Ferill 516. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 830  —  516. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stuðning við íbúa Austur-Tímor.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir stuðningi og aðstoð við íbúa Austur-Tímor og flóttafólk þaðan. Verði aðstoðin fólgin í áframhaldandi stuðningi við sjálf­stæðisbaráttu Austur-Tímorbúa á alþjóðavettvangi, í aðstoð við flóttafólk og pólitíska fanga og með því að hafa til reiðu áætlun um þróunaraðstoð þegar Austur-Tímorbúar öðlast sjálf­stæði sitt.

Greinargerð.


    Haustið 1996 hlutu þeir Carlos Belo, biskup á Austur-Tímor, og José Ramos Horta, fyrr­verandi utanríkisráðherra eyjunnar, friðarverðlaun Nóbels. Þar með urðu þáttaskil í baráttu Austur-Tímorbúa gegn harðstjórn Indónesa og margítrekuðum mannréttindabrotum þeirra, sem staðið hafa hátt í 25 ár. Athygli umheimsins beindist að þessari litlu eyju sem er í sund­inu á milli Ástralíu og kryddeyjanna miklu sem nú tilheyra Indónesíu.
    Austur-Tímor var áður portúgölsk nýlenda, en var í þann mund að öðlast sjálfstæði er Indónesíuher réðist á eyjuna og lagði hana undir sig. Innrásinni var mótmælt af Sameinuðu þjóðunum, en þrátt fyrir þau mótmæli hefur samfélag þjóðanna látið Indónesa komast upp með hernað, manndráp, pyntingar og margvísleg mannréttindabrot, án þess að gripið hafi verið til viðskiptaþvingana eða verulegs þrýstings af öðru tagi.
    Eftir að fulltrúar Austur-Tímorbúa hlutu Nóbelsverðlaunin ræddu fjölmargir fulltrúar erlendra ríkja málefni Austur-Tímor við stjórnvöld í Indónesíu og beittu margir sér fyrir því að leiðtogi frelsishreyfingar Austur-Tímorbúa, Xanana Gusmao, sem setið hefur í fangelsi í Jakarta höfuðborg Indónesíu um nokkurra ára skeið, verði látinn laus. M.a. fékk Nelson Mandela að hitta hann er hann var á ferð í Indónesíu og sama máli gegnir um ýmsa fulltrúa Evrópusambandsins.
    Þau tíðindi hafa nú gerst að Gusmao hefur verið fluttur úr dýflissunni í stofufangelsi sem auðveldar honum mjög að eiga samskipti við annað fólk og vera þátttakandi í þeirri þróun í átt til sjálfstæðis sem þegar er hafin.
    Vorið 1997 heimsótti José Ramos Horta Ísland, m.a. vegna þess að Íslendingar hafa ávallt stutt tillögu um fordæmingu á innrás Indónesa meðal Sameinuðu þjóðanna. Meðan á heim­sókninni stóð spáði Ramos Horta því að stjórn Suhartos, hershöfðingja í Indónesíu, félli inn­an fimm ára vegna sívaxandi óánægju og þess að fjölmiðlabyltingin sæi til þess að fólk fengi nú upplýsingar sem stjórnvöld hafa reynt að halda frá almenningi. Stjórn Suhartos féll innan árs frá heimsókninni. Nú situr að völdum í Indónesíu stjórn Habibes sem er nátengdur Suharto. Stjórn hans hefur heitið umbótum en þær ganga hægt. Mótmæli eru tíð og sennilega er stjórn hans aðeins til bráðabirgða, því að kosningar eiga að fara fram á næsta ári.
    Frá því að spilaborg Suhartos hrundi hefur Indónesía átt í miklum efnahagserfiðleikum sem tengjast annars vegar mikilli spillingu í landinu og fjárstreymi úr landi, hins vegar sam­drættinum í Austur-Asíu. Kínverjar sem héldu uppi atvinnulífinu hafa unnvörpum flúið land enda sættu þeir ofsóknum annarra landsmanna. Stjórnkerfið er í molum og herinn heldur að sér höndum enda mikill ótti við borgarastyrjöld.
    Austur-Tímorbúar hafa notað tímann frá því að stjórn Suhartos féll til að koma upplýs­ingum til íbúa Indónesíu um aðfarir Indónesíuhers á Austur-Tímor, um stjórnarhætti hans þar og þær miklu þjáningar sem íbúarnir hafa mátt þola. Slíkar upplýsingar fékk fólk ekki áður. Vera hersins á Austur-Tímor kostar illa stætt ríki Indónesíu mikið fé. Sú von þeirra sem berj­ast fyrir sjálfstæði Austur-Tímor að íbúar Indónesíu mundu brátt krefjast þess að herinn yrði kallaður heim og Austur-Tímor látin róa virðist nú vera að rætast. Stjórnvöld eru þó treg til að veita fullt sjálfstæði strax, m.a. af ótta við að íbúar ýmissa annarra eyja sem tilheyra Indónesíu krefjist hins sama. Sá ótti þeirra er ekki ástæðulaus því að stjórnarhættir þeir sem Austur-Tímorbúar hafa mátt þola eru ekki einsdæmi heldur hafa t.d. íbúar Papúa Nýju Gíneu mátt þola mikið harðræði og mannréttindabrot, ásamt íbúum fleiri eyja. Austur-Tímorbúar svara rökum Indónesíustjórnar með því að þeir hafi aldrei tilheyrt Indónesíu og því sé það ekki þeirra mál hvernig Indónesar leysa sín innri vandamál. Austur-Tímorbúar eru því mjög bjartsýnir nú um að sjálfstæði sé innan seilingar og eru þegar farnir að undirbúa hvað gera skuli þegar að því kemur.
    Í janúar bárust þau tíðindi að stjórn Indónesíu væri reiðubúin til að íhuga sjálfstæði Aust­ur-Tímor, en fyrst ættu íbúarnir að fá eins konar heimastjórn meðan þeir væru að huga að framtíð sinni. Þegar Xanana Gusmao var fluttur úr fangelsinu fékk hann að ræða við frétta­menn. Hann lagði áherslu á að menn flýttu sér hægt en stefndu að sjálfstæði. Fleiri leiðtogar Austur-Tímor hafa tekið undir orð hans, því að þeir tortryggja Indónesíustjórn og vilja engu treysta fyrr en herinn er farinn, en einnig vegna þess að menn óttast að þær þúsundir Indó­nesa sem flutt hafa til Austur-Tímor og að þeir sem unnið hafa með Indónesum telji sig illa svikna og komið geti til innbyrðis átaka. Þar gæti reynt á múslima annars vegar og kristna hins vegar, en í Indónesíu hafa kristnir menn verið ofsóttir grimmilega að undanförnu. Íbúar Austur-Tímor eru langflestir kaþólskir og hefur kirkjan leikið stórt hlutverk á undanförnum árum við að verja fólk, veita því skjól og gagnrýna aðfarir Indónesa. Það eru tvísýnir tímar framundan, en eins og er bendir allt til þess að sjálfstæðið sé skammt undan. Þegar þessi orð eru rituð sitja fulltrúar portúgalskra og indónesískra stjórnvalda við samningaborð og hefur þegar verið samið um þjóðaratkvæðagreiðslu á Austur-Tímor. Portúgalir hafa tekið að sér að gæta hagsmuna íbúanna á Austur-Tímor, en þeir hafa stutt baráttu þeirra dyggilega um margra ára skeið.
    Á Austur-Tímor er mikil fátækt enda hefur nánast allur auður landsins verið fluttur í burtu. Þess eru dæmi að herforingjar Indónesa hafa orðið vellauðugir af því að notfæra sér aðstæður svo sem möguleika á kaffirækt og olíuvinnslu. Menntun er af mjög skornum skammti á Austur-Tímor og mikið verk að vinna við að byggja upp mennta- og heilbrigðis­kerfi. Þá þarf fjöldi fólks á mikilli aðstoð að halda eftir pyntingar og aðrar hörmungar sem það hefur orðið fyrir.
    Möguleikanir eru margir á Austur-Tímor, m.a. eru góð fiskimið við eyjuna, en þau eru nú nýtt af flotum Japana, Suður-Kóreu og Kínverja. Það er ekki síst á sviði sjávarútvegs sem Íslendingar geta komið til aðstoðar þegar Austur-Tímor fær sjálfstæði sitt. Þangað til er brýnt að Austur-Tímorbúar njóti áfram stuðnings á alþjóðavettvangi og að þjóðir heims vaki yfir málefnum þessarar litlu þjóðar sem hefur mátt þola svo mikið harðræði. Það má m.a. gera með því að beita sér fyrir því að Xanana Gusmao verði látinn laus, en hann er almennt viðurkenndur sem mjög mikilvægur samningamaður í viðræðum sem framundan eru. Þá er mikilvægt að styðja þau samtök Austur-Tímorbúa og stuðningsmanna þeirra sem vinna hjálp­arstarf í þágu flóttamanna og þeirra sem eiga um sárt að binda á Austur-Tímor.
    Tilgangur þessarar tillögu er að hvetja íslensk stjórnvöld til að halda vöku sinni í málefn­um Austur-Tímor og fá þau til að beita sér fyrir hvers kyns stuðningi við íbúa eyjunnar sem hafa mátt þola tæplega 25 ára harðstjórn.