Ferill 604. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1223  —  604. mál.
Svarumhverfisráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um Brunamálaskólann.

     1.      Hvers vegna hafa ekki verið sett lög um Brunamálaskólann á þessu kjörtímabili eins og áformað var?
    Í reglugerð nr. 195/1994, um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna er kveðið á um starfsemi Brunamálaskólans. Þar er eins og nafnið gefur til kynna fjallað um menntun slökkviliðsmanna og veitingu starfa í slökkviliði og þar að auki um framkvæmd skólastarfs og fyrirkomulag í Brunamálaskólanum. Þessi reglugerð er sett með stoð í lögum nr. 41/1992, um brunavarnir og brunamál, en í þeim lögum er hins vegar hvergi fjallað um starfsemi skól­ans. Þótt í 8. gr. laganna sé ráðherra, áður félagsmálaráðherra en eftir 1. janúar 1998 um­hverfisráðherra, m.a. heimilað að setja nánari ákvæði um menntun slökkviliðsmanna í reglu­gerð. Í þeirri reglugerð, sbr. áðurnefnda reglugerð nr. 195/1994, er m.a. kveðið á um að starfa skuli sérstök skólanefnd yfir skólanum er beri ábyrgð á skólastarfinu og stýri því. Einnig er þar fjallað um kostnað við rekstur skólans og að hann greiðist af tekjum Bruna­málastofnunar.
    Með vísun til framanritaðs hefur þótt ríkja vafi á hvort reglugerðin nr. 195/1994 eigi sér nægjanlega lagastoð hvað varðar starfsemi skólans. Samkvæmt lögum nr. 41/1992, um brunavarnir og brunamál, sem reglugerðin á stoð í, fer brunamálastjóri, undir yfirstjórn stjórnar Brunamálastofnunar, með stjórn allra mála er undir lögin falla, þar á meðal Bruna­málaskólann og því getur skólinn eins og lögin eru ekki verið annað en hluti af starfsemi stofnunarinnar.
    Umhverfisráðherra tók yfir málaflokk brunamála og brunavarna 1. janúar 1998 og þar með lög nr. 41/1992, um brunavarnir og brunamál. Fljótlega kom í ljós ágreiningur um starf­semi skólans, ekki síst hvert ætti að vera hlutverk brunamálastjóra annars vegar og skóla­stjórnar hins vegar. Átti ráðuneytið í viðræðum við forsvarsmenn Landssambands slökkvi­liðsmanna um málið síðasta sumar og haust og lögðu þeir á það áherslu að traustri lagastoð yrði skotið undir starfsemi skólans sem ráðuneytið tók vissulega undir.
    Síðasta haust var skipuð nefnd til þessa að endurskoða lög nr. 41/1992, um brunavarnir og brunamál, sem í eiga sæti auk fulltrúa ráðuneytisins, fulltrúi Sambands íslenskra sveitar­félaga og fulltrúi frá stjórn Brunamálastofnunar. Er nefndinni m.a. falið að fjalla um starf­semi Brunamálaskólans og gera tillögur um framtíðarhlutverk hans í nýjum lögum. Áformað er að nefndin skili tillögum að breyttum lögum næsta haust.
    Umhverfisráðuneytið kannast ekki við ákveðin áform um að setja sérstök lög um Bruna­málaskólann á kjörtímabilinu enda rúmt ár síðan málaflokkurinn færðist yfir til þess og hafa á því ári farið fram viðræður við forsvarsmenn Landssambands slökkviliðsmanna um fram­tíðarskipan skólamálanna. Ráðuneytið var sammála forsvarsmönnum sambandsins um nauð­syn lagasetningar til þess að treysta lagagrunninn og gaf ráðuneytið fyrirheit um að unnið yrði í málinu sem nú er gert, sbr. það sem segir um starfsemi stjórnskipaðrar nefndar þar að lútandi.

     2.      Verður Brunamálaskólinn gerður að sjálfstæðri stofnun?
    Eins og að lögum er búið er það ekki hægt. Það er hlutverk stjórnskipaðrar nefndar að skila tillögum um starfsemi skólans og er þeirra að vænta næsta haust. Fyrr er lítið hægt að segja um framhaldið en sjálfstæði skólans hlýtur að ráðast af því hvert verður hlutverk hans.
Verði honum ætlað að veita grunnmenntun er ljóst að hann verður að starfa sem sjálfstæð stofnun eða innan fjölbrautaskólakerfisins. Verði honum hins vegar falið að þjálfa slökkvi­liðsmenn eða veita tilvonandi slökkviliðsmönnum verklega þjálfun eingöngu getur slíkur skóli sem best verið hluti af starfsemi Brunamálastofnunar að fengnum skýrum lagaákvæðum um skólann.