Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1013  —  524. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um eftirlit með vændi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig er fylgst með umfangi og eðli vændis hér á landi?
     2.      Hefur verið gerð könnun á vændi hérlendis á undanförnum árum?
     3.      Hversu margar ábendingar eða kærur vegna vændis hafa borist yfirvöldum undanfarin fimm ár?
     4.      Er ástæða til að ætla að hafin sé „útgerð“ á erlendum stúlkum hér á landi, einkum frá Austur-Evrópu?
     5.      Eru fyrirhugaðar lagabreytingar eða sérstakar aðgerðir til að sporna við vændi, sbr. nýlega löggjöf í Svíþjóð sem m.a. bannar kaup á blíðu kvenna og karla?


    Þann 18. febrúar sl. óskaði dómsmálaráðuneytið eftir upplýsingum frá öllum lögreglu­stjórum og ríkissaksóknara um þau atriði sem framangreind fyrirspurn lýtur að. Óskað var eftir yfirliti viðkomandi embættis um fjölda þeirra kæra sem borist hafa embættinu vegna brota á 206. og 208. gr. almennra hegningarlaga undanfarin fimm ár, svo og fjölda ákæra sem gefnar hafa verið út í kjölfarið. Einnig var óskað eftir upplýsingum um hvort haft væri sérstakt eftirlit með þessum brotaflokki eða annarri brotastarfsemi sem rekin er í tengslum við vændi og hvort slík mál tengdust sérstaklega stúlkum frá Austur-Evrópu.
    Svör bárust frá öllum embættunum. Er skemmst frá því að segja að svör lögreglustjóra utan Reykjavíkur eru í meginatriðum samhljóða. Verður vikið sérstaklega að svari lögreglu­stjórans í Reykjavík hér á eftir.
    Lögreglustjórar utan Reykjavíkur hafa ekki talið þörf á sérstöku eftirliti með vændi í um­dæmum sínum, en fylgst er með slíkum brotum með sama hætti og öðrum brotum. Þessum embættum hafa ekki borist neinar ábendingar eða kærur vegna vændis á umræddu tímabili og viðkomandi lögreglustjórar telja sig ekki hafa ástæðu til að ætla að þar sé hafin „útgerð“ á erlendum vændiskonum.
    Í svari lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að frá árinu 1994 hafi 17 mál vegna ætl­aðra brota á 206. gr. almennra hegningarlaga verið tilkynnt til lögreglu.
    Lögreglustjóraembættið í Reykjavík hefur fylgst skipulega með þeim svokölluðu nektar­dansstöðum sem starfræktir eru í Reykjavík, þ.m.t. hvort skipulagt vændi fari þar fram. Hef­ur ekkert komið fram sem staðfestir orðróm um slíka starfsemi.
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um neinar kannanir sem gerðar hafa verið á vændi hérlendis á undanförnum árum.
    Á vegum ráðuneytisins er starfandi refsiréttarnefnd sem m.a. hefur það hlutverk að endur­skoða almenn hegningarlög, nr. 19/1940. Lagabreytingar til að sporna við vændi eru meðal þeirra mála sem nefndin hefur til athugunar, en engar ákvarðanir hafa verið teknar í þessum efnum.