Ferill 428. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 839  —  428. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um reglugerð um losunar- og sjósetningarbúnað gúmbjörgunarbáta.

     1.      Hvenær var fyrst sett reglugerð um losunar- og sjósetningarbúnað gúmbjörgunarbáta?
    Árið 1982 voru fyrst settar reglur um þetta efni nr. 351/1982, um staðsetningu, losunar- og sjósetningarbúnað gúmmíbjörgunarbáta fyrir þilfarsskip, og búnað til að komast í gúmmí­björgunarbáta. Þeim reglum var lítillega breytt með reglum nr. 45/1983.
    Árið 1985 voru settar nýjar reglur nr. 325/1985, um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa (7. gr. um sjósetningarbúnað gúmmíbjörgunarbáta), sem var breytt með reglum nr. 80/1988.
    Þá voru settar nýjar reglur árið 1994, sem nú eru í gildi, nr. 189/1994, um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa (7. gr. um losunar- og sjósetningarbúnað), sem var breytt með reglum nr. 337/1997.

     2.      Hvenær var ákvæðum hennar frestað og hver var ástæða þess?
    Reglum nr. 351/1982 var ekki frestað heldur voru gerðar á þeim örlitlar breytingar með reglum nr. 45/1983. Aftur á móti hafa aðrar reglur tekið við af þeim eins fram kemur í svari við 1. lið.

     3.      Hve oft hefur setningu reglugerðarinnar verið frestað og af hvaða ástæðum?
    Reglum nr. 189/1994, um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa, hefur verið frestað sjö sinnum, þ.e. ákvæðum um losunar- og sjósetningarbúnað gúmmíbjörgunarbáta, sbr. eftir­farandi auglýsingar:
                             Augl.     14/1995     frestað til 1. janúar 1996
                             Augl.     18/1995     frestað til 1. júlí 1996
                             Augl.     359/1996     frestað til 1. janúar 1997
                             Augl.     705/1996     frestað til 1. apríl 1997
                             Reglur     337/1997     frestað til 1. janúar 1998
                             Augl.     2/1998     frestað til 1. janúar 1999
                             Augl.     744/1998     frestað til 1. janúar 2000

    Ástæður frestana voru þær að losunar- og sjósetningarbúnaður sem viðurkenndur hafði verið fullnægði ekki þeim kröfum sem til hans höfðu verið gerðar. Af þeim sökum var skip­aður samstarfshópur um losunar- og sjósetningarbúnað sem skilaði áliti í desember 1996. Þann 2. maí 1997 var reglunum breytt með reglum nr. 337/1997 og settar fram nýjar kröfur um búnaðinn.
    Áður en Siglingastofnun Íslands viðurkennir losunar- og sjósetningarbúnað þarf að liggja fyrir staðfesting um að búnaðurinn hafi verið gerðarprófaður og að framleiðsla fyrirtækis á slíkum búnaði hafi verið gæðavottuð. Ástæður frestunar á gildistöku ákvæða um losunar- og sjósetningarbúnað gúmmíbjörgunarbáta til 1. janúar 2000, sem ákveðin var með auglýsingu nr. 744 frá 10. desember 1998, eru að þá hafði framleiðsla búnaðar ekki verið gæða­vottuð, enginn búnaður hafði verið gerðarprófaður og því ekki viðurkenndur af Siglinga­stofnun Íslands. Þrjú fyrirtæki hafa hannað og smíðað losunar- og sjósetningarbúnað. Enn sem komið er hefur búnaður þeirra ekki verið gerðarprófaður hjá Iðntæknistofnun og eru ástæður þess að tilskilin gögn hafa ekki borist frá framleiðendum búnaðarins til að ljúka prófunum hjá Iðntæknistofnun.

     4.      Hvernig er staðið að framgangi þessa máls nú í ljósi þess að ráðuneytið hefur ákveðið gildistöku reglugerðar um fyrrnefndan búnað 1. janúar 2000?
    Ráðuneytið hefur lagt áherslu á það við framleiðendur losunar- og sjósetningarbúnaðar gúmmíbjörgunarbáta og Iðntæknistofnun að prófunum verði lokið svo fljótt sem verða má svo hægt verði að viðurkenna búnaðinn af Siglingastofnun Íslands. Siglingastofnun Íslands mun í samráði við þriggja manna starfshóp samgönguráðuneytis og hagsmunaaðila hafa það verkefni að sjá til þess að losunar- og sjósetningarbúnaður verði kominn um borð í öll íslensk fiskiskip fyrir gildistöku 7. gr. reglugerðar nr. 189/1994. Um leið og gerðarprófun á búnaði hjá Iðntæknistofnun er lokið og búnaðurinn hefur fengið viðurkenningu Siglingastofnunar Íslands verður hafist handa um það verkefni. Í framhaldi af því mun samgönguráðuneytið vinna markvisst að því á árinu 1999 að losunar- og sjósetningarbúnaði gúmmíbjörgunarbáta verði komið fyrir í skipum. Ráðuneytið hefur falið Siglingastofnun að fylgjast með því við aðalskoðun skipa á þessu ári að útgerðir tryggi sér slíkan búnað, en samkvæmt upplýsingum frá Iðntæknistofnun frá 15. febrúar sl. er prófunum eins búnaðar lokið en beðið er frekari gagna frá framleiðandanum áður en Iðntæknistofnun getur gengið frá skýrslu sinni til Sigl­ingastofnunar. Iðntæknistofnun hefur fengið gögn í hendur til að hefja prófanir á öðrum búnaði og er að fara yfir þau. Hefjast prófanir á þeim búnaði að því loknu og telur Iðntækni­stofnun að þeim geti verið lokið í apríl nk. Iðntæknistofnun hafa ekki borist gögn frá öðrum framleiðendum losunar- og sjósetningarbúnaðar.
    Reglugerðarumhverfi fiskiskipa verður sífellt alþjóðlegra. Á það bæði við Alþjóðasigl­ingamálastofnunina (IMO), Evrópusambandið (ESB) og Evrópska efnahagssvæðið (EES). Sem dæmi gengu í gildi nú um áramótin reglur um öryggi fiskiskipa í löndum Evrópusam­bandsins. Þær taka gildi á Evrópska efnahagssvæðinu um mitt þetta ár eða í byrjun þess næsta. Ísland hefur haft áhrif á mótun þessara reglna og sem dæmi má nefna að til stendur að gera sjálfvirkan losunar- og sjósetningarbúnað að sérkröfu í þessum alþjóðlegu reglum. Til þess að það sé hægt þurfa tæknilegar forsendur að vera fyrir hendi, sem þýðir að til staðar þarf að vera búnaður sem stenst alþjóðlegar viðurkenningar með gerðarprófunum. Slíkar prófanir er verið að gera hjá Iðntæknistofnun á losunar- og sjósetningarbúnaði frá íslenskum framleiðendum. Óhjákvæmilegt er að við gerum sömu kröfu til þessara fram­leiðenda og erlendir aðilar gera.