Ferill 544. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 869  —  544. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Aðilar sem annast gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar fyrir viðskiptamenn sína skulu hafa til reiðu skriflegar upplýsingar, eða með rafrænum hætti, um slíka þjónustu ásamt upplýsingum um kostnað tengdan viðskiptunum og skilyrði fyrir yfirfærslu fjármuna, þau tímamörk sem áskilin eru til þess að ljúka yfirfærslum, kostnað við yfirfærslur, gengisskrán­ingu sem miðað er við svo og um þau kæruúrræði sem viðskiptamaður hefur ef hann sættir sig ekki við viðskiptin.
    Aðilar sem annast yfirfærslu á milli viðskiptareikninga á milli landa fyrir viðskiptamenn sína skulu veita þeim skriflegar upplýsingar, eða með rafrænum hætti, þar sem fram kemur staðfesting á að yfirfærsla hafi átt sér stað, fjárhæð yfirfærslunnar, kostnaður við hana og hver eigi að bera hann, svo og yfirfærslugengi, eigi slíkt við.
    Með viðskiptamönnum er bæði átt við einstaklinga eða lögaðila sem leggja fram beiðni um yfirfærslu og einstaklinga eða lögaðila sem lokamóttakendur yfirfærslunnar.

2. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi, og breytist númeraröð ann­arra greina samkvæmt því:

    a. (11. gr.)
    Nú óskar viðskiptamaður eftir því að aðili sem annast yfirfærslu á milli viðskiptareikn­inga á milli landa skuldbindi sig til að ljúka tiltekinni yfirfærslu innan ákveðinna tímamarka gegn ákveðnu gjaldi og skal aðilinn þá verða við þeirri ósk nema hann ákveði að hafna við­skiptunum. Skuldbindingin tekur ekki til yfirfærslugengisins.
    Ákvæði þessarar greinar taka eingöngu til yfirfærslna á milli viðskiptareikninga á milli aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins í evrum eða gjaldmiðlum ríkja Evrópska efnahags­svæðisins og að hámarki 4.000.000 krónur eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í gjaldmiðlum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 1. febrúar 1999.

    b. (12. gr.)
    Hafi ekki um annað verið samið á milli viðskiptamanns og aðila sem annast yfirfærslu á milli viðskiptareikninga á milli landa, skal henni lokið fyrir lok fimmta almenns viðskipta­dags (bankadags) talið frá deginum eftir að beiðni viðskiptamanns barst um færsluna. Hafi yfirfærslunni ekki verið lokið innan tilskilins frests skal aðili sem annast yfirfærsluna greiða viðskiptamanni vexti nema óviðráðanlegar utanaðkomandi ástæður hafi komið í veg fyrir að unnt væri að ljúka yfirfærslunni innan tímafrestsins. Þegar um er að ræða yfirfærslur að fjár­hæð allt að 1.000.000 krónur eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í gjaldmiðlum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins getur viðskiptamaður óskað eftir endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar að við­bættum vöxtum og kostnaði við yfirfærsluna. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 1. febrúar 1999. Skal endurgreiðslan innt af hendi eigi síðar en fjórtán almennum viðskiptadögum (bankadögum) frá því að viðskiptamaðurinn óskaði eftir henni nema greiðslan hafi innan þess tímafrests verið greidd inn á reikning stofnunar móttak­anda yfirfærslunnar.
    Yfirfærsla skal gerð án þess að kostnaður sé dreginn af yfirfærslufjárhæðinni nema við­skiptamaður sem bað um yfirfærsluna hafi tilgreint að móttakandi hennar eigi að greiða hluta af kostnaðinum eða hann allan.
    Ákvæði þessarar greinar, sbr. þó ákvæði 2. mgr., taka eingöngu til yfirfærslna á milli við­skiptareikninga á milli aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins í evrum eða gjaldmiðlum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins og að hámarki 4.000.000 krónur eða jafngildi þeirrar fjár­hæðar í gjaldmiðlum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 1. febrúar 1999.
    Nánar skal kveðið á um framkvæmd þessarar greinar í reglugerð, þar á meðal um skuld­bindingar þær sem hvíla á þeim milliliðum er eiga þátt í yfirfærslu á milli viðskiptareikninga á milli aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

    c. (13. gr.)
    Í reglugerð skal kveðið á um þau kæru- og bótaúrræði sem standa viðskiptamanni til boða komi til ágreinings milli hans og aðila sem annast yfirfærslu á milli viðskiptareikninga á milli landa í samræmi við ákvæði 11. og 12. gr.


3. gr.

    14. gr. laganna (verður 17. gr.) orðast svo:
    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Hann skal setja reglugerð um fram­kvæmd þeirra.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið til þess að laga íslenskan rétt að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/5/EB frá 27. janúar 1997 um peningayfirfærslur milli landa. Samkvæmt 11. gr. tilskipunarinnar skal þeirri aðlögun lokið eigi síðar en 14. ágúst 1999. Frumvarpið er samið í viðskiptaráðuneytinu.
    Markmið tilskipunarinnar er að bæta þjónustu þegar peningar eru yfirfærðir á milli við­skiptareikninga á milli aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins en slíkar yfirfærslur eru umtalsverður hluti af greiðslum milli landa, bæði að umfangi og verðgildi. Það er mikilvægt fyrir einstaklinga og fyrirtæki, einkum lítil og meðalstór, að geta yfirfært fé á skjótan, áreiðanlegan og ódýran hátt frá einum hluta efnahagssvæðisins til annars. Tilskipunin, svo og frumvarp þetta, hefur ekki áhrif á tilskipun ráðsins 91/308/EBE frá 10. júní 1991 um ráð­stafanir gegn því að peningakerfið sé notað til peningaþvættis.
    Til þess að laga íslenskan rétt að tilskipuninni mun ráðherra setja nánari ákvæði í reglugerð, umfram það sem fram kemur í frumvarpinu, þar sem heimfærðar eru í íslenskan rétt þær skyldur sem í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eru lagðar á þær stofnanir, sem yfir­færa fyrir viðskiptamenn sína peninga á milli reikninga á milli aðildarríkjanna. Þessar skyldur eru m.a.:
          að veita viðskiptavinum sínum upplýsingar um þjónustuna, þar á meðal upplýsingar um skilyrði fyrir og kostnað vegna yfirfærslna milli landa og upplýsingar um að yfirfærsl­unni sé lokið,
          að fara að fyrirmælum viðskiptamanns við yfirfærsluna,
          að annast yfirfærsluna innan umsamins frests,
          að yfirfæra greiðsluna innan fimm daga hafi ekki verið samið um annan frest,
          að bæta það tjón sem viðskiptavinurinn verður fyrir við það að greiðslan er ekki yfirfærð innan tilskilins tíma,
          að endurgreiða sendanda ef yfirfærsla fer ekki fram,
          að milliliðum sem eiga þátt í yfirfærslu sé ljóst að sama kvöð hvílir á þeim og öðrum viðskiptastofnunum sem annast viðskiptin.
    Allar peningamillifærslur að fjárhæð 50.000 EUR, eða jafngildi þeirrar upphæðar í inn­lendri eða erlendri mynt, eru háðar ákvæðum tilskipunarinnar. Í samræmi við íslenska laga­venju hefur verið farin sú leið í frumvarpinu að umreikna skuldbindingarnar í íslenskar krónur og binda gengi EUR. Í reglugerð er gert ráð fyrir, auk þess sem þegar hefur komið fram, ákvæðum um bætur ef yfirfærsla hefur ekki verið gerð í samræmi við beiðni eða sam­kvæmt hinum almennu reglum sem settar kunna verða. Einnig verður að kveða á um undan­þágur frá skuldbindingum samkvæmt tilskipuninni, svo og um lausn deilumála sem upp geta komið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Þrátt fyrir að tilskipunin taki aðeins til millifærslna á milli reikninga á milli aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hefur sú leið verið farin að láta kvöð um upplýs­ingagjöf þjónustuveitanda ná til allra tilvika þar sem viðskiptamaður fer fram millifærslu á reikning erlendis, án tillits til heimaríkis viðtakanda eða myntar.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um þær lágmarksskuldbindingar sem lagðar eru á þá aðila sem ann­ast millifærslur á milli reikninga á milli aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahags­svæðisins fyrir viðskiptamenn sína. Samsvara greinar þessar 5.–10. gr. tilskipunarinnar.
    Gert er ráð fyrir því að sú stofnun sem annast yfirfærslu fyrir viðskiptamann skuli stað­festa fyrir fram tímamörk, kostnað og annað það sem viðskiptamaður óskar eftir og tengist viðskiptunum. Sé stofnun það ekki kleift getur hún neitað að eiga viðskiptin.
    Rétt þykir að taka sérstaklega fram að þær skuldbindingar sem hvíla á yfirfærslustofnun samkvæmt tilskipuninni séu háðar því að utanaðkomandi óviðráðanlegir atburðir (force majeure) komi ekki í veg fyrir fullar efndir af hálfu stofnunar.
    Nánar verði útfært í reglugerð hvernig standa skuli að endurgreiðslu, útreikningi vaxta og þátttöku milliliða í viðskiptunum.
    Til þess að tryggja skjóta úrlausn deilumála sem upp geta komið á milli viðskiptamanns og þess aðila sem hefur annast millifærslu peninga á milli reikninga á milli aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. ákvæði 10. gr. tilskipunarinnar, er gert ráð fyrir að sett sé á laggirnar sérstök kærunefnd eða viðskiptamönnum tryggður sá kæruréttur með öðrum úrræðum. Í dag eru starfandi tvær úrskurðarnefndir á fjármagnsmarkaði. Standa Neytendasamtökin, viðskiptaráðuneytið og hagsmunasamtök fyrirtækja á fjármagnsmarkaði að nefndum þessum. Verði um það samkomulag á milli þeirra er standa að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki má fela þeirri nefnd að vera vettvangur sá sem kveðið er á um í greininni.

Um 3. og 4. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

                             

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á
lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992.

    Frumvarp þetta er samið til þess að laga íslenskan rétt að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/5/EB frá 27. janúar 1997 um peningayfirfærslur milli landa og er gert ráð fyrir að nánari ákvæði verði sett í reglugerð. Þar verður m.a. kveðið á um þau kæru- og bótaúr­ræði sem standa viðskiptamanni til boða komi til ágreinings milli hans og aðila sem annast fyrir hann yfirfærslu peninga á viðskiptareikninga erlendis. Í tilskipun Evrópuþingsins er gert ráð fyrir að sett sé á laggirnar sérstök kærunefnd eða önnur þau úrræði sem tryggja að við­skiptamenn geti leitað bóta ef ekki er staðið við tilteknar skuldbindingar. Tvær úrskurðar­nefndir starfa á fjármagnsmarkaði á vegum Neytendasamtakanna, hagsmunasamtaka fyrir­tækja á fjármagnsmarkaði og viðskiptaráðuneytis. Í greinargerð frumvarpsins er gert ráð fyrir að leitað verði eftir samkomulagi við þá sem að framangreindum nefndum standa um að þær taki að sér þetta verkefni. Ekki er gert ráð fyrir útgjöldum úr ríkissjóði vegna þessara verkefna umfram það sem rúmast innan núverandi fjárhagsramma iðnaðar- og viðskipta­ráðuneytis.