Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 924  —  564. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    Við lögin bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða:
    Meðan á tímabundnum samningi skv. 13. gr. stendur teljast hlutaðeigandi starfsmenn svæðisskrifstofu, sem eru í starfi þegar samningurinn tekur gildi, vera í þjónustu viðkomandi sveitarfélags, byggðasamlags eða héraðsnefndar. Í slíkum samningi er félagsmálaráðherra heimilt að framselja viðkomandi sveitarfélagi, byggðasamlagi eða héraðsnefnd allar þær valdheimildir sem framkvæmdastjórar svæðisskrifstofa fara með samkvæmt lögum um rétt­indi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo fremi að starfsmönnum sé tilkynnt hver fari með það vald. Engin formbreyting verður á ráðningarstöðu starfsmanna, þeir eru áfram ríkis­starfsmenn og um laun þeirra og önnur starfskjör fer eftir sömu kjarasamningum og fyrr.
    Nýir starfsmenn, sem ráðnir verða til verkefna er samningur aðila tekur til, skulu ráðnir sem starfsmenn viðkomandi sveitarfélags, byggðasamlags eða héraðsnefndar.
    Félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og sveitarfélag, byggðasamlag eða héraðsnefnd hins vegar skulu semja um ábyrgðir sínar og greiðslur varðandi réttindi og kjör starfsmanna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með breytingu á lögum um málefni fatlaðra sem hér er lögð til er stefnt að því að auð­velda yfirtöku sveitarfélaga á þjónustu við fatlaða á grundvelli 13. gr. laganna. Á undanförn­um árum hafa nokkur sveitarfélög sýnt því áhuga að yfirtaka þjónustu við fatlaða á grund­velli þeirrar greinar. Þar sem skort hefur lagaákvæði um réttarstöðu starfsmanna svæðis­skrifstofa málefna fatlaðra við yfirtöku sveitarfélaga á þjónustunni hefur reynst örðugt að ganga til slíkra samninga. Tveir tímabundnir þjónustusamningar hafa eigi að síður verið gerðir á grundvelli greinarinnar, annars vegar við Húsavíkurkaupstað og hins vegar Sveitar­félagið Hornafjörð. Í þeim samningum tókst ekki að leysa starfsmannamálin á þann hátt sem hér er stefnt að þar sem lagaákvæði skorti.
    Frá miðju ári 1998 hefur félagsmálaráðuneytið átt í viðræðum við samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um samning sem byggist á 13. gr. laga um málefni fatlaðra. Sú breyting sem hér er lögð til á lögunum er ein af forsendum þess að samningurinn nái fram að ganga.
    Drög að frumvarpinu voru kynnt stjórn Starfsmannafélags ríkisstofnana enda varðar frum­varpið fyrst og fremst félaga í því stéttarfélagi.
    Ákvæði 1. gr. er sambærilegt ákvæði 17. gr. laga nr. 82/1994, um reynslusveitarfélög, hvað varðar stöðu starfsmanna ríkisins þegar verkefni voru flutt til sveitarfélaga í tilrauna­skyni.
    Í greininni er gert ráð fyrir því að þeir starfsmenn svæðisskrifstofu, sem sinna verkefnum er tímabundinn þjónustusamningur skv. 13. gr. laganna tekur til, haldi störfum sínum meðan á samningi stendur undir verkstjórn viðkomandi sveitarfélags, byggðasamlags eða héraðs­nefndar. Þá er veitt heimild til að framselja sveitarfélagi, byggðasamlagi eða héraðsnefnd meðan á samningstíma stendur allar þær valdheimildir sem framkvæmdastjórar svæðisskrif­stofa fara með samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hér er m.a. átt við heimildir til að breyta störfum og verksviði starfsmanna, til að áminna starfsmenn verði þeir uppvísir að ámælisverðri háttsemi og til að segja þeim upp störfum. Í þessu sambandi er einkum höfð hliðsjón af 50. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar er forstöðumönnum veitt heimild til að framselja vald, sem fyrr­nefnd lög veita þeim, til annarra stjórnenda í stofnun, enda sé það gert skriflega og starfs­mönnum tilkynnt um það. Þrátt fyrir að stjórnunarheimildir gagnvart starfsmönnum kunni þannig að vera framseldar tímabundið til sveitarfélags, byggðasamlags eða héraðsnefndar er engu síður miðað við að ráðningarsamband ríkisins við starfsmennina sé í sjálfu sér óbreytt og þeir starfi því áfram sem ríkisstarfsmenn. Starfsmennirnir munu taka laun sam­kvæmt sömu kjarasamningum og fyrr og réttur þeirra til aðildar að lífeyrissjóðum verður óbreyttur.
    Skv. 2. mgr. 1. gr. er gert ráð fyrir að nýir starfsmenn, sem ráðnir verða á samningstíman­um í störf starfsmanna er látið hafa af störfum, verði ráðnir af sveitarfélagi, byggðasamlagi eða héraðsnefnd. Sama gildir um ráðningar í ný störf sem verða til á samningstímanum. Af framangreindu leiðir að sveitarfélag, byggðasamlag eða héraðsnefnd fer jafnframt með allar aðrar stjórnunarheimildir vinnuveitanda gagnvart þeim. Nýir starfsmenn munu ekki heyra undir lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Í niðurlagi 1. gr. er lagt til að félagsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið semji við sveit­arfélag, byggðasamlag eða héraðsnefnd um ábyrgðir og greiðslur vegna réttinda og kjara starfsmanna. Hér er einkum átt við ábyrgð á greiðslu biðlauna ef staða er lögð niður, ábyrgð­ir vegna tjóns sem starfsmaður veldur í starfi sínu, fyrirkomulagi launagreiðslna o.s.frv.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992,
um málefni fatlaðra, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að starfsmenn svæðisskrifstofu málefna fatlaðra, er sinna þeim störfum sem tímabundnir þjónustusamningar skv. 13. gr. laganna taka til, haldi störfum sínum og stöðu sem ríkisstarfsmenn en að samningsaðili fari með verkstjórnarvald gagnvart þeim. Ákvæðið er að þessu leyti sambærilegt heimild í 17. gr. laga nr. 82/1994, um reynslusveitarfélög.
    Þá er félagsmálaráðherra veitt sérstök heimild til að framselja í slíkum samningi allar þær valdheimildir til samningsaðila sem framkvæmdastjórar svæðisskrifstofu fara með sam­kvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, þ.e. gagnvart hlutað­eigandi starfsmönnum. Ekki verður séð að frumvarpið sjálft leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð en það veitir hins vegar félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra heimild til samn­inga við sveitarfélög og byggðasamlög sem taki m.a. til réttinda og kjara starfsmanna og hver fullnusti lífeyrisskuldbindingar ríkisstarfsmanna sem fylgja verkefninu. Um samninga um rekstrarverkefni sem gerðir eru til lengri tíma en eins árs gilda einnig ákvæði 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.