liggja fyrir og upplýsingar um raforkumarkað. Aflið getur þess vegna breyst og orðið allt að 120 MW.
    Í stuttu máli er tilhögun virkjunar sem hér segir. Kaldakvísl verður stífluð rétt ofan við ármót hennar og Tungnaár. Stíflan mun liggja meðfram Tungnaá yfir núverandi frárennslis­farveg Hrauneyjafossvirkjunar. Þannig myndast um 7 ferkílómetra uppistöðulón sem nær upp að Þóristungum. Stíflan verður hefðbundin jarðstífla með þéttikjarna úr jökulruðningi í miðju. Gert er ráð fyrir að umframrennsli frá Hrauneyjafosslóni verði veitt úr Tungnaárfar­vegi inn í miðlunarlón virkjunarinnar. Úr lóninu verður vatninu veitt um aðrennslisskurð og þaðan um 4 km löng aðrennslisgöng að stöðvarhúsi ofan jarðar vestanmegin í Búðarhálsi við Sultartangalón. Í stöðvarhúsi er áætlað að verði hverfill af Kaplan-gerð um 100 MW ásamt tilheyrandi vél- og rafbúnaði. Aðalspennar verða staðsettir framan við stöðvarhúsið en tengi­virki verður í sérstöku húsi sem verður staðsett um 100 m vestan við stöðvarhúsið. Virkjun­armannvirki verða í um 10 km fjarlægð frá Hrauneyjafossvirkjun og varanleg vegtenging á milli virkjananna verður um Búðarhálsinn. Eftirliti og viðhaldi verður sinnt frá Hrauneyja­fossvirkjun. Virkjuninni verður fjarstýrt frá stjórnstöð Landsvirkjunar og mannvirkin því að öðru jöfnu mannlaus. Frá virkjuninni verður reist flutningslína að fyrirhuguðu tengivirki við Sultartangavirkjun. Einnig er gert ráð fyrir að stöðin tengist Sigölduvirkjun með háspennu­línu.
    Heildarkostnaður án virðisaukaskatts fyrir 100 MW virkjun er áætlaður um 12.400 millj. kr. á verðlagi í janúar 1998. Framkvæmdatími er áætlaður þrjú til fjögur ár. Áætlað er að vinna við framkvæmdir á verkstað nemi um 500 ársverkum. Með byggingu Búðarháls­virkjunar er áætlað að orkugeta raforkukerfisins aukist um 520 GWst á ári.


Helstu kennitölur
Rennsli
Vatnasvið
5.400 km2
Meðalrennsli
190 m3/sek.
Virkjað rennsli
325 m3/sek.
Afl og orka
Hönnunarfallhæð
35 m
Aflvél, gerð Kaplan
100 MW
Orkugeta
520 GWst/ári
Stíflur og lón
Venjulegt rekstrarvatnsborð
337 m y.s.
Miðlunarrými
26 Gl
Flatarmál lóns
7 km2
Lengd stíflu
1.800 m
Vatnsvegir
Aðrennslisskurður, lengd
400 m
Aðrennslisgöng, lengd
4,0 m
Stöðvarhús og búnaður
Stærð stöðvarhúss
1.300 m2
Tengivirki, gerð
SF6
Aðalspennar, 3 stk. einfasa
111 MVA

Umhverfisáhrif.
    Virkjunin nýtir fallið frá frárennslisskurði Hrauneyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Staðsetning og gerð helstu mannvirkja er ákveðin og umhverfisleg áhrif virkjunarinnar því ljós í meginatriðum. Miðlunarlón virkjunarinnar nær yfir eyrar Köldukvíslar og Sporðöldu­kvíslar, en lítillega vatnar yfir gróður að austan- og norðanverðu. Miðlunarrými lóns verður um 26 Gl, flatarmál lónsins verður um 7 km2 og flatarmál gróðurs, sem fer undir lón verður um 1 km2. Gert er ráð fyrir að byggja veg um Búðarháls og reisa brú yfir Tungnaá neðan miðlunarlónsins. Helstu veitumannvirki verða neðan jarðar og gert er ráð fyrir að meginhluti efnis í stíflur verði tekinn úr væntanlegu miðlunarlóni og jarðgöngum. Röskun á landi við gerð mannvirkja verður því haldið í lágmarki.
    Unnið er að skýrslu um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Þess er að vænta að skýrslu um matið verði komið til skipulagsstjóra fyrri hluta árs 1999.



Mynd 2.





(Kort, myndað.)

Fylgiskjal III.


Greinargerð Rafmagnsveitna ríkisins um Villinganesvirkjun.






(? síður myndaðar.)



Fylgiskjal IV.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um raforkuver,
nr. 60/1981, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilt að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka virkjun fallvatns sem veitt er um Vatnsfellsveitu úr Þórisvatni í Krókslón og virkjun á ármótum Köldukvíslar og Tungnaár við Búðarháls. Auk þess gerir frumvarpið ráð fyrir að heimild Landsvirkjunar til virkjunar við Villinganes í Skagafirði verði felld niður og iðnaðarráðherra verði þess í stað veitt heimild til að veita Rafmagnsveit­um ríkisins eða félagi, sem þær eiga aðild að með aðilum í Skagafirði, leyfi til að reisa og reka virkjun Héraðsvatna við Villinganes.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.
1 Rauntölur.