Ferill 484. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 791  —  484. mál.
Frumvarp til lagaum landshlutabundin skógræktarverkefni.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)1. gr.
Tilgangur.

    Tilgangur laga þessara er að stuðla að ræktun fjölnytjaskóga og skjólbelta í landinu og verndun og umhirðu þess skóglendis sem fyrir er, treysta með því byggð og fjárfesta í nýrri auðlind sem efla mun atvinnulíf í framtíðinni.
    

2. gr.
Landshlutaverkefni.

    Landbúnaðarráðherra er heimilt eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hverju sinni og að fengnu áliti Skógræktar ríkisins að stofna til sérstakra landshlutaverkefna í skógrækt. Lands­hlutaverkefni í skógrækt eru samkvæmt lögum þessum sjálfstæð verkefni sem fá framlög til skógræktar á tilteknu landsvæði.

3. gr.
Skilgreiningar.

     Fjölnytjaskógrækt. Í lögum þessum er greint milli tveggja greina fjölnytjaskógræktar. Annars vegar ræktunar timburskóga, með það markmið að framleiða viðarafurðir til iðnaðar­nota, og hins vegar ræktunar landbótaskóga, en þá er fyrst og fremst lögð áhersla á verndar- og landbótamátt skógarins, fegurð hans og útivistargildi.
    Skjólbelti. Skjólbelti eru í lögum þessum greind í tvo flokka. Annars vegar eru belti sem ræktuð eru í því skyni að auka hvers kyns uppskeru og skýla búfénaði og mannvirkjum tengdum landbúnaði og hins vegar belti sem hugsuð eru sem undanfari skógræktar á ber­svæði.

4. gr.
Landshlutaáætlun og samningar við þátttakendur.

    Fyrir hvert landshlutaverkefni skal gera sérstaka landshlutaáætlun. Áætlunin skal vera til a.m.k. 40 ára og skiptast í tíu ára tímabil. Í hverju landshlutaverkefni skal stefnt að ræktun skóga á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis.
    Gera skal samninga sem landbúnaðarráðherra staðfestir við hvern og einn þátttakanda verkefnis og þinglýsa þeim á viðkomandi jörð. Samningar skulu taka til afmarkaðs lands sem tekið er til ræktunar í hverju tilviki og kveða á um kostnaðarþátttöku ríkisins, hlutdeild ríkis­sjóðs í væntanlegum afrakstri og annað sem þurfa þykir.

5. gr.
Kostnaður.

    Þátttaka ríkissjóðs í kostnaði hvers landshlutaverkefnis greiðist með sérstakri fjárveitingu sem færð er undir landbúnaðarráðuneytið.
    Landbúnaðarráðherra samþykkir skógræktar- og skjólbeltakostnað að fengnum tillögum Skógræktar ríkisins og verkefnisstjórna.
    Landshlutaverkefnin greiða undirbúnings- og rekstrarkostnað og laun stjórnar og fastra starfsmanna. Enn fremur greiða þau ákveðinn hluta af samþykktum kostnaði við skógrækt og skjólbeltarækt á lögbýlum óháð búsetu, með kvöðum um endurgreiðslu til ríkissjóðs, sbr. 6. gr. Hlutfallsleg greiðsla landshlutaverkefnanna af samþykktum kostnaði er ákveðin í reglugerð settri af landbúnaðarráðherra að fengnum tillögum stjórna verkefnanna.

6. gr.
Skipting tekna af landshlutaverkefnum.

    Til ríkissjóðs skal greiða 15% af söluverðmæti hvers rúmmetra trjáviðar á rót og skal því fé varið til ræktunar nýrra skóga. Undanþegin er grisjun fyrstu 40 árin, enda sé hún skógin­um nauðsynleg að mati Skógræktar ríkisins. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um álagningu og innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein.

7. gr.
Forgangur að vinnu.

    Skógareigendur, sem hafa til umráða jarðir sem teknar eru til skógræktar samkvæmt samningi við viðkomandi landshlutaverkefni, skulu hafa forgang að vinnu á þeirra vegum. Nýti þeir ekki forgangsréttinn skulu aðrir skógareigendur sem aðild eiga að landshlutaverk­efninu, hafa forgang að vinnunni.

8. gr.


Stjórn og rekstur.


    Landbúnaðarráðherra skipar þriggja manna stjórn fyrir hvert verkefni til tveggja ára í senn. Skal einn stjórnarmanna tilnefndur af félögum skógarbænda á viðkomandi svæði, annar af Skógrækt ríkisins og sá þriðji er skipaður án tilnefningar. Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn verkefnisins og samþykkir starfs- og fjárhagsáætlanir. Stjórn er heimilt að ráða fram­kvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur. Skógrækt ríkisins veitir aðstoð og faglegar leið­beiningar við verkefnin samkvæmt samstarfssamningi viðkomandi aðila.


9. gr.
Ársskýrslur og ársreikningar.

    Ársskýrslur og ársreikningar landshlutaverkefna skulu samþykktir af viðkomandi stjórn og skulu enn fremur staðfestir af landbúnaðarráðherra. Þar skal koma fram staða fram­kvæmda á hverjum tíma og yfirlit yfir ráðstöfun fjármuna.
    Reikninga landshlutaverkefna skal birta í Stjórnartíðindum, endurskoðaða af Ríkisendur­skoðun.

10. gr.
Önnur verkefni.

    Landbúnaðarráðherra getur, í samráði við skógræktarstjóra, falið stjórn landshlutaverk­efna umsjón skógræktarverkefna þar sem einstaklingum og félagasamtökum er veittur stuðn­ingur til skógræktar og stofnað er til skv. 8. gr. laga um skógrækt og skógvernd.

11. gr.
Reglugerð og almenn lagaákvæði.

    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum fer um ræktun og meðferð skóga landshlutaverk­efna samkvæmt ákvæðum laga um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum.
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.
    

12. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Að fjórum árum liðnum skal endurskoða lög þessi ásamt lögum um Héraðsskóga, nr. 32/1991, og Suðurlandsskóga, nr. 93/1997 .

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er í meginatriðum byggt á lögum nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga, sem samþykkt voru á 121. löggjafarþingi, 1996–97, og er það lagt fram samhliða frumvarpi til nýrra laga um skógrækt og skógvernd. Með frumvarpinu er lagt til að landbúnaðarráðherra verði veitt heimild til þess að stofna til landshlutabundinna skógræktarverkefna í líkingu við það verkefni sem stofnað var til með lögum nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga. Gert er ráð fyrir því breytta fyrirkomulagi að ráðherra sé veitt heimild til að stofna til verkefna án þess að sérstaka lagasetningu þurfi til í hverju tilviki. Lög um Suðurlandsskóga eru að megin­stofni byggð á lögum um Héraðsskóga frá 1991. Í lögum um Héraðsskóga er eingöngu gert ráð fyrir verkefnum í nytjaskógrækt. Helstu nýmæli í lögum um Suðurlandsskóga eru að þar er stefnt að ræktun fjölnytjaskóga og skjólbelta. Í lögum um Suðurlandsskóga og í þessu frumvarpi kemur fyrir orðið „timburskógrækt“. Er það heiti almennt notað í dag í stað orðs­ins „nytjaskógrækt“. Merkingin orðanna er sú sama. Í lögum um Suðurlandsskóga og í þessu frumvarpi kemur enn fremur fyrir hugtakið „fjölnytjaskógrækt“. Það hugtak er að sama skapi nýtt í málinu og er átt við ræktun timburskóga og landbótaskóga, en með landbótaskógrækt er fyrst og fremst lögð áhersla á verndar- og landbótamátt skógarins, fegurð hans og útivist­argildi.
    Í lögum um skógrækt, nr. 3/1955, sbr. breytingalög frá 1984 um ræktun nytjaskóga á bú­jörðum, sbr. enn fremur lög nr. 22/1966, um viðauka við lög nr. 3/1955, eru veittar heimildir til að styðja nytjaskógrækt og skjólbeltarækt. Eru því samtals fjórir lagabálkar í gildi sem varða stuðning ríkisins við skógrækt. Stefnt er að því að einfalda umgerð þessa málaflokks og er fyrsta skrefið í þá átt stigið með þessu frumvarpi og því frumvarpi sem lagt er fram samhliða, til nýrra laga um skógrækt og skógvernd. Er gert ráð fyrir því í síðarnefnda frum­varpinu að fella úr gildi öll eldri lög um skógrækt, að undanskildum lögum um Suðurlands­skóga og Héraðsskóga. Er stefnt að því að þegar einhver reynsla er komin á framkvæmd laga samkvæmt þessu frumvarpi fari fram endurskoðun á þeim sem og lögum um Suðurlandsskóga og Héraðsskóga með það að markmiði að um landshlutaverkefni gildi einn lagabálkur í stað þriggja.
    Í frumvarpi þessu, sbr. enn fremur frumvarp til laga um skógrækt og skógvernd, er gert ráð fyrir því að mestur stuðningur ríkisins við gróðursetningu verði á grundvelli landshluta­verkefna. Með öðrum orðum er sú stefna sett að Skógrækt ríkisins dragi sig út úr þessum þætti skógræktar í landinu. Áfram er þó gert ráð fyrir að Skógrækt ríkisins hafi heimild til að styrkja einstaklinga og félagasamtök í skógrækt. Gert er ráð fyrir þeim möguleika að landbúnaðarráðherra geti falið stjórnum landshlutaverkefna umsjón þessara verkefna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um tilgang frumvarpsins og þarfnast greinin ekki nánari skýringa.
    

Um 2. gr.

    Hér er kveðið á um hvernig landbúnaðarráðherra getur stofnað til landshlutaverkefna og hvert markmiðið er með slíkum verkefnum. Landshlutaverkefni eru hvorki opinberar stofnan­ir né fyrirtæki, en eru sjálfstæð í þeim skilningi að stjórnir verkefnanna lúta ekki fyrirmælum annarra.

Um 3. gr.

    Hér er að finna skilgreiningar á hugtökum sem koma fyrir í lögunum og þurfa sérstakrar skýringar við.
    

Um 4. gr.

    Gert er ráð fyrir að unnin verði a.m.k. 40 ára áætlun um ræktun fjölnytjaskóga og skjól­belta fyrir hvert verkefni. Áætlunin skiptist í 10 ára tímabil, en af hálfu sérfræðinga Skóg­ræktar ríkisins er lögð áhersla á að heildaráætlunin nái til a.m.k. 40 ára þar sem við ræktun skóga sé nauðsynlegt að eðlileg hringrás náist í ræktuninni svo að nýting timburs úr skóg­unum verði hagkvæm. Kveðið er á um að í landshlutaáætlun skuli stefna að því að rækta skóga á að minnsta kosti 5% flatarmáli þess lands sem telst láglendi. Láglendi í þessu sam­hengi telst vera það land sem er undir 400 metra hæðarlínu. Með lögum um Suðurlandsskóga er stefnt að ræktun á ákveðnum hektarafjölda á því svæði sem um ræðir. Þar sem þetta frum­varp er umgjörð fyrir verkefni á mismunandi landsvæðum er lagt til að í stað hektarafjölda sé stefnt að ákveðnu hlutfalli þess lands sem er innan áætlunarinnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ræktun fjölnytjaskóganna og skjólbeltanna skuli byggjast á samningum sem hver einstakur landeigandi eða ábúandi með samþykki eiganda gerir við landshlutaverkefnið og landbúnaðarráðherra staðfestir fyrir hönd ríkisins. Tekin eru fram helstu atriði sem nauðsynlegt er að fram komi í samningunum.
    

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. er tekið fram að um sérstaka fjárveitingu verði að ræða fyrir hvert verkefni. Í 2. og 3. mgr. er kveðið á um að leita þurfi eftir samþykki landbúnaðarráðherra á því hvaða kostnað við skógrækt megi greiða. Hvert stuðningshlutfallið verður skal síðan ákveða með reglugerð. Þátttöku ríkisins í skógrækt skal því ákveða með því að velja hvaða kostnaður er samþykktur og hver hlutfallsleg greiðsla er af samþykktum kostnaði. Í 3. mgr. er einnig kveðið á um að landshlutaverkefnin greiði almennan rekstrarkostnað, þ.e. kostnað við undirbúning verkefnisins, rekstur, laun stjórnar og fastra starfsmanna. Gera verður ráð fyrir að í byrjun verði um nokkurn undirbúningskostnað að ræða fyrir hvert verkefni við gagnasöfn­un, þróunarvinnu og gerð ræktunaráætlana.

Um 6. gr.

    Í greininni er sagt fyrir um hvernig skuli farið með tekjur af timburskógunum við skógar­högg og að ráðherra setji nánari ákvæði um það í reglugerð. Gert er ráð fyrir að skatthlutfall af timbursölu taki mið af styrk ríkisins til greiðslu stofnkostnaðar í skógrækt og að hlutfall þess styrks verði miðað við væntanlegt verðmæti skóga á rót, þ.e. söluverðmæti trjáviðar á rót áður en skógarhögg og flutningar fara fram. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um að fyrstu 40 árin verði veitt undanþága frá því að greiða í ríkissjóð 15% söluverðmætis trjáviðar sem fæst við grisjun sem getur verið mjög mismunandi á milli skóga.

Um 7. gr.

    Þessi grein kveður á um forgang að vinnu við landshlutaverkefnin. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að skógarbændur eigi alltaf forgang að þeirri vinnu sem í boði er á þeirri jörð er þeir nýta. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að vinna, sem skógarbændur vinna ekki sjálfir, standi fyrst til boða þeim skógarbændum sem gert hafa ræktunarsamninga við verkefnið verði því við komið. Þegar um forgang að vinnu er að ræða er gert ráð fyrir að allir þeir sem hafa sama lögheimili og búsetu og skógarbóndi falli undir forgangsákvæðin, ekki bara skráður skógar­bóndi.
    

Um 8. gr.

    Greinin kveður á um að landbúnaðarráðherra skipi hverju verkefni stjórn sem fari með yfirstjórn þess. Samkvæmt ákvæðinu er henni heimilt að ráða sér framkvæmdastjóra. Einnig er kveðið á um að gerðir skuli samstarfssamningar um aðstoð og faglegar leiðbeiningar við Skógrækt ríkisins um hvert verkefni.
    

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.
    

Um 10. gr.

    Með þessu ákvæði er landbúnaðarráðherra veitt heimild til þess að fela landshlutaverk­efnum umsjón skógræktarverkefna sem Skógrækt ríkisins fer með samkvæmt ákvæðum laga um skógrækt og skógvernd.

Um 11. og 12. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Þar sem nú þegar hefur verið stofnað til verkefna á Héraði og á Suðurlandi með sérstök­um lögum er talið eðlilegt að þessi lög og lögin um Héraðsskóga og Suðurlandsskóga verði endurskoðuð að ákveðnum tíma liðnum. Fimm árum frá gildistöku þessara laga má gera ráð fyrir því að næg reynsla hafi fengist og þá verði það skoðað hvort heppilegt sé að fella lög um Suðurlandsskóga og Héraðsskóga úr gildi og að aðeins verði í gildi ein heildarlög um landshlutabundin skógræktarverkefni.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um landshlutabundin skógræktarverkefni.

    Frumvarpið felur í sér heimild til handa landbúnaðarráðherra til að stofna til landshluta­verkefna í skógrækt sem styrkja skógrækt á lögbýlum eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra skipi stjórn fyrir hverja landshlutaáætlun og getur kostnaður við hverja stjórn numið 100–300 þús. kr. á ári. Stjórnin ræður framkvæmda­stjóra til að annast daglegan rekstur eftir því sem fjárhagur verkefnisins leyfir. Áætlað er að laun framkvæmdastjóra í fullu starfi og rekstur skrifstofu kosti 4–5 m.kr. á ári. Í áætlun um Suðurlandsskóga er stjórnunarkostnaður talinn nema um 2% af heildarkostnaði. Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að landbúnaðarráðherra sé heimilt að fela stjórnum landshlutaverkefna umsjón skógræktarverkefna sem falla undir Skógrækt ríkisins. Ætla má að heimildin verði nýtt þegar slíkt þykir hagkvæmt.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að stjórnir landshlutaverkefna veiti, eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum, fjárstyrki til skógræktar á sínu svæði og geri samninga um fjárstyrki. Hvert verkefni kostar gerð landshlutaáætlana í skógrækt til 40 ára í senn. Með hliðsjón af reynslu við undirbúning Suðurlandsskóga kostar hver áætlun 3–5 m.kr. og alls gætu þær orðið sex á landinu. Heildarkostnaður við fyrstu áætlanir í öllum landshlutum gæti því numið 18–30 m.kr. Kostnaður við endurskoðun áætlana er talinn óverulegur.
    Gert er ráð fyrir að hver landshlutaáætlun sé til 40 ára og stefni að ræktun skóga á að minnsta kosti 5% láglendis á viðkomandi svæði. Sé unnið að áætlunum í öllum landshlutum er stefnt að ræktun 200.000 hektara skóglendis á landinu öllu eða um 5.000 hektara á ári í 40 ár. Þetta verk er þegar hafið. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir nálægt 154 m.kr. til að auka við skóga í landinu, sbr. töflu 1. Mótframlög bænda, skógræktarfélaga og einstaklinga eru áætluð um 64 m.kr. Samtals er því áætlað að verja um 218 m.kr. til þessara verkefna á árinu 1999 og talið að framlögin nýtist til að stækka skóga um 1.500 hektara á ári. Til að ná markmiði laganna þarf að auka skóga um 3.500 hektara á ári í 40 ár.
    Aðstæður til skógræktar eru mismunandi eftir landshlutum og hægt að fara misdýrar leiðir til að rækta 3.500 hektara af nýjum skógi á ári, sbr. töflu 2. Ef aðeins verða ræktaðir timbur­skógar gæti þurft að auka framlög ríkisins um 500 m.kr. á ári til að ná markmiðinu, en ef ein­göngu verður friðað fyrir beit verður kostnaðarauki ríkisins um 44 m.kr. Miðað við óbreytta samsetningu framkvæmda þurfa árleg framlög að hækka um 360 m.kr. Í tengslum við gerð þessarar kostnaðarumsagnar hefur landbúnaðarráðuneytið sett fram dæmi um áætlun sbr. töflu 3 sem gerir ráð fyrir að um þriðjungi verði náð með timburskógrækt en því sem á vantar að mestu með friðun lands, beitarstjórnun og sáningu birkifræs. Kostnaðarauki ríkisins sam­kvæmt þessari áætlun gæti verið 222 m.kr. á ári. Þar sem landshlutaáætlanir liggja ekki fyrir og gert er ráð fyrir að ráðherra ákveði kostnaðarþátttöku ríkisins í reglugerð er ekki unnt að áætla kostnað nákvæmar. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að reglur ráðherra um kostnaðarþátttöku og leiðir í skógrækt taki mið af fjárveitingum Alþingis í fjárlögum hverju sinni.
Tafla 1. Áætlaður Fjárlaga- Áætlað Framlög Áætluð
Framlög samkvæmt fjárlagafrumvarpi hluti ríkisins, frumvarp, mótframlag, samtals, nýrækt
1999 og áætluð nýræktun skóga % m.kr. m.kr. m.kr. skóga, ha
Héraðsskógar, timburskógrækt
97 57 2 59 408
Suðurlandsskógar, timburskógrækt
97 30 1 31 215
Nytjaskógrækt á bújörðum, timburskógrækt
80 24 6 30 208
Skógrækt ríkisins, skógrækt á eigin löndum
100 13 0 13 135
Landgræðsluskógar á vegum skógræktarfélaga
38 19 30 49 348
Viðbótarskógar á vegum einstaklinga
25 7 21 28 184
Skjólbelti, styrkir veittir af Skógrækt ríkisins
50 4 4 8 8
Samtals
154 64 218 1.506


Tafla 2. Kostnaður Áætlaður Framlag á
Áætlaður kostnaður við skógrækt og hlutdeild ríkisins á hektara, hluti ríkisins, hektara í
þús. kr. % þús. kr.
Timburskógrækt
144 97 140
Nytjaskógrækt á bújörðum, timburskógar
144 80 115
Skógrækt ríkisins, skógrækt á eigin löndum
70 100 97
Landgræðsluskógar, plöntur afhentar skógræktarfélögum
140 38 53
Viðbótarskógar, plöntur afhentar einstaklingum
152 25 38
Landbótaskógrækt, birkiskógar
23 97 23
Landbótaskógrækt, sjálfgræðsla lands
13 97 13


Tafla 3. Áætlaður Framlag
Tilbúið dæmi um áætlun fyrir tiltekið ár hluti ríkisins, ríkisins, Hektarar
% m.kr. á árinu
Timburskógrækt
97 168 1.200
Skógrækt ríkisins, skógrækt á eigin löndum
100 10 100
Landgræðsluskógar, plöntur afhentar skógræktarfélögum
38 5 100
Viðbótarskógar, plöntur afhentar einstaklingum
25 4 100
Landbótaskógrækt, birkiskógar
97 23 1.000
Landbótaskógrækt, sjálfgræðsla lands
97 13 1.000
Samtals
223 3.500