Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1211  —  339. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um vaxtabætur af húsnæðisláni.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig má gera ráð fyrir að vaxtabætur 1 millj. kr. húsbréfaláns þróist miðað við meðaltekjur og meðalfjölskyldustærð allt greiðslutímabil 25 ára húsbréfaláns? Í svarinu óskast hvert ár tilgreint fyrir sig miðað við breytingar á höfuðstól og afborgunum og að gert verði ráð fyrir 1,5% verðbólgu á ári allan lánstímann.

    Að gefnum tekjum viðkomandi skuldara skerðast vaxtabætur um fasta krónutölu. Vaxta­bætur vegna hverrar milljónar af húsbréfalánum og öðrum lánum eru því breytilegar eftir því hve há heildarskuldin er og vaxtagreiðslur miklar.
    Eftirfarandi tafla sýnir áætlaðar vaxtabætur hjóna á hverju ári miðað við upphaflega lántöku að fjárhæð 5–12 millj. kr. Miðað er við að greiðslukjör af öllum lánunum séu svipuð og eru nú af húsbréfum. Reiknað er með 5,1% ársvöxtum auk verðtryggingar og að afborg­anir séu fjórar á ári. Reiknað er með 1,5% verðbólgu á ári. Miðað er við að meðallaun hjóna séu 3,4 millj. kr. á ári og reiknað með að þau hækki einnig um 1,5% á ári. Enn fremur er reiknað með að hámark vaxtabóta hækki um sama hlutfall á ári. Miðað við þessar forsendur skapast ekki réttur til vaxtabóta fyrr en skuld er komin yfir 4 millj. kr. og vara greiðslur vaxtabóta í 8–20 ár, eftir fjárhæð upphaflegs láns. Ekki er reiknað með skerðingu vegna eigna en gera má ráð fyrir að þær mundu stytta greiðslutíma vaxtabóta nokkuð.

Áætlaðar árlegar vaxtabætur, þús. kr.

Upphaflegt lán, þús. kr.

Ár
5.000 6.000 7.000 8.000 9.000 10.000 11.000 12.000
1 49 100 151 202 233 233 233 233
2 45 95 146 197 237 237 237 237
3 40 90 140 190 240 240 240 240
4 34 84 134 183 233 244 244 244
5 28 77 126 176 225 247 247 247
6 21 70 118 167 216 251 251 251
7 14 62 110 157 205 253 255 255
8 6 53 100 147 194 241 259 259
9 - 44 90 135 181 227 262 262
10 - 33 78 123 168 212 257 266
11 - 22 66 109 153 196 239 270
12 - 10 52 94 136 178 220 262
13 - - 37 78 118 158 199 239
14 - - 21 60 98 137 176 214
15 - - 4 40 77 114 150 187
16 - - - 19 54 88 123 157
17 - - - - 28 61 93 125
18 - - - - 1 31 60 90
19 - - - - - - 25 51
20 - - - - - - - 10
21 - - - - - - - -

    Bent skal á að framangreindir útreikningar taka mið af ákveðnum fyrir fram gefnum forsendum, þar sem m.a. er ekki reiknað með skerðingu vegna eigna, og ber að skoða þá í því ljósi.