Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 936  —  9. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um viðræður við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslend­inga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Um áratuga skeið hefur ágreiningur ríkt hér á landi um öryggis- og varnarmál, sem klofið hefur þjóðina í andstæðar fylkingar. Eftir lok kalda stríðsins og með gjörbreyttum aðstæðum í heiminum er þörf á að fjallað sé um þessi mál á nýjan hátt miðað við breyttar forsendur.
    Eftir fall Berlínarmúrsins árið 1989 og endalok kalda stríðsins hafa umræðurnar um öryggis- og varnarmálin tekið á sig aðra mynd. Hlutverk NATO hefur gerbreyst og er enn að breytast. Verulegar breytingar hafa orðið á viðbúnaði stöðvarinnar í Keflavík. Hermönn­um hefur fækkað um rúmlega þriðjung, kafbátaleitarflugvélum um meira en helming, ratsjár­flugvélar hafa horfið á braut og herþotum fækkað úr átján í fjórar. Þátttaka Íslendinga í vörnum landsins hefur stóraukist. Daglegur rekstur og viðhald ratsjárloftvarnakerfisins er komið í hendur landsmanna sjálfra.
    Þessi þróun mun halda áfram. Í fylgiskjali með ræðu utanríkisráðherra um utanríkismál á Alþingi sem fram fór 25. febrúar sl. er m.a. vakin athygli á því að þíðan í alþjóðamálum hefur dregið úr mikilvægi beinna hervarna undanfarin ár og hugtakið öryggi fengið dýpri og margþættari merkingu. Verndun öryggis ríkja er nú í auknum mæli samþætt utanríkismálum. Samstarf um frið og stöðugleika er nauðsynlegt til þess að komast fyrir rætur ófriðar. Efna­hagsmál og viðskipti, stjórnmál, mannréttindi, tæknisamstarf og afvopnun eru nú stór þáttur öryggismála. Þess vegna hefur virk þátttaka ríkja í störfum fjölþjóðlegra og alþjóðlegra stofnana fengið meira vægi en áður. „Síðast en ekki síst gefur dvínandi hernaðarógn við landið Íslendingum færi á að takast á hendur stærra hlutverk í vörnum landsins en áður“, segir orðrétt í fylgiskjalinu.
    Við undirritaðir nefndarmenn teljum nauðsynlegt að fram fari ítarleg og hreinskiptin um­ræða um stöðu Íslands hvað varðar öryggis- og friðarmál. Við teljum ekki rétt að breytingar verði gerðar á aðild Íslands að NATO á næsta kjörtímabili en viljum stuðla að þeirri þróun, að bandalagið eigi sem mesta samleið með stofnunum eins og Sameinuðu þjóðunum og ÖSE.
    Þau viðhorf sem hér er lýst eru í samræmi við þann farveg sem umræða og aðgerðir hafa verið í. Nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar er hins vegar af allt öðrum toga. Þar eru kaldastríðsviðhorfin enn þá efst á baugi og umræðan fer fram eins og engar breytingar hafi orðið í heiminum frá sjötta og sjöunda áratugnum.
    Um dvöl varnarliðsins og framtíð herstöðvarinnar er ágreiningur sem teygir sig inn í alla stjórnmálaflokka og á það einnig við um þá aðila sem að Samfylkingunni standa. Áður en viðræður verða teknar upp við Bandaríkjastjórn árið 2000 um framkvæmd varnarsamnings­ins, en bókun þar að lútandi fellur úr gildi árið 2001, er brýnt að fram fari ítarleg úttekt á öryggismálum landsins og framtíð alþjóðaflugvallarins í Keflavík. Samfylkingin telur að slíkt eigi að gera í samvinnu ríkisstjórnar og Alþingis og mun beita sér fyrir því að svo verði. Þá fyrst þegar úttekt þessi hefur farið fram er tímabært að marka framtíðarstefnu um tilhögun öryggismála hér á landi eins og segir í skýrslu utanríkisráðherra um öryggis- og varnarmál Íslands um næstu aldamót. Í skýrslunni kemur fram ný sýn sem kallar á að samstarfið verði metið í nýju ljósi.
    Hér hefur verið lýst nauðsyn þess að marka stefnu um framtíðarskipan öryggis- og varnar­mála í samræmi við gerbreyttar aðstæður í heiminum. Tillaga sú um brottför hersins sem hér liggur fyrir er ekki í samræmi við þau sjónarmið og munu undirritaðir nefndarmenn því ekki styðja hana.

Alþingi, 28. febr. 1999.



Össur Skarphéðinsson,


frsm.


Margrét Frímannsdóttir.


Sighvatur Björgvinsson.