Ferill 473. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 778  —  473. mál.




Frumvarp til laga



um orkunýtnikröfur.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.
Tilgangur laganna.

    Tilgangur laga þessara er að stuðla að því að orka verði notuð á skynsamlegan og hagkvæm an hátt, að dregið verði úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið og stuðlað verði að þróun og notkun orkusparandi búnaðar með því að setja kröfur um orkunýtni tækja, véla og annars bún aðar.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til hvers konar tækja, véla og búnaðar sem nýta orku.
    Lögin taka ekki til notaðra tækja, véla eða annars búnaðar.

3. gr.
Skilgreining hugtaka.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

     Búnaður: Hvers konar tæki eða vélar er nýta orku.

     Viðurkenndur skoðunaraðili: Aðili sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til skoðunaraðila og ráðherra hefur tilkynnt að njóti viðurkenningar ráðherra til að taka að sér þær mæl­ingar og prófanir sem lög þessi og reglugerðir sem á þeim byggja kveða á um.

     Birgðasali: Framleiðandi búnaðar, viðurkenndur fulltrúi framleiðanda á Evrópska efnahagssvæðinu, innflytjandi búnaðar eða sá sem markaðssetur búnað á efnahagssvæðinu.

     Seljandi: Smásöluaðili eða annar sem selur, leigir eða sýnir notendum tæki.


4. gr.
Orkunýtnikröfur.

    Iðnaðarráðherra er heimilt með hliðsjón af tilgangi laga þessara að kveða á um í reglugerð hvaða kröfur um orkunýtni tiltekinn búnaður þarf að uppfylla. Heimilt er að banna sölu, leigu eða hvers konar notkun búnaðar sem ekki uppfyllir kröfur um orkunýtni.
    Ráðherra er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð að innflutningur eða framleiðsla búnaðar til eigin nota skuli lúta sams konar reglum og mælt er fyrir um í 1. mgr.

5. gr.
Merkingar.

    Iðnaðarráðherra er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð hvaða merkingar og aðrar upplýs­ingar skuli fylgja búnaði sem uppfyllir kröfur um orkunýtni.

6. gr.
Mælingar og prófanir.

    Birgðasali ber ábyrgð á að nauðsynlegar mælingar og prófanir á orkunýtni búnaðar fari fram svo kannað verði hvort búnaður uppfyllir kröfur um orkunýtni sem ákveðnar hafa verið með reglugerð skv. 4. gr. Óheimilt er að hefja sölu á búnaði þar til nauðsynlegar mælingar og prófanir hafa farið fram. Birgðasali ber allan kostnað af framangreindum mælingum og prófunum.
    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli um hvaða aðferðir og staðla skal nota við mælingar og prófanir skv. 1. mgr.

7. gr.
Framkvæmd.

    Iðnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara.
    Ráðherra getur falið Löggildingarstofu og öðrum eftirlitsstjórnvöldum að annast eftirlit með því að ákvæðum laga þessara og reglugerða sem settar verða samkvæmt þeim sé fram­fylgt.
    Við framkvæmd og eftirlit með lögum þessum skal farið að lögum nr. 134/1995 eftir því sem við á.

8. gr.
Upplýsingaskylda.

    Birgðasalar og seljendur skulu miðla þeim upplýsingum til eftirlitsaðila samkvæmt 7. gr. sem nauðsynlegar eru til framkvæmdar lögum þessum.

9. gr.
Refsiákvæði.

    Brot á lögum þessum og reglugerðum samkvæmt þeim varða sektum sem renna í ríkissjóð. Um meðferð slíkra brota fer að hætti opinberra mála.

10. gr.


Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Tilgangur þessa frumvarps er að stuðla að bættri nýtingu orku með því að ýta undir þróun og útbreiðslu búnaðar sem nýtir orku vel, þ.e. búnaðar sem notar litla orku í samanburði við afkastagetu. Lögin taka til hvers konar véla, tækja og búnaðar sem nýta orku.
    Í samstarfi Evrópuþjóða hefur verið lögð vaxandi áhersla á að draga úr orkunotkun. Í október 1990 setti Evrópubandalagið sér það markmið að koma í veg fyrir aukningu á losun koltvísýrings meðal aðildarríkjanna. Í því augnamiði var svokallaðri SAVE-áætlun hleypt af stokkunum í október 1991. Markmið SAVE-áætlunarinnar er að bæta orkunýtni í aðildar­ríkjum Evrópubandalagsins. Markmiðum áætlunarinnar hyggst Evrópubandalagið ná með því að leggja áherslu á tvo höfuðþætti. Annars vegar skal setja reglur um orkumerkingar og upplýsingaskyldu í því skyni að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um orkunýtni þeirra tækja sem þeim eru boðin til kaups. Hins vegar á að setja reglur um orkunýtni. Fyrra markmið SAVE-áætlunarinnar var ástæða þess að ráðherraráð Evrópubandalagsins setti tilskipun 92/75/EBE um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á heimilis­tækjum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum en á grundvelli tilskipunar 92/75/EBE hefur framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins sett tilskipanir er varða orkumerk­ingar kæliskápa, þvottavéla, þurrkara, uppþvottavéla o.fl. Lög um merkingar og upplýsinga­skyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., nr. 72/1994, byggðust á tilskipun 92/75/ EBE. Á grundvelli þeirra laga hefur iðnaðarráðherra sett reglugerðir sem ætlað er að inn­leiða í íslenska löggjöf fyrrnefndar tilskipanir framkvæmdastjórnarinnar. Síðara markmið SAVE-áætlunarinnar var grundvöllur þess að ráðherraráð Evrópubandalagsins setti 21. maí 1992 tilskipun 92/42/EBE, um kröfur varðandi orkunýtni nýrra heitavatnskatla sem brenna fljótandi eða loftkenndu eldsneyti. EES-samningurinn skuldbindur okkur til að innleiða í íslenskan rétt tilskipun 92/42/EBE. Evrópusambandið hefur sett tilskipun 96/57/EB um kæli­skápa, frystiskápa og sambyggða kæli- og frystiskápa. Þessar tilskipanir verða hluti EES-samningsins. Til að mæta þeirri réttarþróun eru í þessu frumvarpi ákvæði sem veita ráðherra heimild til að mæla fyrir um ákveðnar kröfur um orkunýtni búnaðar. Verður ráðherra þannig heimilt að innleiða áðurnefndar tilskipanir ráðherraráðs Evrópubandalagsins og þær gerðir sem fyrirhugað er að setja um orkunýtnikröfur.
    Við undirbúning þessa frumvarps voru höfð til hliðsjónar sambærileg dönsk lög, nr. 94/1994, um kröfur um orkunýtni búnaðar sem notar orku (lov om normer for energieffek­tivitet i energiforbrugende udstyr).
    Lagafrumvarpi þessu er ætlað að veita iðnaðarráðherra heimild til að kveða á um orku­nýtni tiltekinna tegunda búnaða. Kröfurnar geta verið um hámarksorkunotkun, ákveðna hönnun eða jafnvel einstaka hluta búnaðar. Kröfurnar skulu miða að því að auka nýtni búnaðar á orku og koma í veg fyrir að búnaður sem nýtir orku illa sé settur á markað. Setji ráðherra kröfur um orkunýtni skal horft til hagrænna sjónarmiða jafnt sem umhverfis­sjónarmiða. Kröfurnar skulu mótaðar út frá tæknilegum og efnahagslegum möguleikum á orkusparnaði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er að finna almenna lýsingu á tilgangi og markmiði laganna. Markmið laganna er að draga úr notkun á búnaði er nýtir orku illa. Þannig verður dregið úr óæskilegum áhrifum á umhverfið um leið og hagkvæmni eykst.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. er skilgreint til hvaða búnaðar lögin taka. Gildissvið laganna er nokkuð vítt, en þau taka til hvers konar búnaðar sem notar orku. Í þessu sambandi má þó tala um þrjá höfuð­flokka. Í fyrsta lagi má nefna heimilistæki, svo sem sjónvörp, myndbandstæki, útvörp o.fl. Til annars flokksins telst búnaður sem notaður er í þjónustu og verslun, svo sem kælar og frystibúnaður, þvottavélar, þurrkarar, uppþvottavélar, faxtæki, ljósritunarvélar, tölvur og búnaður tengdur þeim o.fl. Til þriðja flokksins má telja búnað sem notaður er í framleiðslu­iðnaði hvers konar, svo sem rafmótora, loftræstibúnað, dælubúnað, katla o.fl. Rétt er að taka fram að bifreiðar og önnur farartæki falla ekki undir ákvæði laganna.

    Í samræmi við markmið laganna verða fyrst og fremst gerðar orkunýtnikröfur til búnaðar sem hefur nokkuð almenna útbreiðslu og hefur þannig áhrif á heildarorkunotkun eða til bún­aðar þar sem svigrúm er til að bæta orkunýtni verulega. Fyrst og fremst verða gerðar kröfur til orkunýtni búnaðar sem gengur fyrir rafmagni en þó verður heimilt að gera kröfur til búnaðar sem nýtir annars konar orku.
    Í 2. mgr. segir að lögin taki ekki til notaðs búnaðar. Í ljósi þess að bæði er erfitt að ákveða hvaða kröfur á að gera um orkunýtni hans og að nokkur verðmæti liggja í notuðum búnaði þótti rétt að láta lögin ekki gilda um hann.

Um 3. gr.


    Í greininni eru nokkur grunnhugtök laganna skilgreind. Viðurkenndur skoðunaraðili er aðili sem ráðherra hefur veitt viðurkenningu um að uppfylli þær kröfur sem gerðar verði til skoðunaraðila og tilkynnt hefur verið um að njóti viðurkenningar. Í ljósi þess hve tæknilega flókið er að ákvarða og hafa eftirlit með orkunýtni búnaðar verður ráðherra að gera strangar kröfur til tæknilegrar þekkingar og hæfni þeirra er taka að sér slíka skoðun.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. er ráðherra veitt heimild til að mæla fyrir um í reglugerð að gera verði ákveðnar kröfur um orkunýtni búnaðar auk þess að banna sölu, leigu eða hvers konar notkun búnaðar sem ekki uppfyllir kröfur um orkunýtni. Með sölu eða leigu er átt við hvers konar sölustarf­semi eða leigustarfsemi sem stunduð er í atvinnuskyni.
    Í 2. mgr. er ráðherra veitt heimild til að mæla fyrir um að búnaður sem fluttur er inn til landsins eða framleiddur hér til eigin nota skuli uppfylla sömu kröfur og mælt er fyrir um í 1. mgr.
    Þær orkunýtnikröfur sem ráðherra er heimilt að setja skv. 1. mgr. skulu byggðar á raun­hæfum möguleikum til að bæta orkunýtni tiltekinnar tegundar af búnaði. Til hliðsjónar skal hafa áhrif orkunýtnikrafna á þjóðarhag, umhverfið, neytendur og atvinnulíf.

Um 5. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um heimild ráðherra til að kveða á um merkingar á þeim búnaði sem uppfyllir kröfur um orkunýtni. Nauðsynlegt er að neytendur eigi greiðan aðgang að upp­lýsingum um hvort búnaður uppfyllir kröfur um orkunýtni og hversu vel hann nýtir orku. Í ljósi þessa er rétt að ráðherra hafi heimild til að mæla fyrir um slíkar merkingar.

Um 6. gr.


    Í 1. mgr. er lögð sú skylda á birgðasala að sjá til þess að gerðar séu nauðsynlegar prófanir og mælingar á búnaði til að kannað verði hvort hann uppfyllir orkunýtnikröfur sem gerðar hafa verið af ráðherra.
    Í 2. mgr. er ráðherra veitt heimild til að mæla fyrir um í reglugerð hvaða aðferðir og staðla skal nota við mælingar og prófanir á orkunýtni búnaðar. Miðað er við að ef viður­kenndir alþjóðlegir eða samevrópskir staðlar eru til verði við þá miðað. Ef þeir eru hins vegar ekki til eða ef um fleiri en einn er að ræða getur ráðherra mælt fyrir um hvaða staðla eða aðferðir skuli notast við.

Um 7. gr.


    Í 1. mgr. kemur fram að iðnaðarráðherra annast framkvæmd og eftirlit.
    Með 2. mgr. er ráðherra veitt heimild til að framselja eftirlitsvald sitt. Er gert ráð fyrir að ráðherra geti falið Löggildingarstofu eða öðrum eftirlitsstjórnvöldum að annast slíkt eftirlit.
    Í 3. mgr. segir að framkvæmd og eftirlit með lögum þessum fari að lögum nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eftir því sem við á.

Um 8. gr.


    Samkvæmt greininni getur eftirlitsaðili krafist þeirra upplýsinga af birgðasölum og seljendum sem hann telur nauðsynlegar til að móta kröfur um orkunýtni eða framfylgja þeim kröfum sem þegar hafa verið gerðar. Í þessu felst að birgðasölum eða seljendum ber skylda til að koma tæknilegum upplýsingum til ráðherra sem hann telur nauðsynlegar, svo og gögn­um er varða framleiðslu eða sölu búnaðar sem gerðar eru um kröfur um orkunýtni eða verið er að undirbúa að setja slíkar kröfur um.

Um 9. og 10. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um orkunýtnikröfur.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að skilgreina kröfur um orkunýtingu nýrra tækja, véla og búnaðar. Birgðasali ber ábyrgð á að nauðsynlegar mælingar og prófanir á orkunýtni búnaðar fari fram svo að kannað verði hvort búnaður uppfylli kröfur um orkunýtni sem ákveðnar hafa verið. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra geti falið Löggildingarstofu eða öðrum eftirlitsstjórnvöldum að annast eftirlit með því að ákvæðum laganna verði fram­fylgt. Við framkvæmd og eftirlit með lögunum er vísað til laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, en þar segir að Löggildingarstofa og önnur eftirlitssjórnvöld fari með opinbera markaðsgæslu. Skulu eftirlitsstjórnvöld að eigin frumkvæði taka til meðferðar mál er varða öryggi vöru og heyra undir eftirlit þeirra.
    Faggiltar skoðunarstofur annast framkvæmd eftirlits sem birgðasali greiðir fyrir. Hlutverk Löggildingarstofu er hins vegar yfireftirlit sem felst m.a. í gerð verklags- og skoðunarreglna ásamt eftirliti og úrtaksskoðun á markaði. Í almennum athugasemdum við frumvarpið er greint frá EBE-tilskipunum um orkumerkingar ýmissa heimilistækja en ætlað er að innleiða þær hér á landi. Af því má ráða að fyrst um sinn mun eftirlit með orkunýtni ná til algengra tækja og búnaðar sem nota rafmagn sem orkugjafa þar sem svigrúm er til að auka heildar­orkunýtni verulega. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má ætla að fljótlega þurfi að auka umfang yfireftirlits Löggildingarstofu um allt að einu starfi og er heildarkostnaður áætlaður um 2,5–3 m.kr. þar sem mæling og eftirlit með orkunýtni krefst tæknilegrar þekkingar og flókins búnaðar. Þegar eftirlitið verður skilvirkt og kröfur um orkunýtni ná til véla og tækja sem nýta aðra orkugjafa mun umfang eftirlitsins og kostnaður við það aukast enn frekar.