Ferill 566. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1214  —  566. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um stöðu sjávarútvegsbyggða sem misst hafa veiðiheimildir og kvótalítilla útgerða.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:

     1.      Hefur sjávarútvegsráðuneytið að undanförnu skoðað sérstaklega stöðu sjávarútvegsbyggða sem misst hafa frá sér veiðiheimildir þannig að grundvöllur útgerðar og fisk­vinnslu er brostinn?
     2.      Eru einhverjar aðgerðir fyrirhugaðar á þessu sviði sem falið gætu í sér úrlausn fyrir sjávarútvegsbyggðir í vanda og jafnframt nýst kvótalitlum útgerðum og auðveldað öðrum að hefja útgerð?
    
Frumskilyrði þess að byggð haldist kringum landið er að fiskstofnar séu í þannig ástandi að þeir gefi mestan mögulegan afrakstur. Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að laga stjórnkerfið að þessu markmiði. Þorskveiðar og -vinnsla hafa verið undirstaða sjáv­arútvegs í landinu. Ástand þorskstofnsins var orðið slæmt í upphafi áratugarins og ljóst að grípa yrði til sérstakra ráðstafana vegna þess. Sett var á fót nefnd sem skyldi fjalla um hag­kvæmustu nýtingu þorskstofnsins og koma með tillögur um hana. Niðurstaða nefndarinnar var að leggja til að ákveða aflareglu fyrir þorskstofninn. Ríkisstjórnin samþykkti þessa til­lögu og frá fiskveiðiárinu 1995/1996 hefur heildaraflamark af þorski verið 25% af veiði­stofninum. Þessi aðgerð, ásamt víðtækum friðunaraðgerðum, hefur skilað árangri og er nú svo komið að heildaraflamark af þorski er 250 þús. tonn í ár, en til samanburðar var það 155 þús. tonn á fiskveiðiárinu 1995/1996 þegar aflareglunni var beitt í fyrsta sinn. Þessi upp­bygging þorskstofnsins er gríðarlega mikilvæg fyrir þá staði sem háðir eru sjávarútveginum og frekari uppbygging annarra stofna mun styrkja þá enn frekar.
    Undanfarin ár hafa átt sér stað miklar breytingar í sjávarútveginum og hafa þær ekki síst komið fram í uppstokkun eignarhalds og skipulagi fyrirtækja. Samvinna og samruni fyrir­tækja frá ýmsum stöðum á landinu hafa orðið algengari og samhliða því hafa viðhorf til rekstrar fyrirtækja breyst, m.a. með samningum um fiskkaup. Þessi þróun hefur haft í för með sér breytta áherslu á skipulagningu veiða og vinnslu sem hefur m.a. leitt til þess að umsvif hafa minnkað á einstöku stöðum en aukist á öðrum. Með bættum samgöngum og stækkun sveitarfélaga hafa atvinnusvæði einnig stækkað. Almennt hefur fjárhagsstaða fyrir­tækja í sjávarútvegi verið að styrkjast, þó með undantekningum líkt og í öðrum rekstri.
    Lögð hefur verið fram á Alþingi skýrsla um sjávarútveg Íslendinga – þróun, stöðu og horfur, sem unnin var í tilefni af Ári hafsins, 1998. Höfundur hennar er Birgir Þór Runólfs­son, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Skýrslan geymir miklar upplýsingar um þróun sjávarútvegs, þar á meðal breytingar á aflahlutdeild, löndun, vinnslu og afkomu fyrirtækja. Um þessi efni er vísað til skýrslunnar.
    Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum hefur sjávarútvegs-ráðuneytið ekki beitt sér fyrir sértækum aðgerðum varðandi einstök byggðarlög vegna minnkandi aflaheimilda. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 1/1999 hefur Byggðastofnun hins vegar til árlegrar ráðstöfunar aflaheimildir sem nema 1.500 þorskígildis­lestum til að styðja byggðarlög sem hafa lent í vanda í kjölfar samdráttar í sjávarútvegi.
    Ráðuneytið hefur ekki áætlanir um sérstakar aðgerðir til aðstoðar við útgerðir sem eiga skip með lítið aflamark. Vandamál þau sem nú eru mikið rædd má rekja til breyttra tækifæra útgerða þessara báta til að afla sér veiðiheimilda, í kjölfar lausnar á verkfalli sjómanna sem tengdist m.a. viðskiptum með aflamark. Breytingar á starfsumhverfinu krefjast breytinga á þeirri lausn og er ólíklegt að ráðist verði í aðgerðir sem verði til að auka deilurnar frekar.
    Rétt er að minna á í þessu sambandi að víða í heiminum keppast þjóðir við að ná betra jafnvægi milli sóknargetu fiskiskipaflota og afrakstursgetu fiskstofna til þess að fullnægja kröfum um sjálfbærar veiðar. Íslendingar hafa náð góðum árangri í þessu efni með markaðs­kerfi í fiskveiðum. Mat ráðuneytisins er að þjóðir sem beitt hafa miðstýrðum aðferðum við fiskveiðistjórnun hafi ekki náð jafngóðum árangri við verndun og uppbyggingu fiskstofna.
    Í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, eru ekki heimildir til að grípa til aðgerða af því tagi sem hér er rætt um. Aftur á móti er í 9. gr. laganna heimild til ráðherra til að mæta áföll­um vegna fyrirsjáanlegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. Í ráðuneytinu er verið að kanna hvernig megi beita þessari heimild þannig að bætur komi til aðila sem verða fyrir verulegri skerðingu við minnkandi heildaraflamark í einstökum tegundum, svo sem inn­fjarðarrækju, en ákvarðanir þar um eru teknar í tengslum við heildaraflaákvörðun.