Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Þriðjudaginn 08. júní 1999, kl. 20:51:06 (18)

1999-06-08 20:51:06# 124. lþ. 0.12 fundur 14#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 124. lþ.

[20:51]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Sú öld sem senn er að baki hefur um flest verið byltingarkennd hvað snertir lífsgæði, velferðarmál og atvinnuuppbyggingu. Í byrjun aldarinnar vorum við Íslendingar ófullvalda ríki sem stóð langt að baki flestum öðrum vestrænum þjóðum í efnahagslegum samanburði. Hér var fátækt mikil og atvinnuhættir fábrotnir. Heilbrigðisþjónustan var nánast engin, almannatryggingar óþekktar, húsakostur var víða slæmur, fæði einhæft og menntun forréttindi fárra. Tuttugustu aldarinnar verður örugglega helst minnst í Íslandssögunni fyrir endurheimt sjálfstæðis landsins eftir margra alda ánauð og þá byltingarkenndu framfarasókn sem varð á öllum helstu sviðum samfélagsins.

Við Íslendingar höfum haldið vel á málum okkar. Við þurfum að standa vörð um þann árangur sem hefur náðst. Það þarf að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu, tryggja komandi kynslóðum góða menntun og uppeldisskilyrði og skapa ný atvinnutækifæri, sérstaklega til handa ungu fólki sem er að koma í fyrsta sinn út á atvinnumarkaðinn. Einnig þarf áfram að tryggja góða samfélagsþjónustu, svo sem innan heilbrigðiskerfisins. Á öllum þessum málum mun núverandi ríkisstjórn taka af sömu skynsemi og á síðasta kjörtímabili.

Virðulegur forseti. Hvað skiptir okkur máli? Rannsóknir sýna þegar fólk er spurt hvað skiptir það mestu máli í lífinu, að þá er svarið fjölskyldan og heilsan. Stöðugt efnahags\-ástand er eitt það mikilvægasta fyrir fjölskyldurnar í landinu. Góð efnahagsstefna og fjölskyldustefna verður ekki slitin í sundur. Með þessum orðum vil ég draga það fram að besta framlag stjórnvalda til þess að skapa skilyrði fyrir góðu fjölskyldulífi meðal Íslendinga er að gæta stöðugleika í efnahagslífinu. Stjórnvöld ein skapa þó ekki gott fjölskyldulíf. Fjölskyldurnar sjálfar þurfa einnig að líta í eigin barm.

Maður spyr sig sífellt oftar: Hefur fjölskyldan nægilega styrkan sess í okkar huga? Forgangsröðum við hvert og eitt tíma okkar rétt? Erum við í nægjanlegum samskiptum við okkar nánustu? Notum við fé okkar rétt? Verjum við því í uppbyggilegar athafnir og aðbúnað fjölskyldunnar eða í einskisverða hluti og sýndarmennsku? Kaupmáttur heimilanna sem stjórnvöld lögðu grunn að með framsýnni efnahagsstefnu hefur að einhverju leyti farið í eyðslu, í svokallað lífsgæðakapphlaup.

Að mínu áliti er afar mikilvægt að við Íslendingar sýnum hugarfarsbreytingu, verjum fé og tíma með hagsmuni fjölskyldna okkar að leiðarljósi.

Herra forseti. Umhverfismálin eru málaflokkur sem hefur vaxið ört að undanförnu. Í nýsamþykktri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna kemur fram að nauðsynlegt er að skapa sátt milli skynsamlegrar nýtingar auðlinda og náttúruverndarsjónarmiða á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Einnig þarf að ljúka gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðhita sem tekur tillit til verndargildis einstakra landsvæða.

Í síðustu viku var tekið mikilvægt skref innan áætlunarinnar þegar samkomulag náðist milli ráðuneyta iðnaðar- og umhverfismála og stofnana þeirra um vinnubrögð við að vinna ofangreinda áætlun. Í samkomulaginu felst m.a. það að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi frumkvæði að því að þróa aðferðir til þess að afla gagna um náttúrufar á fyrirhuguðum virkjunarsvæðum sem nota má til að meta verndargildi þeirra með skipulegum og skilvirkum hætti. Jafnframt er gert ráð fyrir því að stofnunin þrói verndarviðmið í samvinnu við Náttúruvernd ríkisins og Orkustofnun sem taki mið af alþjóðlegum skyldum okkar á þessu sviði og nýjum náttúruverndarlögum. Samningur um þetta efni hefur verið undirritaður.

Annað verkefni sem er brýnt að vinna á því kjörtímabili sem er nýhafið er ný framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun sem taki mið af núverandi áætlun, en henni lýkur árið 2000.

Virðulegur forseti. Alþingiskosningar eru nýafstaðnar með mismunandi góðum úrslitum fyrir stjórnmálaöflin í landinu. Þó gætir þverpólitískrar gleði hvað varðar framsókn kvenna inn í Alþingi. Í kosningunum fyrir fjórum árum varð hlutur kvenna um 25% á Alþingi. Nú náðist sem betur fer gott stökk og fór hlutur kvenna upp í 35%. Það er einnig framfaraskref að konum í ríkisstjórninni hefur fjölgað. Samsetning Alþingis og ríkisstjórnar endurspeglar því betur en fyrr þjóðfélag okkar þó enn vanti nokkuð upp á að hlutur kvenna geti talist eðlilegur. Er það von mín að umræðan um aukinn hlut kvenna sem fram mun fara á næstu árum skili sér í enn betri árangri í næstu sveitarstjórnar- og alþingiskosningum á nýrri öld.