Ferill 501. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1066  —  501. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um rekstrar­öryggi gagnagrunns á heilbrigðissviði.

     1.      Hvaða skilyrði ætlar ráðherra að setja um varðveislu afrits af gagnagrunninum og tryggingar í því sambandi, sbr. 10. tölul. 5. gr. laga um gagnagrunn á heilbrigðis­sviði?
    Í ráðuneytinu er nú hafinn undirbúningur að veitingu rekstrarleyfis til gerðar og starf­rækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði og er verið að útfæra nánar þau skilyrði sem sett eru í 5. gr. laganna. Í 10. tölul. 5. gr. segir svo: „Rekstarleyfishafi afhendi nefnd skv. 6. gr. afrit af gagnagrunninum og skal afritið uppfært reglulega samkvæmt nánari ákvörðun í rekstrar­leyfi. Afritið skal geymt í bankahólfi eða á annan tryggilegan hátt samkvæmt nánari ákvörð­un í rekstrarleyfi.“ Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um hvernig framangreint ákvæði verð­ur framkvæmt, en það verður gert á næstu vikum og mánuðum.

     2.      Hverjir hafa verið skipaðir í nefnd um gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði?
    Eftirtaldir hafa verið skipaðir í nefnd um gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðis­sviði skv. 6. gr. laganna: Davíð Þór Björgvinsson, prófessor í almennri lögfræði við laga­deild Háskóla Íslands, formaður, Jóhann Ágúst Sigurðsson, prófessor í heimilislækningum við læknadeild Háskóla Íslands, og Ebba Þóra Hvannberg, lektor í tölvunarfræði við Há­skóla Íslands.
    Varamenn eru Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður, varaformaður, Torfi Magnússon, for­stöðulæknir á endurhæfingar- og taugasviði Sjúkrahúss Reykjavíkur, og Anna Soffía Hauks­dóttir, prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands.

     3.      Hvernig verður háttað eftirliti með því að gagnagrunnur á heilbrigðissviði verði ekki fluttur úr landi og að úrvinnsla úr honum fari einungis fram hér á landi?
    Tölvunefnd er falið eftirlit með gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði að því er varðar skráningu og meðferð persónuupplýsinga og öryggi gagna í grunninum og fylgist hún með að skilmálum sem hún setur sé fylgt. Jafnframt skal nefnd um gerð og starfrækslu gagnagrunnsins sjá um að við starfrækslu grunnsins sé í hvívetna fylgt ákvæðum laganna og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra og skilyrðum sem sett eru í rekstrarleyfi. Því koma bæði tölvunefnd og nefnd um gerð og starfrækslu gagnagrunnsins að þessu eftirliti.