Ferill 274. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 851  —  274. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um verkefni VSO-verkfræðistofu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða verkefnum hefur VSO-verkfræðistofan sinnt fyrir opinberar stofnanir frá árinu 1991 og fram á þennan dag?
     2.      Hve miklar greiðslur hefur VSO fengið fyrir verk sín í heild og hvernig skiptist sú fjárhæð eftir einstökum verkum og ráðuneytum?


    Ráðuneytið telur að þær upplýsingar sem um er beðið í fyrirspurninni séu upplýsingar sem verði til í opinberri stjórnsýslu og séu því opinberar í skilningi 54. gr. stjórnarskráinnar og 49. gr. laga um þingsköp Alþingis. Hins vegar eru ekki allar upplýsingar sem þannig verða til aðgengilegar fyrir almenning. Það á sérstaklega við um þær upplýsingar sem takmarkaður aðgangur er að, sbr. 4.–6. gr. upplýsingalaga. Í ljósi þess og með hliðsjón af 5. gr. upp­lýsingalaga, er snertir einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga og fyrirtækja, telur ráðuneytið ekki rétt að afhenda Alþingi umbeðnar upplýsingar sundurgreindar á einstaka aðila.
    Til að gefa mynd af umfangi aðkeyptrar ráðgjafarþjónustu fyrir ríkið í heild hefur ráðu­neytið aflað upplýsinga úr ríkisbókhaldi um bókfærðan kostnað við aðkeypta sérfræðiþjón­ustu á því tímabili sem um er spurt. Ekki er með öruggum hætti hægt að fá eingöngu upp­lýsingar um þjónustu keypta af verkfræðistofum þar sem kostnaðarskipting úr bókhaldi þykir ekki gefa einhlíta skiptingu þar á. Því var ákveðið að taka saman allan kostnað við aðkeypta þjónustu hjá opinberum stofnunum.
    Á árunum 1991–97 námu greiðslur eftirfarandi fjárhæðum (m.kr.):
    1991             2.211
    1992             2.290
    1993             2.243
    1994             2.255
    1995             2.803
    1996             2.947
    1997             3.265


    Á árunum 1994–97 skiptist kostnaður á ráðuneyti með eftirtöldum hætti (m.kr.):

1994 1995 1996 1997
Æðsta stjórn ríkisins 34 72 55 43
Forsætisráðuneyti 45 13 15 17
Menntamálaráðuneyti 285 324 398 442
Utanríkisráðuneyti 20 30 33 38
Landbúnaðarráðuneyti 34 65 69 77
Sjávarútvegsráðuneyti 71 40 77 96
Dómsmálaráðuneyti 212 173 228 292
Félagsmálaráðuneyti 48 75 4 84
Heilbrigðisráðuneyti 411 799 716 716
Fjármálaráðuneyti 648 694 672 750
Samgönguráðuneyti 259 306 392 432
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti 91 104 89 122
Hagstofan 33 29 28 28
Umhverfisráðuneyti 64 77 101 127
Samtals 2.255 2.801 2.947 3.264

    Eins og tölurnar bera með sér hefur aðkeypt þjónusta aukist talsvert á tímabilinu, enda hefur ríkisstjórnin stefnt að því að færa ýmsa þjónustu sem til þessa hefur verið unnin af rík­inu yfir til einkaaðila með útboðum. Hefur það skilað ríkissjóði umtalsverðum sparnaði á rekstrarkostnaði. Ráðuneytið vill enn fremur vekja athygli á að því er kunnugt um að Ríkis­endurskoðun vinnur nú að gerð sérstakrar skýrslu um verklag og aðferðir við kaup á sér­fræðiþjónustu af einkaaðilum.