Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1217  —  445. mál.Svarmenntamálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um framkvæmdaáætlun ríkis­stjórnarinnar í jafnréttismálum.

     1.      Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að auka fræðslu um jafnrétti kynjanna og til að jafna aðstöðumun þeirra í skólum landsins, sbr. inngang að aðgerðaáætlun mennta­málaráðuneytisins í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna?
    
Ákvæði um jafnrétti kynjanna eru samofin markmiðum í nýjum aðalnámskrám fyrir grunn- og framhaldsskóla. Undirbúningur að gerð aðalnámskránna var í samráði við jafnrétt­isnefnd menntamálaráðuneytisins, en hlutverk þeirrar nefndar var m.a. að gera tillögur um stefnumörkun varðandi jafnrétti í skólum. Í skólastefnu ráðuneytisins sem birtist í ritinu Enn betri skóli segir:
    „Í nýjum aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla verður sérstaklega tekið mið af lögum um grunnskóla og stefnu menntamálaráðuneytisins í jafnréttismálum en þar er kveðið á um að nemendum sé ekki mismunað eftir kyni, búsetu, stétt, uppruna, trú eða fötlun. Þetta þýðir að allir skuli fá sem jöfnust tækifæri til menntunar. Þetta þýðir ekki endilega sömu úrræði
fyrir alla heldur jafngild tækifæri.
    Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á að skólar búi bæði kynin jafnt undir þátttöku í atvinnulífi, fjölskyldulífi og í samfélaginu almennt, fræði bæði drengi og stúlkur um stöðu kynjanna og mannréttindi og vinni gegn misrétti.“
    Þessi stefnumið koma skýrast fram í almennum hluta aðalnámskrár og námskrá í lífs­leikni.
    Í almennum hluta aðalnámskrár eru jafnréttissjónarmið höfð að leiðarljósi um almenna menntun á Íslandi. Þau ákvæði sem þar koma fram eiga við um alla hluta nýrrar aðalnám­skrár, svo sem einstaka greinahluta námskrárinnar.
    Lífsleikni er ný kennslugrein í íslenskum grunn- og framhaldsskólum. Er henni ætlaður sérstakur tími á stundarskrá nemenda frá 4.–10. bekk grunnskóla og er í aðalnámskrá jafn­framt bent á mikilvægi þess að skólar nýti sér kjarnaþætti greinarinnar við nám hjá yngri nemendum. Öllum nemendum í framhaldsskólum verður auk þessa gert skylt að ljúka þriggja eininga áfanga í lífsleikni.
    Í formála að aðalnámskrá grunnskóla kemur m.a. fram:
    „Samkvæmt lögum og ýmsum skuldbindingum íslenska ríkisins, innlendum og erlendum, ber íslenskum menntayfirvöldum að veita börnum og ungmennum ýmsa fræðslu sem stendur utan hefðbundinna námsgreina. Má þar nefna 26. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, 10. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, 117. grein umferðar­laga og 14. grein laga um tóbaksvarnir.“
    Námskrá í lífsleikni er m.a. ætlað að gera skólum auðveldara með að verða við þessum kröfum á heildstæðan hátt og um leið að koma til móts við kröfur um uppeldishlutverk skóla.
    Í námskrá í lífsleikni er að finna markmið sem bæði beint og óbeint stuðla að því að styrkja einstaklinginn, að hann öðlist samfélagslega yfirsýn, að hann geti gert raunhæfar áætlanir um náms- og starfsleiðir sem standa honum til boða að loknu grunnskólanámi, að hann öðlist áræði til þess að móta eigin lífsstíl og lífsskoðun á sjálfstæðan og ábyrgan hátt og að setja sér markmið sem lúta að framtíðinni. Nánari útfærsla um jafnréttismiðuð mark­mið námskrárinnar er að finna í áfangamarkmiðum og þrepamarkmiðum fyrir einstaka ald­urshópa.
    Meðal markmiða í lífsleikni sem snerta almenn jafnréttissjónarmið og hægt er að nýta til samþættingar má benda á þrepamarkmið í 4. bekk: „Að geta velt fyrir sér jafnréttishugtakinu út frá ýmsum sjónarhornum. Til að mynda á að vera jafnrétti á milli manna og dýra, á milli kónga og þegna, barna og fullorðinna.“
    Í nýrri aðalnámskrá grunnskóla eru skýr ákvæði sem stuðla að þessu. Má þar sérstaklega nefna það sem fram kemur í almennum hluta aðalnámskrár.
          Hlutverk og markmið grunnskóla ( 1999: 12, 14, 15).
          Aðalnámskrá grunnskóla. — Hlutverk aðalnámskrár (1999: 19–20).
          Skólanámskrá (1999: 20–25).
          Kennsla og kennsluhættir (1999: 29–30).
          Námsgögn (1999: 31–32).
          Velferð nemenda (1999: 45–49).
    Í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla (6. kafla) er kveðið á um hlutverk og inn­tak skólanámskrár. Þar segir m.a. að skólar skuli gera grein fyrir því hvernig þeir ætli að stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi (sbr. 2. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla). Einnig segir að við gerð skólanámskrár skuli tekið mið af lögum, reglugerðum og reglum, m.a. um jafnan rétt allra til náms, óháð litarhætti, þjóðerni og kynferði, og um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Jafnréttisfræðsla er enn fremur tekin sem dæmi um sérstök viðfangsefni sem framhalds­skólum ber að halda úti og fjalla um í skólanámskrá.

     2.      Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að hafa áhrif á mjög svo hefðbundið náms- og starfsval pilta og stúlkna, sbr. lið 9.2 í framkvæmdaáætluninni?
    
Menntamálaráðherra hefur skipað nefnd sem á að gera tillögur um hvaða uppeldis- og kennsluaðferðum skuli beitt í grunnskólum til að mæta betur mismunandi þörfum drengja og stúlkna. Nefndin var skipuð í september 1998 þegar jafnréttisnefnd menntamálaráðuneytisins lauk störfum. Þessar nefndir voru skipaðar í kjölfar þingsályktunar sem samþykkt var á Al­þingi sl. vor og hljóðar svo:
    „Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd fagfólks í uppeldis- og kennslumálum sem geri tillögur um hvaða uppeldis- og kennsluaðferðum skuli beitt í grunn­skólum til að mæta betur mismunandi þörfum drengja og stúlkna, en upplýsingar um misvægi í sérfræðiþjónustu, athygli kennara og námsárangri benda til að úrbóta sé þörf. Jafnframt geri nefndin tillögur um viðeigandi breytingar á kennaranámi.“
    Nefndin er skipuð Ingu Dóru Sigfúsdóttur, sem er formaður, Önnudís Grétu Rudolfsdótt­ur, Ingólfi V. Gíslasyni, Kristjáni M. Magnússyni og Ragnhildi Bjarnadóttur.
    Ekki eru áformaðar sérstakar aðgerðir til að breyta hefðbundnu náms- og starfsvali í framhaldsskólum. Hins vegar má benda á að á fyrri hluta ársins 1998 skipaði menntamála­ráðherra 14 starfsgreinaráð til að gera tillögur um starfsnám á framhaldsskólastigi. Starfs­greinaráðin ná til allra helstu atvinnuvega og starfsgreina þjóðarinnar og eru þau að vinna að tillögum um nýtt starfsnám og endurskoðun á því starfsnámi sem fyrir er innan ramma aðalnámskrár framhaldsskóla. Á næstu árum ættu því að opnast nýir möguleikar til náms og starfa fyrir pilta og stúlkur.

     3.      Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að bjóða kennurum og skólastjórnendum upp á aukna fræðslu um jafnrétti kynjanna, sbr. lið 9.3 í framkvæmdaáætluninni?
    Námsgagnastofnun er ætluð sérstök 40 millj. kr. fjárveiting 1999 til útgáfu, m.a. á náms­efni í lífsleikni.
    Aukin áhersla og fjárveiting að upphæð 18 millj. kr. árið 1999 vegna endurmenntunar kennara og skólastjórnenda í tengslum við nýja aðalnámskrá grunnskóla.

     4.      Hvað líður rannsókn á stöðu og líðan kynjanna í skólakerfinu, sbr. lið 9.4 í framkvæmdaáætluninni?
    Á málþingi sem haldið var á vegum karlanefndar Jafnréttisráðs og menntamálaráðuneytis­ins í nóvember 1997 var gerð grein fyrir fyrsta hluta rannsóknarinnar Ungt fólk ´97, rann­sókn um líðan og árangur kynjanna í skólum, sem unnin var af Ingu Dóru Sigfúsdóttur, deild­arstjóra hjá RUM (sjá rit um erindi frá þessu málþingi, Strákar í skóla, 1998). Samkvæmt upplýsingum frá Ingu Dóru Sigfúsdóttur er vinna við annan hluta þessarar rannsóknar að hefjast.

     5.      Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir niðurstöðum kannana á íþróttaiðkun stúlkna, sbr. lið 9.5 í framkvæmdaáætluninni?
    Nýjar aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla bjóða upp á meiri fjölbreytni í íþróttaiðkun og líkams- og heilsurækt en áður hefur verið.
    Íþróttahreyfingin hefur frá 1996 haft markvissa stefnumótun í þjálfun og íþróttauppeldi barna og unglinga. (Sjá rit ÍSÍ, Íþróttir barna og unglinga, 1997).

     6.      Hvað líður aðgerðum til að auka áhuga stúlkna á stærðfræði og raungreinum, sbr. lið 9.7 í framkvæmdaáætluninni?
    Ef litið er á námskrá í stærðfræði og náttúrufræði í grunnskóla er ekki að finna markmið sem beinlínis kveða á um að auka áhuga stúlkna á stærðfræði og raungreinum. Markmiðin eru ætluð báðum kynjum jafnt. Hins vegar má benda á að almennur hluti námskrár á við allar greinar og þar eru skýr ákvæði um jafnrétti, sbr. svar við fyrsta lið.

     7.      Hversu mörg þróunarverkefni sem snerta jafnréttisfræðslu hafa notið styrkja úr þróunarsjóði grunnskóla frá því að sjóðurinn var stofnaður, sbr. lið 9.8 í framkvæmda­áætluninni, og hvert verður framhaldið á því starfi?
    Nefnd skulu nokkur dæmi um þróunarverkefni sem snerta jafnréttisfræðslu og notið hafa styrkja úr þróunarsjóði grunnskóla.
    1991–1992: Myllubakkaskóli. — Stelpur og strákar í takt við tímann. Dalvíkurskóli. — Sjálfsmennskubraut.
    1992–1993: Grandaskóli. — Breyttir tímar.
    1998–1999: Grundaskóli. — Stærðfræði skiptir máli.

     8.      Hvað líður athugun á aðgengi kvenna að fjölmiðlum landsins og þeim karl- og kvenímyndum sem þar birtast, sbr. lið 9.11 í framkvæmdaáætluninni?
    Á vegum Hilmars Þórs Bjarnasonar, stundakennara við HÍ, eru tveir vinnuhópar að skoða hvernig karlar og konur birtast (umfjöllun og aðgengi) í íslenskum fjölmiðlum. Verkefni þessi eru unnin fyrir nefnd Skrifstofu jafnréttismála og menntamálaráðuneytisins um fjöl­miðla og konur.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hilmari Þór er annar hópurinn að innihaldsgreina eina viku af sjónvarpsefni (RÚV og Stöð 2) þar sem nákvæmlega verður kortlagt í hve miklum mæli rætt er við konur og karla, í sambandi við hvaða málaflokka og hvaða stöðum þessir einstak­lingar gegna. Einnig verða fjölmargir aðrir þættir skoðaðir.
    Hinn hópurinn er að innihaldsgreina eina viku af dagblöðum (Morgunblaðið, Dagur, DV). Sams konar þættir verða hér til athugunar. Einnig verður skoðað í hve miklum mæli karlar og konur skrifa í blöðin. Þessi tvö verkefni eru rétt nýhafin. Hóparnir eiga að skila af sér fljótlega upp úr næstu mánaðarmótum.

     9.      Hvað líður áformum um að auka fræðslu til ýmissa hópa um afleiðingar ofbeldis, sbr. lið 9.12 í framkvæmdaáætluninni?
    Í fyrsta lagi skal bent á rannsókn á einelti í íslenskum grunnskólum. Fer rannsóknin fram á árunum 1998 og 1999. Ákvörðun um að gera þessa rannsókn má m.a. rekja til þess að um­boðsmaður barna óskaði eftir samvinnu við menntamálaráðherra um upplýsingaöflun úr grunnskólum vegna eineltis. Í rannsókninni verður m.a. leitast við að fá svör við því hvert er umfang eineltis á Íslandi og hvernig börn og ungmenni skilgreina einelti. Einnig verður aflað upplýsinga um hvar einelti gegn börnum og unglingum á sér helst stað, hverjir verða fyrir því og hverjir beita því.
    Ætlunin er að þekkingin sem aflað verður með rannsókninni nýtist til að meta bestu for­varnarúrræðin gegn einelti og hvernig þeim verður hrundið í framkvæmd.
    Í öðru lagi má benda á að reglugerð um aga í grunnskólum er í endurskoðun í mennta­málaráðuneytinu. Við endurskoðunina verður höfð hliðsjón af vinnu starfshóps sem er að fjalla um skólareglur og aga í grunnskólum. Í starfshópnum eru fulltrúar frá menntamála­ráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands, Skólastjórafélagi Íslands, Heimili og skóla og umboðsmaður barna.

     10.      Er hafin könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og þeim stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 9.13 í framkvæmdaáætluninni? Ef svo er, hvað hefur hún leitt í ljós?
    Innan menntamálaráðuneytisins hefur jafnan verið leitast við að gæta jafnrar stöðu kynj­anna. Meðal æðstu embættismanna þess eru fjórar konur og þrír karlar. Ráðuneytisstjóri er kona og skrifstofustjórar eru sex, þrjár konur og þrír karlar (sjá fylgiskjal). Leitast er við að vinna í samræmi við þau jafnréttissjónarmið að störf innan ráðuneytisins séu ekki kynbundin og að starfsmenn af báðum kynjum komi jafnt til greina við verkefnaval. Hvað varðar stofn­anir sem undir ráðuneytið heyra þá hefur þeim verið sent bréf þar sem óskað er eftir svörum við 10. og 11. lið fyrirspurnarinnar en þau bárust ekki í tæka tíð.

     11.      Hvaða líður gerð jafnréttisáætlana í ráðuneytinu og þeim stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 9.13 í framkvæmdaáætluninni? Hversu margar stofnanir sem heyra undir ráðuneytið hafa þegar sett sér slíkar áætlanir og hver er reynslan af þeim?
    Unnið er að gerð jafnréttisáætlunar innan ráðuneytisins. Eins og fram kemur í 10. lið hef­ur undirstofnunum verið sent bréf þar sem m. a. er óskað eftir upplýsingum um hvað liði jafnréttisáætlunum innan þeirra en svör bárust ekki í tæka tíð.Fylgiskjal.


Menntamálaráðuneyti.
Heildarfjöldi Karlar Konur
BHM-starfsmenn
29 13 16
BSRB-starfsmenn
26 8 18
Embættismenn
7 3 4
„Ráðherraraðaðir“
(2 í C-ramma, 1 í B-ramma)
3 3

I. Embættismenn (kjaranefnd):

1.
Ráðuneytisstjóri
1
2.
Skrifstofustjóri 1
1
3.
Skrifstofustjóri 2
2 3
II. BHM-starfsmenn:
4.
Deildarstjóri 1/verkefnisstjóri
3 3
5.
Deildarstjóri 2/verkefnisstjóri
6.
Sérfræðingar/verkefnisstjórar
10 10
7.
Almennir starfsmenn, háskólamenntaðir
2
8.
Annað
1
III. BSRB-starfsmenn:
9.
Stjórnunarstörf 1 (C)
1 2
10.
Stjórnunarstörf 2
11.
Sérhæfð störf (B)
2 16
12.
Almenn störf (A)
5
13.
Annað