Ferill 482. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 789  —  482. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 1998.

1. Inngangur.
    Vestur-Evrópusambandið (VES) er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja og var stofnað með Brussel-sáttmálanum árið 1948. Eftir stofnun NATO árið 1949 lá VES nánast í dvala í rúma fjóra áratugi, þar til sambandinu var með Maastricht-sáttmálanum árið 1991 falin útfærsla og framkvæmd varnarmálahluta sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu Evrópusambandsins (ESB). Síðan þá hefur VES eflst verulega og gegnt vaxandi hlutverki í öryggismálum Evrópu. Því er einkum ætlað að annast framkvæmd á fyrirhuguðum varnar­málahluta ESB og jafnframt að gegna hlutverki Evrópustoðar NATO, þ.e. að vera vettvangur evrópskra NATO-ríkja. Af þessum sökum er litið á VES sem hlekkinn á milli NATO og utanríkis- og varnarmálaarms ESB.
    VES-þingið er þingmannasamkunda sambandsins. Sem fyrr var framtíð sambandsins sjálfs ofarlega á baugi í umræðum þingsins á árinu, einkum í árslok eftir að bresk stjórnvöld vörpuðu fram hugmyndum um eflingu sjálfstæðs varnarmáttar ESB. Stofnanatengsl VES við ESB og NATO voru jafnframt til umfjöllunar, sem og ástandið á Balkanskaga. Hlutverk auka- og áheyrnaraðila VES, staða samstarfsríkja Mið- og Austur-Evrópu með tilliti til fyrir­hugaðrar stækkunnar NATO og mögulegt samstarf VES við Rússland voru enn fremur á meðal helstu umræðuefna á VES-þinginu árið 1998.

2. Markmið og skipulag VES-þingsins.
    VES-þingið var stofnað árið 1954 þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES, m.a. til þess að veita Ítalíu og Þýskalandi aðild að sambandinu. Aðildarríki þingsins eru nú tíu talsins og eru þau jafnframt öll aðildarríki ESB og NATO. Aukaaðild að þinginu eiga evrópsk aðildarríki NATO sem ekki eiga aðild að ESB, Ísland, Noregur og Tyrkland. Áheyrnaraðild að VES-þinginu eiga ESB-ríki sem fylgt hafa hlutleysisstefnu í utanríkis­málum, auk Danmerkur. Loks hafa tíu ríki Mið- og Austur-Evrópu gert samstarfssamninga við VES. Aðild að VES þinginu eiga eftirfarandi ríki:
    Aðildarríki: Belgía, Bretland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Portú­gal, Spánn og Þýskaland.
    Aukaaðild: Ísland, Noregur og Tyrkland.
    Áheyrnaraðild: Austurríki, Danmörk, Finnland, Írland og Svíþjóð.
    Samstarfsríki: Búlgaría, Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Rúmenía, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland og Slóvenía.
    Þingið hefur aðsetur í París. Tveir þingfundir eru haldnir árlega, oftast í júní og desember. Hlutverk þingsins er að fjalla um málefni sem falla undir starfssvið VES, þ.e. öryggis- og varnarmál. Þingið fjallar auk þess um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það fjallar um mál­efni efst á baugi í nefndum þingsins, ályktar um skýrslur nefnda, gerir tillögur til ráðherra­ráðsins og beinir til þess fyrirspurnum. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku en umræður fara fram á tungumálum aðildarríkjanna. Málefnanefndir VES-þingsins eru sex: varn­armálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni- og geimvísindanefnd, fjármála- og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og nefnd um almannatengsl. Íslandsdeildin á eitt sæti í hverri nefnd. Vara­menn í landsdeildum mega taka aðalsæti í nefndum. Á þinginu starfa auk fastanefnda for­sætisnefnd (Presidential Committee) og stjórnarnefnd (Standing Committee). Þessar nefndir taka ákvarðanir á milli þinga, sú fyrrnefnda einkum hvað varðar skipulagningu og stjórn þingsins, sú síðarnefnda á pólitíska sviðinu. Venja er að formenn landsdeilda sitji í þessum nefndum. Í forsætisnefnd sitja enn fremur forseti þingsins, níu varaforsetar þess (einn frá hverju hinna aðildarríkjanna), nefndaformenn og þeir fyrrverandi forsetar þingsins sem enn kunna að eiga þar sæti. Í stjórnarnefnd sitja allt að þrír fulltrúar til viðbótar frá hverju aðild­arríki, alls 30 manns til viðbótar við forsætisnefnd. Ísland á einn fulltrúa í hvorri nefnd. Nefndir þingsins halda alla jafna 4–5 fundi á ári utan þingfundanna.
    Samkvæmt starfsreglum VES-þingsins (gr. 17.1) á Alþingi í krafti aukaaðildar sinnar rétt á að senda þrjá fulltrúa á fundi VES-þingsins. Þá mega varamenn landsdeilda taka aðalsæti í nefndum en geta einungis sótt þingfundina sem áheyrnarfulltrúar. Aukaaðilar geta sam­kvæmt núverandi reglum þingsins tekið mikinn þátt í störfum þess og hafa málfrelsi á þing­fundum og styrktist staða þeirra nokkuð við breytingar sem samþykktar voru á starfsreglum þingsins á fundi þess í maí, líkt og nánar er greint frá hér á eftir. Þeir hafa þó ekki full rétt­indi, ekki atkvæðis- eða tillögurétt á þingfundum. Sú hefð hefur hins vegar skapast að fulltrúar aukaaðildarríkja geta lagt fram tillögur og breytingartillögur í þinginu, að því gefnu að fulltrúar aðildarríkja skrifi einnig undir þær. Fulltrúar aukaaðildarríkja hafa heldur ekki rétt til að tala sitt eigið tungumál á fundunum. Á hinn bóginn hafa aukaaðilar rétt til að taka til máls og greiða atkvæði í nefndum, gera breytingartillögur og taka þátt í nefndastarfi á annan hátt. Þannig geta aukaaðilar haft áhrif á þær tillögur og skýrslur sem ræddar eru á þingfundum þegar þær eru í mótun í nefndum. Aukaðilar geta einnig beint fyrirspurnum til ráðherraráðs.

3. Stofnun Íslandsdeildar VES-þingsins.
    Vegna aðildar Íslands að NATO stóð Alþingi lengi til boða að senda áheyrnarfulltrúa á fundi VES-þingsins. Alþingi þekktist boð þingsins árið 1993, en árið áður hafði Ísland feng­ið aukaaðild að VES sem þó tók ekki formlega gildi fyrr en 6. mars árið 1995. Í umboði for­sætisnefndar tilnefndu Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins og síðar Íslandsdeild Evr­ópuráðsþingsins áheyrnarfulltrúa á desemberfundi VES-þingsins árin 1994 og 1995. Í kjölfar þess að Ísland hlaut formlega aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu í mars 1995 sam­þykkti forsætisnefnd á fundi í maí 1995 að stofna Íslandsdeild VES-þingsins. Íslandsdeildin var þannig skipuð árið 1998:
    Aðalmenn: Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, Sjálfstæðisflokki, Össur Skarphéðins­son, varaformaður, Alþýðuflokki, og Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki.
    Varamenn: Kristján Pálsson og Guðmundur Hallvarðsson, Sjálfstæðisflokki, og Ásta R. Jóhannesdóttir, Alþýðuflokki. Þá tók Gústaf Adolf Skúlason við af Auðunni Atlasyni um mitt ár sem ritari Íslandsdeildarinnar.
    Skipan Íslandsdeildarinnar í nefndir er sem hér segir:
         Forsætis-, stjórnar- og stjórnmálanefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir.
              Varamaður: Össur Skarphéðinsson.
         Varnarmálanefnd: Össur Skarphéðinsson.
              Varamaður: Kristján Pálsson.
         Nefnd um almannatengsl: Össur Skarphéðinsson.
         Tækni- og geimvísindanefnd: Siv Friðleifsdóttir.
         Fjármála- og stjórnsýslunefnd: Siv Friðleifsdóttir.
         Þingskapanefnd: Siv Friðleifsdóttir.

4. Starfsemi á árinu.
    VES-þingið kemur sem fyrr segir saman tvisvar á ári til reglulegra þingfunda, auk þess sem nefndir þingsins halda fundi nokkrum sinnum á ári utan þingfunda. Á árinu tók Íslands­deildin þátt í þingfundunum tveimur, auk þess sem formaður og varaformaður sóttu sérstaka ráðstefnu á vegum þingsins um öryggismál í Evrópu.

a. Ráðstefna um öryggismál Evrópu.
    Dagana 4.–6. maí fór fram ráðstefna um öryggismál í Evrópu á vegum VES-þingsins í Madríd. Hana sóttu fyrir hönd Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, og Össur Skarphéðinsson, varaformaður. Á ráðstefnunni var fjallað um evrópsk öryggismál innan NATO, samstarf VES og NATO, fjölþjóðaheri og tengsl þeirra við NATO og VES og öryggis- og varnarmálastefnu Evrópuríkja. Ýmsir góðir gestir ávörpuðu ráðstefnuna, m.a. nefna José Cutileiro, framkvæmdastjóri VES, Javier Solana, framkvæmdastjóri NATO, José Maria Aznar, forsætisráðherra Spánar, og George Robertson, varnarmálaráðherra Bretlands.

b. Fyrri hluti 44. fundar VES-þingsins.

    Dagana 18.–20. maí fór fram fyrri hluti 44. fundar VES-þingsins í höfuðstöðvum þingsins í París. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, og Ásta R. Jóhannesdóttir, auk Auðuns Atlasonar ritara. Á þinginu var rætt og ályktað um eftirtalin mál:
          öryggismál í „stækkaðri“ Evrópu,
          tengsl VES og Rússlands,
          lögreglusveitir VES,
          Evrópu og stöðu mála á Balkanskaga ,
          samstarf Evrópuríkja í vörnum á hafi,
          fjárlög VES fyrir árið 1998,
          samstarf þjóðþinga í Mið-Evrópu, og
          þjóðþing og öryggismál .
    Eftirtaldir stjórnmála- og embættismenn ávörpuðu VES-þingið að þessu sinni: George A. Papandreou, ráðherra Evrópumála í ríkisstjórn Grikklands, José Cutileiro, framkvæmdastjóri VES, Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, Radu Vasile, forsætisráðherra Rúmeníu og Akis Tsohatzopoulos, varnarmálaráðherra Grikklands.
    Í upphafi þingfundar kvaddi breski þingmaðurinn Terry Davis sér hljóðs fyrir hönd flokkahóps sósíaldemókrata og lagði til að umræðu um stöðu mála á Balkanskaga yrði flýtt. Í fyrirliggjandi dagskrá var sú umræða ráðgerð síðdegis á lokadegi þingsins, sem seinasta mál á dagskrá. Davis sagði umræðuna um stöðu mála í Kosovo vera þá brýnustu á þessu þingi og röng skilaboð fælust í því til serbneskra stjórnvalda að setja málið síðast á dagskrá. Var fallist á tillögu Davis og umræður um eldfima stöðu mála í Kosovo flýtt til þriðjudags og rædd í samhengi við umræðu um alþjóðlegar lögreglusveitir VES.
    Fyrsta mál á dagskrá var ályktun byggð á skýrslu þýska þingmannsins Roberts Antretter, um öryggismál í „stækkaðri“ Evrópu. Lára Margrét Ragnarsdóttir tók þátt í umræðunni og lagði áherslu á að óvissunni um framtíð VES hefði verið eytt á leiðtogafundi ESB í Amster­dam. Þar ákváðu ESB-ríkin að innlima ekki VES inn í ESB heldur byggja samtökin upp sem sjálfstæða stofnun. Lára Margrét fagnaði þessari niðurstöðu og sagði helsta styrk VES felast í fjölda aðildarríkja. Lára sagði nauðsyn þess að styrkja VES vera augljósa. Pólitísk spenna á Balkanskaga væri viðvarandi og Kýpurdeilan og átökin í Mið-Austurlöndum krefðust þess að þjóðir heimsins ynnu náið saman að lausn mála. Hún sagði VES vissulega hafa átt í erfið­leikum með að taka á fyrrnefndum vandamálum, þar eð oft hefði skort á pólitískan vilja til að nýta þau tæki sem VES hefði yfir að ráða. Einmitt þess vegna ætti hins vegar að styrkja VES og efla „tækjabúr“ þess enn frekar og þannig leysa úr læðingi þann pólitíska vilja sem nauðsynlegur væri til að takast á við öryggismál í álfunni. Lára Margrét fagnaði hugmyndum Antretters um að efla þátttöku aukaaðildarríkja, áheyrnarríkja og samstarfsríkja í starfi VES. Þá lagði hún þunga áherslu á mikilvægi öryggissamstarfs Evrópu við Bandaríkin og sagði NATO hafa verið og vera kjarnann í öryggismálum álfunnar.
    Seinna málið á dagskrá fyrsta þingdags snerti breytingar á orðalagi í þingsköpum VES-þingsins, m.a. um réttindi aukaðildarríkja. Sem kunnugt er hafa aukaaðildarríkin þrjú, Ísland, Noregur og Tyrkland, haft málfrelsi, atkvæðis- og tillögurétt í nefndum þingsins, en hvorki atkvæðis- né tillögurétt í þinginu sjálfu, en hins vegar málfrelsi í öllum málum, nema í um­ræðum um ársskýrslu og fjárlög VES. Jafnframt hafa fulltrúar aukaaðildarríkjanna verið útilokaðir frá þátttöku í fjárlaganefnd þingsins. Frá því að þessar reglur voru settar hafa hins vegar ýmsar forsendur breyst. Ákvarðanir í ráðherraráði VES eru jafnan teknar samhljóða og því þykir ekki lengur ástæða fyrir því að leyfa aukaaðildarríkjum ekki að taka þátt í um­ræðum um árskýrslu. Þá hafa aukaaðildarríkin frá árinu 1995 greitt kostnað af rekstri VES og því þykir sjálfsagt að fulltrúar þeirra taki þátt í starfi fjárlaganefndar og geti í nefndinni greitt atkvæði um fjárlög. Tillaga lá fyrir þinginu um að breyta þingsköpum í samræmi við þessar breyttu forsendur. Breytingarnar voru allar samþykktar samhljóða og hafa þingmenn aukaaðildarríkja nú fulltrúa í öllum nefndum þingsins, þar á meðal í fjárlaganefnd. Enn fremur var þingsköpum breytt á þá lund að þingmenn aukaaðildarríkja hafa nú sess fullgildra meðlima í nefndum þingsins, með öllum réttindum og skyldum sem því fylgir, en eru ekki titl­aðir aukafulltrúar, eins og hingað til. Þá mega fulltrúar aukaaðildarríkja einnig taka þátt í umræðu um ársskýrslu VES. Ljóst má vera af þessum breytingum að staða aukaaðildarríkja í VES-þinginu hefur styrkst nokkuð. Á hinn bóginn er sáttmáli VES-þingsins óbreyttur þar sem segir í kafla II, grein C, að fulltrúar aukaaðildarríkja hafi ekki atkvæðisrétt í þinginu. Sú hefð hefur hins vegar skapast, sem fyrr segir, að fulltrúar aukaaðildarríkja geta lagt fram tillögur og breytingartillögur í þinginu, að því gefnu að fulltrúar aðildarríkja skrifi einnig undir þær.

c. Annar hluti 44. fundar VES-þingsins.
    Dagana 30. nóvember til 3. desember fór fram annar hluti 44. fundar VES-þingsins í höfuðstöðvum þingsins í París. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Lára Margrét Ragnars­dóttir, formaður, Össur Skarphéðinsson, varaformaður, og Siv Friðleifsdóttir, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Á fundinum var rætt og ályktað um eftirtalin mál:
          pólitíska og lagalega stöðu aukaaðildarríkja, áheyrnarríkja og samstarfsríkja VES,
          horfur í samstarfi yfir Atlantshafið á sviði öryggis- og varnarmála,
          VES og aðgerðir til að viðhalda stöðugleika á Balkanskaga,
          skipan tengsla NATO, VES og ESB,
          endurskipulagningu evrópskra vopnabúra og hlutverk VES,
          samstarf Evrópu og Rússlands við nýtingu kjarnorku,
          boðskiptakerfi VES,
          aldamótin og tölvukerfi: afleiðingar fyrir evrópsk varnarmál,
          endurskoðaða reikninga þingsins fyrir árið 1997,
          fjárlög þingsins fyrir árið 1999,
          eftirlaunasjóð starfsmanna, og
          stefnu VES í upplýsingamálum.
    Eftirtaldir stjórnmála- og embættismenn ávörpuðu VES-þingið og svöruðu spurningum þingmanna að þessu sinni: Lluís María de Puig, forseti VES-þingsins, José Cutileiro, fram­kvæmdastjóri VES, Ismail Cem, utanríkisráðherra Tyrklands, George Robertson, varnar­málaráðherra Bretlands, Günter Verheugen, aðstoðarutanríkisráðherra Þýskalands, Peter Stoyanov, forseti Búlgaríu, og Lamberto Dini, utanríkisráðherra Ítalíu og formaður ráðherra­ráðs VES.
    Nýlegar yfirlýsingar breskra stjórnvalda um endurskoðun öryggis- og varnarmála Evrópu settu helst svip á þingfundinn, en bresk stjórnvöld höfðu nýlega varpað fram hugmyndum um eflingu sjálfstæðs varnarmáttar ESB. Nákvæmar skilgreiningar á hlutverki VES, stöðu auka­aðildarríkjanna o.s.frv. höfðu hins vegar ekki fylgt í kjölfarið. Nýtt líf færðist hins vegar fyrir vikið í umræðuna um sjálfstæðan varnarmátt ESB, þótt allir virtust sammála um að standa bæri vörð um NATO og samstarfið yfir Atlantshafið. Þannig sagði t.d. de Puig, forseti VES-þingsins, í ávarpi sínu að persónulega væri hann hlynntur því að VES yrði innlimað í ESB og sagðist óttast að ella mundi VES brátt einfaldlega „þynnast niður í NATO“. Hann minnti enn fremur á að margir væru þeirrar skoðunar að leggja bæri VES niður. De Puig var endurkjörinn í embætti forseta þingsins fyrir árið 1999.
    Í umræðum um skýrslu belgíska þingmannsins Armands De Decker um skipan tengsla NATO, VES og ESB gagnrýndi Lára Margrét Ragnarsdóttir þann tvískinnungshátt sem hún sagði einkenna skýrsluna. Þannig væri ítrekað fjallað um ágæti VES sem stofnunar þar sem aðildarríki ESB, ríki sem sækjast eftir aðild að sambandinu og loks evrópsk aðildarríki NATO sem ekki sækjast eftir aðild að ESB gætu fjallað um öryggismál og varnarmál „á jafn­réttisgrundvelli“. Lára Margrét sagðist taka undir þetta og hún sagðist einnig taka undir þau orð skýrslunnar að Evrópa þyrfti að efla sjálfstæðan hernaðarmátt sinn, m.a. til að viðhalda stuðningi við NATO í Bandaríkjunum. Hins vegar sagði Lára Margrét þetta engan veginn fara saman við þá miklu pólitísku slagsíðu sem einkenndi skýrsluna í þá veru að stefna bæri að innlimun VES í ESB. Þannig segði skýrslan að Evrópa gæti ekki ávallt treyst á samráð við ríki Norður-Ameríku og „samþykki landa sem ekki væru aðilar að ESB“. Lára Margrét sagðist ekki geta komið auga á hvernig þátttaka evrópsku NATO-aðildarríkjanna utan ESB, þ.e. Íslands, Noregs og Tyrklands, gæti verið svo þung byrði fyrir evrópska öryggismála­stofnun. Lára Margrét minnti að lokum á skilgreiningu Cutileiros, framkvæmdastjóra VES, frá því í ávarpi hans daginn áður. Þar sagði Cutileiro VES vera stofnun sem Evrópuríki gætu beitt á sviði öryggis- og varnarmála í málum þar sem ríki Norður-Ameríku vildu ekki taka beinan þátt í aðgerðum. Lára Margrét sagði VES vissulega þurfa að eflast, en lagði áherslu á að sambandið héldi sjálfstæði sínu gagnvart ESB og nánum tengslum við NATO.

5. VES og Amsterdamsáttmálinn.
    Stefnt er að gildistöku Amsterdamsáttmála ESB á fyrri hluta ársins 1999. Í Amsterdam var felld sameiginleg tillaga stjórnvalda í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Belgíu, Lúxemborg og á Spáni um innlimun VES í ESB. Ástæðan var einkum hörð andstaða danskra, írskra og breskra stjórnvalda sem vilja að samstarf í utanríkis- og varnarmálum verði alfarið hefð­bundið milliríkjasamstarf og hafna hugmyndum um yfirþjóðlegt eðli slíkrar samvinnu. Eigi að síður voru teknar ákvarðanir um sameiginlega utanríkis- og varnarmálastefnu ESB (CFSP) í Amsterdam, sem snerta framtíð VES, bæði beint og óbeint. Breytingarnar sem voru gerðar á greinum um CFSP miða allar að því að styrkja hina sameiginlegu utanríkisstefnu.
    Í fyrsta lagi er fastar kveðið að orði um tengsl VES og ESB í Amsterdamsáttmálanum, m.a. um að ESB geti „notfært sér VES“ til að framfylgja ákvörðunum í varnarmálum (grein J.7.3.). Þá eru svonefnd Petersberg-verkefni VES (mannúðaraðgerðir, friðargæsla, aðgerðir til að koma á friði og aðgerðir í brýnum háska) felld undir verkefnasvið CFSP. Það þýðir að ESB mun að öllum líkindum álykta í auknum mæli um mál sem hingað til hafa verið á starfs­sviði VES og fela VES að framfylgja þeim ályktunum.
    Í öðru lagi var ákveðið í Amsterdam að styrkja verulega stofnanir í tengslum við hina sameiginlegu utanríkisstefnu. Komið verður á fót sérstakri skrifstofu CFSP sem mun undir­búa og útfæra sameiginlega stefnu ESB í utanríkis- og varnarmálum (Policy Planning and Early Warning Unit). Líklegt má telja að þessi uppbygging málefnalegs undirbúnings CFSP muni leiða til skýrari stefnu og samræmdari, en hingað til hefur brunnið við að CFSP sé einungis minnsti samnefnari stefnu aðildarríkjanna fimmtán.
    Í þriðja lagi felur Amsterdamsáttmálinn í sér nýja tegund ákvarðanatöku í utanríkismál­um, svokallaða „jákvæða hjásetu“. Þessi aðferð kveður á um að einstök ríki geti setið hjá við einstakar ákvarðanir. Þannig standa þau ekki að viðkomandi ákvörðun eða aðgerð, en skuldbinda sig jafnframt til þess að gera ekkert sem hindrar önnur ríki í að hrinda tiltekinni ákvörðun í framkvæmd. Á þennan hátt er mögulegt að koma í veg fyrir að ríki neyðist til að beita neitunarvaldi vilji þau ekki standa að ákvörðun (t.d. hlutlausu ESB-ríkin). Eins er búist við að ákvarðanir verði teknar skjótar í framtíðinni, þar eð ekki er þörf á samhljóða ákvörð­unum í öllum málum. Neitunarvald er þó enn fyrir hendi og er ákvörðun þá skotið til leið­togaráðs ESB til einróma samþykktar.
    Þessar breytingar munu ef að líkum lætur styrkja innviði sameiginlegrar utanríkis- og varnarmálastefnu ESB. Að því gefnu að engar slíkar breytingar verði gerðar á stofnunum eða ákvörðunartökuferlum VES má álykta að efling CFSP kunni að bitna á sjálfstæði VES þar eð áhrif ESB á starfsemi VES muni aukast enn frekar. Sterkari stefnumótun í utanríkis- og varnarmálum ESB þýðir óneitanlega veikara Vestur-Evrópusamband í samskiptum samband­anna tveggja. Þá má geta þess að í stefnuplaggi framkvæmdastjórnar ESB frá því í júlí, Agenda 2000, er hernaðarleg styrking VES og nánari tengsl þess við ESB skilgreind sem eitt af meginverkefnum Evrópusambandsins á komandi árum.
    Á hinn bóginn verður að teljast harla ólíklegt að af formlegri innlimun VES í ESB verði í nánustu framtíð. Slíkt krefst einróma samþykkis í ráðherraráðinu og auk þess mögulegra stjórnarskrárbreytinga í einstökum aðildarríkjum. Aukinheldur hefur fátt bent til þess að Danmörk og Bretland breyti afstöðu sinni til málsins í bráð, þótt bresk stjórnvöld íhugi nú leiðir til eflingar sjálfstæðum varnarmætti ESB, en þær hugmyndir hafa enn ekki verið út­færðar nánar. VES mun því halda áfram að gegna sjálfstæðu hlutverki í öryggismálum Evrópu. Samtökunum er mikið í mun að treysta stöðu sína sem milliliðs á milli ESB og NATO og aðstoða ríki Mið- og Austur-Evrópu til þátttöku í evrópsku öryggismálakerfi. Mikilvægt er fyrir íslenska hagsmuni að fylgjast grannt með þróun mála á vettvangi VES og taka þátt í mótun evrópskrar öryggisstefnu.

6. Framtíðarstarf VES.
    Vestur-Evrópusambandið fagnaði 50 ára afmæli sínu 17. mars 1998, en Brusselsáttmálinn var undirritaður þann dag árið 1948. Mikil gerjun á sér stað í öryggismálum Evrópu og um­ræða um aukið samstarf NATO og VES er stöðugt í gangi. Með aukinni Evrópusamvinnu má telja líklegt að VES muni fá veigameira hlutverk — í samvinnu við NATO — í vörnum álf­unnar, einkum hvað varðar björgunaraðgerðir og friðargæslu (Petersberg-verkefnin). Aðildin að NATO hefur nær allan lýðveldistímann verið kjarni íslenskra utanríkis- og varnarmála. Á þeim vettvangi hafa íslensk stjórnvöld ávallt lagt sitt af mörkum og fylgst vel með þróun mála. Á sama hátt ber Alþingi skylda til að vera virkt í starfi VES-þingsins. Þannig er mögu­legt að gæta hagsmuna Íslands í varnar- og öryggismálum, bæði austan hafs og vestan.

Alþingi, 8. febr. 1999.



Lára Margrét Ragnarsdóttir,


form.


Össur Skarphéðinsson,


varaform.


Siv Friðleifsdóttir.


Kristján Pálsson.



Ásta R. Jóhannesdóttir.



Guðmundur Hallvarðsson.