Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 841  —  444. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um framkvæmdaáætlun ríkis­stjórnarinnar í jafnréttismálum.

    Landbúnaðarráðuneytið hefur nú í þjónustu sinni starfsmann, Önnu Margréti Stefáns­dóttur, sem starfar tímabundið við það verkefni að útfæra framkvæmdaáætlun ríkisstjórnar­innar um aðgerðir til að ná fram jöfnum rétti kynjanna í málefnum sem heyra undir ráðuneyt­ið. Er áætlað að því verki verði lokið um mánaðamótin apríl–maí.

     1.      Hvað líður könnun á högum kvenna í landbúnaði, svo sem varðandi eignarhald, búrekstur, réttindi og skyldur, sbr. lið 8.1 í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um að­gerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna? Hvenær er niðurstaðna að vænta úr könnun­inni?
    Fyrrgreindur starfsmaður vinnur nú, ásamt lögfræðingi ráðuneytisins, að þessum málum. Niðurstöður munu birtast í skýrslu í lok apríl.
    Athygli skal vakin á að jafnréttisráðgjafi Norðurlands vestra lét nýverið kanna stöðu kvenna í dreifbýli á því landsvæði. Ráðuneytið styrkti gerð þeirrar könnunar, enda mjög mikilvægar upplýsingar, eins konar grundvallarvitneskja um stöðu dreifbýliskvenna á Íslandi, þótt hún taki ekki til atriða eins og eignarhalds og efnahagslegra réttinda sveita­kvenna. Þær upplýsingar má nálgast eftir öðrum leiðum.

     2.      Hvað líður gerð fræðsluefnis um jafnréttismál o.fl. fyrir konur og karla í bændastétt, sbr. lið 8.2 í framkvæmdaáætluninni?
    Nú eru haldin námskeið er nefnast „Virkir bændur af báðum kynjum“. Að þeim námskeið­um stendur fræðslusambandið Símennt, sem er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Kvenfélagasambands Íslands og Bændasamtaka Íslands, m.a. með styrk úr Framleiðnisjóði. Sigurður Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri UMFÍ, og Anna Margrét hafa haldið slík námskeið víða og er þeim ekki lokið.
    Námskeiðin eru tvíþætt, annars vegar er um að ræða fræðslu um félagskerfi bænda og helstu stofnanir er þeim tengjast og hins vegar er boðið upp á vísi að félagsmálanámskeiði. Þar er markmiðið að efla mönnum kjark og þor til að standa upp á fundum og segja sína meiningu, ásamt því að skýra fyrir fólki nauðsyn þess að vera virkur í samfélaginu og innan sinnar atvinnugreinar.
    Námskeiðin eru fyrir karla og konur en umræðunni er beint að hlutverkum og þátttöku eða þátttökuleysi kynjanna í ýmsu er varðar líf og starf í sveitinni, ekki síst því sem snýr að félagsmálum. Jafnframt er á námskeiðum þessum brýnt fyrir fólki að nýta sér upplýsinga­þjónustu landbúnaðarins.
    Ráðuneytið telur að um afar mikilvægt og þýðingarmikið verkefni sé að ræða en gerir sér þó mæta vel grein fyrir því að slík fræðsla verður ekki afgreidd með einni námskeiðaherferð sem þessari.
    

     3.      Hvað líður könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og hjá þeim stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 8.5 í framkvæmdaáætluninni?
     4.      Hvað líður gerð jafnréttisáætlana hjá ráðuneytinu og þeim stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 8.5 í framkvæmdaáætluninni?

    Hvort tveggja, könnun á stöðu jafnréttismála hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess svo og gerð jafnréttisáætlana sömu stofnana, heyrir undir fyrrnefndan starfsmann og á verkefninu að ljúka fyrir apríllok.
    Í lokin má nefna að landbúnaðarráðuneytið er þátttakandi í FAO-samstarfi Sameinuðu þjóðanna innan Evrópudeildar landbúnaðarmála (ECA). Þar er starfandi vinnuhópur er nefnist Working party on women and families in rural development. Í september 1997 var 8. þing þessa vinnuhóps haldið á Akureyri að tilstuðlan ráðuneytisins. Var þar fjallað um stöðu dreifbýliskvenna og sköpun nýrra atvinnutækifæra til sveita og fjallað um nokkur reynsluverkefni af því tagi víðs vegar í Evrópu.
    Anna Margrét Stefánsdóttir er í þessum vinnuhópi fyrir hönd ráðuneytisins og situr nú í stjórn hans. Er það trú ráðuneytisins að þátttaka hennar þar nýtist í verkefnum sem nú er unnið að varðandi jafnréttismál í íslenskum landbúnaði.