Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Þriðjudaginn 08. júní 1999, kl. 20:57:06 (19)

1999-06-08 20:57:06# 124. lþ. 0.12 fundur 14#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, SJS
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 124. lþ.

[20:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Ég vil leyfa mér að byrja á því að nota tækifærið og óska nýkjörnum þingmönnum til hamingju, sérstaklega þeim sem hér eru að taka sæti í fyrsta sinn, sömuleiðis nýjum ráðherrum og ríkisstjórn. Þá vil ég fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þakka kjósendum og landsmönnum þann stuðning og það brautargengi sem við fengum í nýliðnum alþingiskosningum. Sú góða útkoma er okkur mikilvægt veganesti inn í framtíðina og til þeirra verkefna sem þar bíða. Þau verkefni eru fyrst og fremst að byggja upp okkar ungu hreyfingu og efla hana til dáða sem öflugan málsvara þeirra hugsjóna sem við stöndum fyrir, að halda uppi þróttmikilli og málefnalegri stjórnarandstöðu hér innan þingsalanna sem og annars staðar og að vera vettvangur lifandi stjórnmálaumræðu jafnt úti í þjóðfélaginu og í grasrót þjóðmálaumræðunnar sem hér innan þingsalanna. Það veitir ekki af að veita nýjum hugmyndum og fersku andrúmslofti inn í stjórnmálaumræðuna hvar sem því verður við komið.

Góðir áheyrendur. Landið hefur fengið nýja ríkisstjórn. Fæðing hennar var nokkuð sérkennileg. Ég hef einhvers staðar orðað það svo að þetta hafi sennilega verið lengstu viðræður um ekki neitt sem sögur fara af. Þrjár vikur tók að lenda þeirri mikilvægu ákvörðun að fjölga ráðherrunum um tvo.

Stjórnarsáttmálinn, svo ekki sé minnst á stefnuræðu hæstv. forsrh., er einhver mesti vatnsgrautur sem hér hefur sést í langan tíma. Ég held að það megi taka þá líkingu að í raun og veru sé stjórnarsáttmálinn og því einnig stefnuræðan eins og naglasúpa elduð í öfuga átt. Í staðinn fyrir að bæta við naglann grjónum, grænmeti, kjöti og öðru slíku er meira að segja naglinn tekinn upp úr vatninu og það eitt er eftir. Svo þunnt er þetta nú.

Það sem vekur kannski mesta athygli og er að mörgu leyti stærstu pólitísku tíðindin við þessa ríkisstjórnarmyndun --- sem engin ríkisstjórnarmyndun var því það lá í raun alltaf fyrir að þessir flokkar ætluðu að vinna saman, þá skorti bara hreinskilni og heiðarleika til að segja það fyrir kosningar --- er auðvitað að Framsfl., þrátt fyrir tapið, kjaftshöggið, skuli velja að sitja áfram í súpunni, í þessari þunnu naglasúpu. Það er mjög athyglisverð staðreynd og ótrúleg formúla sem birtist okkur í því að með fylgistapi og fækkun þingmanna fjölgar ráðherrum Framsfl. Þetta er núna orðin helmingaskiptastjórn í margföldum skilningi. Stjórnarflokkarnir, ólíkir að stærð, skipta ekki aðeins með sér vegtyllunum í aðalatriðum til helminga heldur er hálfur þingflokkur Framsfl. í ríkisstjórninni og þeim fjölgaði með fylgistapinu. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort Framsfl. óski sér þá ekki áframhaldandi fylgistaps í næstu kosningum og fjölgun ráðherra. Og ef þingmönnunum fækkar hressilega, t.d. niður í sjö, þá gæti vel farið svo að þeir yrðu allir ráðherrar næst.

[21:00]

Af því að hv. þm. og hæstv. nýkjörinn landbrh., Guðni Ágústsson, tók hér skemmtilegar líkingar úr sveitalífinu, m.a. af því þegar kálfunum er hleypt út á vorin, þá verð ég að segja alveg eins og er að sjálfur fékk ég það á tilfinninguna að hæstv. ráðherra liði ekki ósvipað og bolakálfi á vori. Og hafa þá orðið þar snögg umskipti því að skammt er síðan sama manni leið eins og Gunnari á Hlíðarenda, eins og kunnugt er.

Ég held að hæstv. landbrh. ætti kannski að nálgast af aðeins meiri alvörðu þau vandasömu viðfangsefni sem hann hefur fengið í hendur, og veitir ekki af góðra manna stuðningi til að taka á þeim vanda sem við er að glíma í íslenskum sveitum og í íslenskum landbúnaði. Sæmra hefði hæstv. landbrh., Guðna Ágústssyni, verið að fjalla eitthvað um kjör sauðfjárbænda en að vera uppi með þennan skæting í garð stjórnarandstöðunnar, algjörlega að tilefnislausu, í umræðum um stefnuræðu forsrh.

Af einstökum málaflokkum, herra forseti, er í raun og veru fátt tínandi til ef nota ætti stjórnarsáttmálann sem efnivið eða ræðu hæstv. forsrh. því að þar er á fáu hönd festandi. Það eru þó nokkur málefni eða málasvið sem ég vil nefna og staldra við og m.a. koma þar inn á ræðu hæstv. forsrh.

Það fyrsta eru utanríkismál og sú ótrúlega NATO-mærð og dýrkun sem þar skín venju samkvæmt í gegnum textann. Það er satt best að segja dapurlegt að lesa jafngagnrýnislausan texta, jafnblindan texta eins og þar gefur að líta þegar kemur að fylgispektinni við NATO og Bandaríkin. Í ræðunni segir, með leyfi forseta:

,,Útlit er fyrir að Atlantshafsbandalagið sé að ná markmiðum sínum í Kosovo, ... Enn hefur bandalagið sannað gildi sitt, sýnt er að það gegnir lykilhlutverki í Evrópu og er ómissandi`` --- fyrir hvað, ómissandi fyrir hvað? --- ,,fyrir frið og stöðugleika í álfunni.``

Það er þá friður ,,à la`` Balkanskaginn og stöðugleiki ,,à la`` undanfarnar vikur sem NATO á að standa fyrir, eða hvað?

Herra forseti. Það er dapurlegt að sjá gagnrýnislausa umfjöllun af þessu tagi og reyndar er það mikið áhyggjuefni hvernig umfjöllun um þessi mál hefur í þjóðmálaumræðunni á Íslandi og í fjölmiðlum verið nánast algjörlega gagnrýnislaus og blind upptekt á þeim áróðri sem annar aðilinn, árásaraðilinn NATO, dælir út. Og það er sláandi munur á því að fylgjast með umræðunni hér og lesa íslenska fjölmiðla, því miður, og fjölmiðla í nálægum löndum eða fylgjast með stjórnmálaumræðum þar þegar að þessu kemur.

Ég vil í öðru lagi, herra forseti, nefna einkavæðinguna sem komið er inn á í ræðunni. Þar er sérstaklega boðuð einkavæðing Landssímans. Hæstv. núv. samgrh. hefur verið svo seinheppinn að tína það til sem sérstakt forgangsverkefni sem þurfi að hraða, að einkavæða Landssímann. Í framhaldi af umfjöllun um einkavæðingu Landssímans er fjallað um að sérstaklega sé mikilvægt sem viðleitni í byggðamálum að nýta tækni upplýsingahraðbrautarinnar og virkja hana í þágu landsbyggðarinnar.

Er það nú líklegt, góðir áheyrendur, að einkavæddur landssími, rekinn á hörðum ágóðasjónarmiðum þar sem hugsað er eingöngu um arðsemina verði það þjónustutæki almennings um allt land sem hann á auðvitað að vera og hefur verið? Og hver er ástæðan fyrir því að Landssíminn er einhvers virði? Jú, hún er sú að byggð var upp öflug almenningsþjónustustofnun sem er þó ekki verri en það að ýmsa langar í hana. Satt best að segja, herra forseti, er það líka mjög dapurlegt að sjá 20--30 ára gamlar klisjur, ættaðar úr smiðju Margrétar Thatcher, ganga aftur í stjórnmálaumræðunni á Íslandi rétt fyrir aldamótin og teknar gagnrýnislaust upp eins og ekkert sé. Og það vottar ekki fyrir viðleitni til að nálgast þessa hluti með nýju móti.

Í þriðja lagi, herra forseti, eru nokkur orð um góðærið og stöðugleikann. Stjórnarstefnan og sérstaklega stefna Sjálfstfl. í þessum kosningum fólst í aðalatriðum í tveimur orðum, þ.e. góðærið og stöðugleikinn --- og svo náttúrlega Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., sem var í raun og veru þriðji kaflinn í kosningaprógrammi Sjálfstfl.

Nú er það svo skrýtið að þetta góðæri er að ýmsu leyti að gufa upp og stöðugleikinn er orðinn mjög óstöðugur. Það er líka dapurlegt og í raun undarlegt að sjá hvernig hæstv. forsrh. velur að fjalla um það í ræðu sinni og gera lítið úr öllu. Það er ekkert nýtt að ákveðið jafnvægisleysi sé í efnahagsmálum á Íslandi. Eða vita menn ekki að hér hefur verið mikill viðskiptahalli á þjóðarbúinu gagnvart útlöndum um margra missira skeið? Vita menn ekki að fjárhagur sveitarfélaganna hefur farið hríðversnandi og þau hafa safnað skuldum á sama tíma og ríkissjóður að vísu, sem betur fer, hefur bætt stöðu sína? Og vita menn ekki um rekstrarhallann á heimilunum í landinu sem í stórum stíl eru að safna skuldum og/eða eyða um efni fram og er hluti af þeirri þensluhræðslu sem uppi veður í þjóðfélaginu?

Þessar gömlu, þreyttu klisjur, herra forseti, sem þarna koma fram, að svo miklu leyti sem þarna er hönd á einhverju festandi, eru dapurlegar. Og hinn hefðbundni rógur um allt sem er félagslegt, allt sem er rekið af hinu opinbera fer í taugarnar á mér. Hvers eiga þeir að gjalda sem standa fyrir opinberum rekstri eða félagslegri þjónustu að búa endalaust við þennan róg frá Sjálfstfl.? Ekki eru tryggingafélögin ríkisrekin, er það, hæstv. forsrh.? Eða eru þau ekki nýjasti óvinurinn? Nei, þau eru einkarekin og eru dæmi um það fákeppnisumhverfi í íslenskum viðskiptum sem mjög líklega getur orðið niðurstaðan ef mikilvægar þjónustustofnanir eins og Landssíminn eða Íslandspóstur verða einkavæddar. Vilja menn það þá frekar en stofnanir sem lúta lýðræðislegri stjórn almannavaldsins?

Herra forseti. Að síðustu vil ég fara nokkrum orðum um framtíðina sem í raun er miklu áhugaverðara að ræða heldur en innihaldslausa stefnuræðu hæstv. forsrh. Það heyrist oft sagt að allt sem flokkað er undir róttækni eða vinstri stefnu sé úrelt, að hagsmunaandstæðurnar hafi verið leystar upp í samfélögunum og stéttaandstæðurnar séu horfnar. Nýir tímar kalli á nýja pólitík og nýjar áherslur. Og sennilega er þetta forskeyti nýtt þetta og nýtt hitt ofnotaðasta orð í þjóðmálaumræðunni nú á tímum.

Vissulega breytast ýmsir hlutir en annað breytist ekki. Þó að nýtt ártal standi á dagatalinu breytir það ekki spurningunni um grundvallarhagsmunaandstæður samfélaganna og það breytir ekki því að stærstu spurningar í hverju þjóðfélagi eru spurningar um skiptingu gæðanna. Það eru spurningar um skiptingu gæðanna innan samfélaganna og á milli þeirra. Það breytist ekki og það er furðulegt að heyra því haldið fram á þeim tímum þegar vaxandi misskipting veður uppi sem fylgifiskur hinnar blindu markaðsvæðingar og nýfrjálshyggju að þá séu róttækar áherslur, kröfur um jöfnuð og félagslegt réttlæti úreltar.

Það er ekkert nýtt í hugmyndafræði þeirra og boðskap sem boða uppgjöf gagnvart þessari sömu misskiptingu og vaxandi ranglæti í þjóðfélaginu. Það er ekkert nýtt. Þeir menn eru í raun og veru liðsmenn hinna sem eru að verja óbreytt ástand. Hvorki Tony Blair með sinni nýju þriðju leið né Schröder með sinni nýju miðju eru því boðberar nýrrar hugsunar eða breytinga í vestrænum stjórnmálum. Það sem þarf til er að þora að brjóta ísinn og hefja umræður um misskiptinguna, um umhverfisvandann og um það t.d. hvernig nýir milljarðar jarðarbúa eiga að brauðfæðast á næstu áratugum. Þessa umræðu hafa vestrænir stjórnmálamenn því miður meira og minna svikist um að hefja. Af hverju? Af því að þeir eru hræddir um að tapa atkvæðum ef þeir taka það að sér að vera boðberar óþægilegra tíðinda. Það er tími kominn til að menn þori að fara að takast á við þessi alvarlegu framtíðarvandamál, umhverfisvána og annað sem að okkur steðjar.

Velmegunarstig þjóða mælist ekki í því hvað þær eiga marga milljónamæringa, sem reyndar er orðið úrelt hugtak, nú þarf að nota orðið milljarðamæringur. Ef svo væri þá væru t.d. Rússar og Mexíkómenn ágætlega staddir, svo ekki sé minnst á Bandaríkin þar sem einn einasti maður á jafnmikið og mörg vanþróuðustu ríki jarðarinnar og á jafnmikið og u.þ.b. fátækasti milljarður jarðarbúa. Ef teknir eru þeir þrír einstaklingar á jörðinni sem eiga mest efnisleg verðmæti að talið er, þá er það sama upphæð og nemur allri landsframleiðslu 48 vanþróuðustu ríkja heimsins. Þannig er misskiptingin orðin í dag og hún fer vaxandi. Við erum líka minnt á hana á Íslandi, m.a. í nýlegum niðurstöðum kjararannsóknarnefndar sem sýna vaxandi launamun, aukið kynbundið launamisrétti og vaxandi launamun milli landsvæða.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mun taka það að sér og taka það hlutverk sitt alvarlega að veita nýjum straumum og ferskum vindum inn í íslenska stjórnmálaumræðu. Ekki síst hvað varðar hin mikilvægu umhverfismál og andóf gegn sérhyggju og vaxandi misskiptingu og misrétti sem fylgir markaðsvæðingu samfélagsins í anda nýfrjálshyggjunnar. Ekki er vanþörf á, herra forseti, um leið og ég óska honum til hamingju með embættið, að hrista upp í staðnaðri umræðu og síðustu forvöð áður en öldin kveður.