Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1063  —  531. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Katrínar Fjeldsted um verkaskiptingu og grunnþjónustu í heilsugæslunni.

     1.      Hefur ráðherra kynnt sér nýliðun í heimilislækningum á undanförnum árum? Eru áætlanir í ráðuneytinu um að bregðast við þeirri þróun?
    Ráðuneytið hefur kynnt sér kannanir sem gerðar hafa verið á nýliðun í heimilislækningum á undanförnum árum, bæði hérlendis og erlendis. Vandi sá sem lítil nýliðun skapar hefur ver­ið ljós, enda vel kynntur af forsvarsmönnum heimilislækna. Ráðuneytið hefur haft samráð við Félag íslenskra heimilislækna um viðbrögð í málinu og er unnið að því að kanna orsakir vandans, sem reyndar snýr einnig að öðrum sérgreinum læknisfræðinnar. Ráðuneytið hefur beitt sér fyrir stofnun námsstaðna í heimilislækningum og einnig er unnið að því að styrkja hlut heilsugæslu í grunnnámi í læknisfræði og á starfsþjálfunartíma að embættisprófi loknu. Vandinn snýr einnig að öðrum þáttum, svo sem starfsumhverfi og launakjörum, og hefur margt verið gert af hálfu heilbrigðisyfirvalda til að efla og bæta þá þætti.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir skýrari verkaskiptingu í heilbrigðisþjónustu?
    Það er stefna ráðuneytisins að heilsugæsla sé grunnþjónustan í heilbrigðisþjónustu og að þangað leiti sjúklingar fyrst hafi þeir þörf fyrir aðstoð hennar. Sátt er um það meginsjónar­mið að eðlilegast sé að sjúklingar leiti fyrst til heilsugæslu þarfnist þeir þjónustu heilbrigðis­kerfisins. Viðleitni í þessa átt mótast af því meginmarkmiði laga um heilbrigðisþjónustu að veita sjúklingum bestu þjónustu sem völ er á, hlutverki ráðuneytisins að gæta ýtrustu hag­kvæmni í meðferð á sameiginlegum sjóðum landsmanna og því sjónarmiði að sjúklingar hafi nokkurt frelsi til að velja innan heilbrigðiskerfisins. Heilsugæslan er flestum landsmönnum nærtækust og nálægust, aðgengi hennar gott og vaktþjónusta allan sólarhringinn. Þá eru henni falin veigamikil verkefni við forvarnir. Þessi sérstaða ásamt lægri sjúklingagjöldum í heilsugæslu leiðir til ákveðinnar verkaskiptingar milli hennar og annarra þátta heilbrigðis­þjónustunnar. Ráðuneytið telur að skipting einstakra verka, rannsókna og meðferða eigi fyrst og fremst að ráðast af faglegu samkomulagi milli sérgreinahópa lækna.

     3.      Hvernig telur ráðherra að best megi tryggja góða grunnþjónustu í heilsugæslunni?
    Besta trygging fyrir góðri grunnþjónustu í heilsugæslunni er vel uppbyggð aðstaða um land allt, mönnuð af vel menntuðu starfsfólki sem búnar eru góðar aðstæður til að sinna störfum sínum innan heildarramma heilbrigðisþjónustunnar. Samhæfing krafta þessarar heildarþjónustu bæði innan sjúkrahúsa og utan þeirra er afar mikilvæg og jöfn virðing fyrir öllum þáttum hennar afgerandi. Menntun, nýliðun, starfsumhverfi og aðstæður allar þarf sí­fellt að endurmeta og aðlaga aðstæðum á hverjum stað og tíma.