Ferill 503. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1064  —  503. mál.
Svarheilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um rekstrar­leyfi gagnagrunns á heilbrigðissviði.

     1.      Hvenær verður auglýst eftir umsækjendum um rekstrarleyfi gagnagrunns á heilbrigðissviði?
    
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær verður auglýst eftir umsækjendum um rekstrarleyfi gagnagrunns á heilbrigðissviði. Fjallað hefur verið um málið í heilbrigðis- og trygg­ingamálaráðuneytinu og undirbúningur að framkvæmd er að hefjast.

     2.      Samrýmist veiting rekstrarleyfis til eins tiltekins aðila samkeppnislögum og EES-rétti?
    
Við smíði frumvarps til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði var ítarlega fjallað um samkeppnislöggjöf og reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Niðurstaða heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins var sú að veiting rekstrarleyfis til eins tiltekins aðila væri í samræmi við ákvæði samkeppnislöggjafar og tilskipana sem Íslendingar hafa skuldbundið sig til að hlíta á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

     3.      Verður gerð og rekstur gagnagrunnsins boðinn út á Evrópska efnahagssvæðinu?
    Ekki er áformað að bjóða út gerð og rekstur gagnagrunnsins á Evrópska efnahagssvæðinu.

     4.      Er þörf á rekstrarleyfi til eins tiltekins aðila í ljósi tilskipunar ESB nr. 96/9/EC frá 11. mars 1996 um lögverndun gagnagrunna?

    Gert er ráð fyrir að rekstrarleyfishafi kosti skráningu upplýsinga á heilbrigðisstofnunum og upplýsingakerfi heilbrigðisstofnana. Samkvæmt mati sem heilbrigðisráðuneytið lét gera er kostnaðurinn á bilinu 9–18 milljarðar kr. eftir því hve langt er gengið í skráningu eldri gagna. Ljóst er að enginn mundi leggja fram slíkt fjármagn ef annar aðili gæti síðan notfært sér þessa vinnu til að koma upp öðrum heildargagnagrunni í samkeppni við hann. Ákvæði tilskipunar um lögverndun gagnagrunna koma ekki í veg fyrir slíkt. Auk þess er talið að auð­veldara verði að fylgjast með gerð og starfrækslu eins gagnagrunns en fleiri. Því er talið æskilegt að rekstrarleyfi gagnagrunns á heilbrigðissviði verði veitt einum aðila.