Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Þriðjudaginn 08. júní 1999, kl. 21:11:03 (20)

1999-06-08 21:11:03# 124. lþ. 0.12 fundur 14#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, GAK
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 124. lþ.

[21:11]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Til hamingju með nýtt starf og megi forseta vel farnast við stjórn þingsins. Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og nýjum ráðherrum til hamingju. Ég vil nota tækifærið í upphafi máls og þakka stuðning kjósenda og það traust sem mér var sýnt við kjör til Alþingis. Ég óska nýkjörnum alþingismönnum til hamingju.

Hér ræðum við stefnu ríkisstjórnar sem í raun er sú sama og var fyrir síðustu kosningar. Ráðherrum hefur þó fjölgað um tvo og er sýnt að a.m.k. annar stjórnarflokkurinn, Framsókn, á nóg verk fyrir höndum að raða niður öllum þeim störfum á þá fáu óbreyttu þingmenn sem ekki eru eða verða ráðherrar. Stefnuyfirlýsingin ber með sér að byggt verði í meginatriðum á Hvítbókinni frá því í apríl 1995, enda er við samanburð mjög margt nánast eins í báðum þessum stefnuyfirlýsingum.

Í kosningabaráttunni lagði Frjálslyndi flokkurinn höfuðáherslu á að tekið yrði á fiskveiðistjórnarkerfinu, kvótakerfi sem hefur innbyggt frjálsa sölu á aflahlutdeild, þ.e. óveiddum fiski í sjó, og veiðiréttinum, aflamarkinu sem hægt er að leigja burt innan árs fyrir hærra verð en fæst í beinni sölu fiskaflans til vinnslu innan lands. Við þingmenn Frjálslynda flokksins teljum að hagsmunir sjávarbyggðanna allt í kringum land og fólksins sem hefur atvinnu af fiskveiðum og fiskvinnslu sé í stórhættu verði ekki tekist sem fyrst á við þau miklu vandamál sem kvótasalan úr sjávarbyggðum hefur leitt af sér og mun að öllu óbreyttu halda áfram að búa til nýtt og endurtekið upplausnarástand. Upplausnarástand í atvinnumálum sem gæti orðið í þriðja sinn t.d. á Bíldudal og annað sinn á Þingeyri á fáum árum, svo dæmi sé tekið af byggðum sem nú eru kvótalausar eða kvótalitlar.

Í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: ,,Að mestu skal byggt á aflahlutdeildarkerfi í sjávarútvegi.``

Það gekk eftir og kvótakerfið var látið yfirtaka línutvöföldunina og á steinbít. Í smábátakerfinu á nú að kvótasetja ýsu, ufsa og steinbít þann 1. sept. árið 2000.

Kvótabraskkerfinu var mjög vel framfylgt af ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og um það voru háðar harðar kjaradeilur. Við kynningu á stjórnarsáttmálanum fyrir fjórum árum um sumarmál 1995 varaði ég við því að stefna síðustu ríkisstjórnar mundi valda byggðavanda og átökum og ósætti með þjóðinni. Því miður er þannig komið. Nú er sagt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, með leyfi hæstv. forseta: ,,Að vinna að sem víðtækastri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið.``

Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni m.a., með leyfi hæstv. forseta, að treysta ætti stöðu íslensks sjávarútvegs og jafnframt að tryggja frið um hann. Nauðsynlegt væri að setja skýrar og skilmerkilegar reglur sem sjávarútvegurinn geti búið við til lengri tíma. Einnig sagði hæstv. forsrh.: ,,Við endurskoðun á ramma sjávarútvegsins ætla menn sér að skoða ítarlega öll þau gagnrýnisatriði sem sett hafa verið fram á undanförnum árum og meta hversu raunhæf þau eru, hversu sanngjörn þau kunna að vera, og bregðast við með skynsamlegum hætti.``

[21:15]

Út úr þessum orðum, sem birtast í stefnu nýrrar ríkisstjórnar, má sem sagt með góðum vilja lesa sáttatón og í orðum hæstv. forsrh. vill hann tryggja frið um skilmerkilegar, skýrar reglur til lengri tíma þar sem tekið verði tillit til raunhæfra gagnrýnisatriða af sanngirni. Þannig skil ég málið.

Ekki ætla ég að hafna því að sátt verði náð um sjávarútvegsmálin. Til þess er ég m.a. hingað kominn. Sú sátt verður að tryggja rétt fólksins í sjávarbyggðunum til þess að hafa traustan atvinnurétt til fiskveiða á eigin strandveiðiflota og vinnslu úr þeim afla. Það verður ekki gert með núverandi útfærslu á kvótabraskskerfi sem beinlínis vegur aftur og aftur að hagsmunum fólks á landsbyggðinni. Byggðamálin eru svo nátengd atvinnuréttindum fólks í undirstöðunni, fiskveiðum og vinnslu, að það er tómt mál að tala um viðhald eða eflingu byggðar án þess að tryggja jafnframt atvinnurétt fólks til sjávar og sveita. Nýsamþykkt þál. um að treysta byggð í landinu er til lítils ef undirstöðuna vantar.

Ég fletti í gær Sjómannadagsblaði sem gefið var út í Grindavík. Þar segir í ávarpi Arnbjörns Gunnarssonar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ég held að allir séu sammála um að í dag sé fiskveiðistjórnunarkerfið mál málanna. Kjarabarátta sjómanna hefur undanfarin ár nær eingöngu beinst að því að lagfæra misbresti þess sem bitnað hafa á sjómönnum sem hlunnfarnir hafa verið vegna kvótakaupa eða annarra ranginda tengdum kvótakerfinu. Það er líka vitað mál að braskarar hafa eyðilagt þetta kerfi, þó svo að hinn almenni útgerðarmaður hafi ekki tekið þátt í því. Þá er líka óþolandi að einstaklingar geti lagt heilu byggðirnar í rúst með því einu að selja veiðiheimildir úr byggðarlaginu. Í smærri byggðum standa svo sjómennirnir og verkafólkið eftir með verðlaus hús, eignir sem enginn vill kaupa og atvinnulausir í þokkabót.

Þrátt fyrir að einhverjir einstaklingar vilji byrja útgerð á staðnum er það algjörlega vonlaust þar sem nýliðun í útgerð er ekki gerleg. Bátur, sem kostar 100 millj. kr., þarf u.þ.b. 400--500 tonn af þorskkvóta og kostar slíkt fjórum til sex sinnum meira heldur en skipið sjálft. Það geta allir séð hversu vonlaust þetta dæmi er.

Kvótakerfið er þó búið að sanna sig. Það var sett á til verndunar fiskstofnum. Það hefur ekkert með það að gera í dag nema síður sé og hefur einungis stuðlað að verri umhirðu sjómanna um fiskimiðin, úrkasti afla og viðstöðulausri sóknarstýringu í aðrar tegundir heldur en þorsk. Karfastofninn er gott dæmi um þetta, nærri því útdauður, og eru ýsu- og ufsastofnar á svipaðri leið. Það er enginn vafi í mínum huga að þessu verður að breyta og megum við ekki láta skammtímasjónarmið um gróða ráða ferðinni. Ég hef heyrt í mönnum sem eru svo heitir út í þetta kerfi að þeir mundu styðja Sverri Hermannsson og jafnvel þann ,,svarta`` sjálfan ef það mætti verða til þess að breyta kerfinu.

Þegar svona er komið hljóta allir að sjá að eitthvað hlýtur að vera að. Það er því mál til komið að stjórnmálamenn fari að opna augun og gera eitthvað í málunum.``

Þetta var sagt á sjómannadaginn fyrir einu ári. Þarna er vandanum vel lýst frá sjónarhóli þess sem lifað hefur af fiskveiðum og sér ekki með hvaða rökum á að byggja áfram á núverandi kvótabraskskerfi.

Það hefur vissulega gerst fyrir daga kvótans að útgerð kæmist í greiðsluþrot eða yrði gjaldþrota, skipið jafnvel selt úr byggðinni. Hins vegar er einn veigamikill munur á í kvótakerfinu nú frá því sem áður var. Nú er ekki nóg að safna saman hæfum mönnum, skipstjóra, vélstjóra og öðrum dugandi sjómönnum og byrja að nýju að gera út og veiða fisk og verka. Kaupa þarf sameignina af þeim sem nú eiga kvótann.

Ég þekki vel til í lítilli byggð vestur á fjörðum. Þar var keyptur japanskur skuttogari árið 1972. Hann kostaði þá heimkominn 125 milljónir en á verðlagi dagsins í dag mundi það leggja sig á um 500 millj. kr. Útborgun var 10% og skipið heimkomið, tilbúið á veiðar. Í dag væri útborgun með sömu kjörum 50 milljónir fyrir skipið heimkomið, tilbúið til veiða.

Þá komum við að kvótanum. Árið 1972 gátu menn hafið útgerð og fiskveiðar án þess að kaupa kvóta af næsta manni. Í dag þarf að borga 2,4 milljarða fyrir u.þ.b. 3 þús. þorskígildistonn, sem er sá afli sem þarf á skipið hvert ár. Það er gjörsamlega vonlaust að rífa upp atvinnu í plássi með því að borga 2,9--3 milljarða fyrir skip og kvóta. Kerfið er orðið lokað eignakerfi fárra sem hafa í dag alræðisvald, um hagsmuni fólksins og byggðarlaganna í hendi sér.

Hæstv. forseti. Ef það er vilji hæstv. ríkisstjórnar að taka raunverulega til hendi við að tryggja rétt fólks í sjávarbyggðum til að öðlast á nýjan leik rétt til veiða og vinnu í heimabyggð, þar sem fólk vill búa ef atvinna er trygg, þá viljum við í Frjálslynda flokknum vinna að þannig réttlæti. Um framhald kvótabrasksins verður ekki sátt við þingmenn Frjálslynda flokksins. Ef ætlunin er að standa þannig að málum þá á a.m.k. að segja fólki að stefnan sé að leggja byggðir í eyði á Íslandi, víðar en á Hornströndum.