Ferill 441. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 873  —  441. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um framkvæmdaáætlun ríkisstjórn­arinnar í jafnréttismálum.

     1.      Er úttekt Hagstofu Íslands hafin á því hverjir eiga fasteignir hér á landi og hverjir eru skráðir eigendur þeirra, sbr. lið 5.2 í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um að­gerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna? Ef svo er, hvenær er niðurstaðna að vænta?
    Alllangt er um liðið frá því að fram komu óskir um úttekt á því hverjir eiga eða eru skráð­ir fyrir fasteignum hér á landi. Frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir að þetta væri unnið á grundvelli fasteignaskrár Fasteignamats ríkisins og yrði samstarfsverkefni þess og Hagstofu Íslands. Skráning eigenda í fasteignaskrá hefur hins vegar verið með ýmsu móti í tímans rás. Lengi vel tíðkaðist að eignir hjóna væru skráðar á karlmanninn eingöngu. Talsverð breyting hefur orðið á þessu á allra síðustu árum hvað snertir íbúðarhúsnæði þannig að æ algengara er að hjón séu bæði skráð eigendur þess. Um aðrar eignir gegnir öðru máli að því talið er, t.d. mun enn langalgengast að karlmenn séu einir skráðir fyrir sumarbústöðum. Um allt þetta ríkir þó enn óvissa og því óvíst hversu marktækar niðurstöður gætu fengist með talningu eig­enda eftir kyni. Auk þessa hefur eigendaskráningu verið áfátt að öðru leyti. Undanfarin ár hefur hins vegar verið unnið að því að lagfæra hana. Úttektin sem stefnt hefur verið að kann því að fara að verða tímabær. Hagstofan og Fasteignamat ríksins stefna nú að því að gera síðari hluta þessa árs tilraunaúttekt á eigendaskráningu íbúðarhúsnæðis sem næði til síðustu fimm til tíu ára. Þess er hins vegar ekki að vænta að raunverulegur grundvöllur verði fyrir slíka athugun fyrr en vinna við landskrá fasteigna er komin það langt áleiðis að þinglýstar fasteignir verði orðnar tölvuskráðar og þinglýsingaskrár orðnar hluti af landskránni.

     2.      Hvað líður endurskipulagningu Hagstofu Íslands á gagnasöfnun og greiningu vinnutíma hér á landi, sbr. lið 5.3 í framkvæmdaáætluninni?
    Hagstofa Íslands hefur gert vinnumarkaðskannanir tvisvar á ári allt frá árinu 1991. Með könnunum þessum hefur verið safnað mjög viðamiklum gögnum um atvinnu, atvinnuþátttöku, atvinnuleysi, störf og vinnutíma eftir kyni, búsetu, menntun o.fl. Þessar kannanir eru mjög stórar í sniðum og raunar með allra stærstu úrtaksathugunum sem gerðar eru hér á landi. Úr­takið er 4.400 manns, svarhlutfall hefur verið mjög hátt, um 90%, og notagildi þeirra mjög mikið, ekki síst þar sem niðurstöður eru að fullu sambærilegar við hliðstæðar kannanir í EES-ríkjum.
    Hagstofan vinnur nú að tveimur verkefnum til að auka og bæta upplýsingar um vinnu­markaðinn hér á landi, ekki síst um vinnutíma og launabreytingar. Annars vegar er um að ræða úrvinnslu á gögnum um staðgreiðsluskil en hins vegar eru breytingar á launakönnunum.
    Í ársbyrjun 1998 hófu skattyfirvöld, að beiðni Hagstofu Íslands, að krefja fyrirtæki um meiri upplýsingar við staðgreiðsluskil en áður var, svo og um tölvuskráningu upplýsinga á skilagrein. Nú er m.a. óskað eftir upplýsingum um atvinnugrein hvers launamanns, starfa­flokk og starfshlutfall auk upplýsinga um greidd laun á tímabilinu. Hagstofan vinnur nú að skipulagningu og undirbúningi yfirferðar og úrvinnslu þessara gagna og er áformað að fyrstu niðurstöður verði birtar á þessu ári. Þessi gögn munu veita mun meiri vitneskju en áður hefur þekkst um ársverk, laun og vinnumagn eftir atvinnugreinum.
    Nokkur undanfarin missiri hefur verið unnið að umfangsmiklu samstarfsverkefni kjara­rannsóknarnefndar aðila vinnumarkaðarins, kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna og Hagstofunnar um gagngerar breytingar á launakönnunum og launaskýrslum. Á almenna vinnumarkaðinum byggist þetta verkefni á því að fyrirtæki sem lenda í úrtaki launakönnunar fallist á að beita samræmdum skilgreiningum og láta rafrænt í té upplýsingar úr launabók­haldi, aðallega um laun, vinnutíma og launatengd gjöld. Ríki og sveitarfélög munu láta í té sambærilegar upplýsingar og á svipaðan hátt úr launabókhaldi sínu. Þetta verkefni er það vel á veg komið að reiknað er með að unnt verði að gera grein fyrir því til hlítar og birta fyrstu niðurstöður á næstu mánuðum.

     3.      Hvað líður könnun á stöðu jafnréttismála hjá Hagstofu Íslands og gerð áætlana um hvernig rétta skuli hlut kynjanna hjá henni, sbr. lið 5.5 í framkvæmdaáætluninni?
    Staða jafnréttismála hjá Hagstofu Íslands er sífellt til skoðunar. Árum saman hafa konur verið í talsverðum meiri hluta á Hagstofunni. Er svo enn þegar á heildina er litið en hins veg­ar hefur dregið mjög úr þessum mismun í störfum þar sem háskólamenntunar er krafist. Reynsla undanfarinna ára er sú að vel gangi að ráða bæði karla og konur í störf sérfræðinga. Öðru máli gegnir um störf þar sem ekki er krafist háskólamenntunar. Karlar eru í miklum minni hluta í slíkum störfum á Hagstofunni og sækja yfirleitt ekki um þau. Sem dæmi má nefna að af 94 umsækjendum um störf ritara í Þjóðskrá í janúar 1999 voru einungis fjórir karlar. Hagstofan kann engin sérstök ráð til að breyta þessu.