Ferill 533. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1071  —  533. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Katrínar Fjeldsted um heilbrigðisþjónustu í dreifbýli.

     1.      Telur ráðherra að til greina komi að afnema núverandi fyrirkomulag H1-stöðva í heilsugæslunni þannig að þær verði hvergi mannaðar með færri en tveimur læknum?
    Ráðuneytið hefur að undanförnu markvisst unnið að stækkun og eflingu heilsugæslu­svæða. Heilsugæslustöðvar á Vestfjörðum, Austfjörðum og Suðurlandi hafa verið sameinaðar í stærri stofnanir. Áfram er unnið að stækkun heilsugæslusvæða víðar um landið. Við þessa breytingu verða til stærri og öflugri stofnanir og H1-stöðvar leggjast niður sem slíkar. Þessi breyting gefur aukna möguleika á vaktasamstarfi og þar með minna álagi á hvern lækni. Ráðuneytið hyggst vinna áfram á þessari braut og á þennan hátt verður stefnt að fækkun H1-stöðva.

     2.      Telur ráðherra að til frekari aðgerða þurfi að grípa í heilsugæslu í dreifbýli til þess að tryggja að menntaðir heimilislæknar fáist þar til starfa og að þeir haldist í starfi?
    Ráðuneytið hefur í samvinnu við Félag íslenskra heimilislækna, landlækni, læknadeild Há­skóla Íslands og fleiri aðila leitað leiða til að tryggja mönnun í dreifbýli. Einnig hefur það fylgst vel með þessum vanda meðal annarra þjóða, bæði nær og fjær. Ráðuneytið hefur fylgst vel með þeim úrræðum sem aðrar þjóðir hafa beitt til að reyna að tryggja þessa mönnun. Ráðuneytið vinnur að eflingu grunnnáms og starfsþjálfunar í heilsugæslu. Það hefur komið á sérnámsstöðum í heilsugæslulækningum, hefur beitt sér fyrir samstarfi Læknavaktarinnar í Reykjavík og einmenningshéraða til að létta á næturþjónustu vaktalækna og unnið að stækkun heilsugæslusvæða og fjölgun lækna. Vandinn er hins vegar margþættur og flókinn og tengist öðrum vanda dreifbýlis á Íslandi.

     3.      Vill ráðherra stuðla að því að komið verði á fót kennslu á háskólastigi í dreifbýlislækningum, til dæmis á Akureyri?
    Ráðuneytið hefur ásamt landlækni nýlega átt viðræður við forsvarsmenn Háskólans á Akureyri og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri um að koma á fót kennslu í dreifbýlislækn­ingum. Rætt var um slíka kennslu í grunnnámi, á kandídatsári, í sérnámi og í viðhaldsmennt­un. Mikill áhugi er á málinu hjá þessum aðilum. Fyrirhugað er að halda viðræðum þessum áfram innan skamms með þátttöku læknadeildar og yfirvalda menntamála.

     4.      Hvernig skiptist kostnaður við heilbrigðisþjónustu í dreifbýli milli:
                  a.      heilsugæslu,
                  b.      sérfræðiþjónustu utan sjúkrahúsa og
                  c.      sjúkrahúsþjónustu?


Viðmiðunartími.
    Ekki reyndist unnt að fá niðurstöður um rekstur ársins 1998. Hér verður miðað við tölur frá 1997 eða fyrr.

Skipting í þéttbýli og dreifbýli.
    Skipting Hagstofunnar í byggðarkjarna og strjálbýli er miðuð við að í strjálbýli séu færri en 200 íbúar í byggðarkjarna.
    Þar sem flestar heilsugæslustöðvar utan Reykjavíkursvæðisins þjóna bæði „þéttbýli og dreifbýli“ og ekki liggur fyrir nein skipting í bókhaldi stöðvanna eftir búsetu íbúanna verður hér miðað við skiptingu eftir kjördæmum.

Kostnaður á einstaklinga.
    Á heilbrigðisstofnunum kemur í flestum tilvikum fram hvaða einstaklingur nýtur þjónustu en það er ekki nema í sumum tilvikum skráð hvað þjónustan kostar.
    Á heilsugæslustöðvum má í flestum tilvikum reikna með að íbúar á þjónustusvæði stöðvar njóti þjónustu hennar.
    Sérfræðiþjónusta utan sjúkrahúsa er í nær öllum tilvikum skráð á einstakling og fram­kvæmd samkvæmt reikningi.
    Sjúkrahúsþjónusta er í flestum tilvikum skráð á einstaklinga en sjaldan skráð hvað hún kostar.
    Undirstaða þess að finna kostnað á landsvæði er að tengja kostnaðinn við einstaklinga og safna síðan upp kostnaðinum eftir heimilisföngum.
    Í Staðtölum almannatrygginga eru yfirlit yfir greiðslur almannatrygginga. Í sjúkratryggingakaflanum er yfirlit yfir kostnað við sérfræðiþjónustu eftir heilsugæsluumdæmum og kjör­dæmum (læknishéruðum).
    Í Starfsemi sjúkrahúsa 1992–1994, notkun sjúkrahúsaþjónustu, eru yfirlit yfir innlagnir á hvert sjúkrahús í landinu, úr hverju heilsugæsluumdæmi og kjördæmi í landinu. Nýjustu tölur eru frá 1994. Hér er ekki um kostnaðartölur að ræða en aðsókn á milli kjördæma gefur til kynna hvernig eigi að dreifa kostnaðinum.

Heilsugæsla.
    Þótt tilhneiging hafi verið til þess undanfarin ár að kalla alla þjónustu utan sjúkrahúsa heilsugæslu sem byggist á túlkun á 19. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, verður hér miðað við þann kostnað sem greiddur er af heilsugæslustöðvum.

Sérfræðiþjónusta utan sjúkrahúsa.
    Sérfræðiþjónusta utan sjúkrahúsa er að hluta greidd af Tryggingastofnun ríkisins og yfirlit yfir hana færð þar. Á síðustu árum hefur sérfræðiþjónusta sem unnin er innan sjúkrahúsa að nokkru verið greidd af Tryggingastofnun ríkisins og var færð í bókhaldi með annarri sér­fræðiþjónustu árið 1997 og ekki nema að hluta greint þar á milli. Hér verður því miðað við sérfræðiþjónustu greidda af Tryggingastofnun ríkisins.

Sjúkrahús.
    Sjúkrahús eru samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, hver sú stofnun sem ætluð er sjúku fólki til vistunar. Hér verður miðað við alla stofnanaþjónustu nema dvalar­heimili. Þetta er sú þjónusta sem greidd er af föstum fjárlögum eða af daggjöldum sjúkra­trygginga Tryggingastofnunar. Vist á dvalarheimilum er greidd af einstaklingum eða gegnum lífeyristryggingar sjúkratrygginga.

    Í töflu 1 er sýnd skipting helstu þátta heilbrigðisþjónustunnar. Þar er sérfræðiþjónusta innifalin í tölum um heilsugæslu.

Tafla 1. Útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála 1997.



Í millj. kr.
Innbyrðis hlutdeild Í þús. kr. á verðlagi 1997
1.
Almenn sjúkrahús
18.342 52,5 67,7
2.
Öldrun og endurhæfing
5.521 15,8 20,4
3.
Heilsugæsla
5.195 14,9 19,2
4.
Lyf og hjálpartæki
4.315 12,3 15,9
5.
Önnur heilbrigðisútgjöld
1.571 4,5 5,8
Opinber heilbrigðisútgjöld
34.945 100,0 129,0
Heimild: Þjóðhagsstofnun.

    Í töflu 2 kemur fram skipting á kostnaði við sjúkrahús og heilsugæslustöðvar eftir kjör­dæmum. Daggjaldastofnanir, aðallega hjúkrunarheimili, eru teknar sér. Stærstu liðirnir undir liðnum annað eru Framkvæmdasjóður fatlaðra, heilbrigðismál, ýmis starfsemi, heilsugæslustöðvar, almennt, og sjúkrahús og læknisbústaðir.

Tafla 2. Kostnaður við heilsugæslu og sjúkrahúsþjónustu eftir kjördæmum árið 1997, í millj. kr.


Heilsugæsla Sjúkrahús Daggjaldast.     Annað Samtals
Reykjavík
662 14.613 1.006 199 16.480
Reykjanes
346 1.267 914 2.527
Vesturland
134 645 172 952
Vestfirðir
117 422 28 567
Norðurland vestra
86 677 0 763
Norðurland eystra
225 1.749 297 2.277
Austurland
159 452 121 732
Suðurland
148 791 309 1.249
Óstaðsett
1.439 1.439
Samtals
1.879 20.616 2.847 1.644 26.985
Heimild: Ríkisreikningur 1997 og ársskýrsla TR.

    Í töflu 3 koma fram greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins og heildargreiðslur Trygginga­stofnunar og sjúklinga fyrir sérfræðiþjónustu klíniskra sérfræðinga, tannlækningar og sjúkra­þjálfun eftir kjördæmum. Þjónusta sérfræðilækna er mest notuð í Reykjavík. Til að fá sam­ræmda tölu fyrir kostnað við tannlækningar í Reykjavík þarf að hækka tölurnar um tannlækn­ingar sem nemur kostnaði við skólatannlækningar Reykjavíkur, en þær eru annars innifaldar í heilsugæslu.

Tafla 3. Sérfræðiþjónusta greidd af Tryggingastofnun ríkisins árið 1997. Tölur í krónum á íbúa.


Sérfræðiþjónusta Tannlækningar Sjúkraþjálfun
TR TR og sj. TR TR og sj. TR TR og sj.
Reykjavík
3.173 5.507 2.395 3.388 2.044 2.601
Reykjavík**
2.800 4.000
Vesturland
1.870 3.582 3.360 4.475 1.389 1.751
Vestfirðir
1.227 2.377 2.404 3.203 944 1.210
Norðurland vestra
1.309 2.407 3.411 4.567 1.613 2.108
Norðurland eystra
1.878 3.523 3.345 4.552 2.556 3.287
Austurland
1.202 2.336 3.702 4.974 1.016 1.304
Suðurland
1.717 3.176 2.919 3.895 1.545 1.960
Reykjaneskjördæmi
2.517 4.718 2.939 3.978 1.934 2.473
Samtals
2.474 4.471 2.822 3.867 1.897 2.422
** Þegar leiðrétt hefur verið fyrir Skólatannlækningum Reykjavíkur.
Heimild: Starfsemi sjúkrahúsa 1992–1994, töfluhefti 2, september 1996. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

    Í töflu 4 eru sýndar aldursleiðréttar sjúkrahúsinnlagnir eftir kjördæmum og héraðshlut­deild, þ.e. hve stór hluti sjúklinga fær sjúkrahúsþjónustu í heimakjördæmi og hve stór hluti sækir sjúkrahúsþjónustu í önnur kjördæmi. Það ber að undirstrika að þessar tölur sýna inn­lagnir en ekki kostnað. En þær sýna að ekki er hægt að nota tölurnar um kostnað við sjúkra­hús í kjördæmum beint til að meta kostnað íbúanna. Taflan sýnir tiltölulega jafna notkun sjúkrahúsþjónustu eftir kjördæmum og hvernig sjúklingar sækja sjúkrahúsþjónustu til Reykja­víkur og Akureyrar. Sjúkrahús í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi eru tekin saman.

    Tafla 4. Aldursleiðréttar sjúkrahúsinnlagnir og sókn á milli kjördæma 1994.**


Hérað sjúklings Aldurs­leiðréttar legur á 1000 íbúa Hérað sjúkrahúss
RvRn Vl Vf Nv Na Au Sl
Héraðshlutdeild
Reykjavík
169 98%
Vesturland
206 35% 65%
Vestfirðir
218 42% 3% 53%
Norðurland vestra
204 29% 4% 53% 14%
Norðurland eystra
173 16% 83%
Austfirðir
171 47% 11% 41%
Suðurland
176 54% 44%
Reykjanes
170 98%
Landsmeðaltal
175
** Sýndar eru tölur yfir 2% í héraðshlutdeild.
Heimild: Starfsemi sjúkrahúsa 1992–1994.