Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Þriðjudaginn 08. júní 1999, kl. 21:29:13 (22)

1999-06-08 21:29:13# 124. lþ. 0.12 fundur 14#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 124. lþ.

[21:29]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Það var með nokkurri tilhlökkun að nýr þingmaður nálgaðist stefnuræðu hæstv. forsrh. sem hér er til umræðu. Ég verð hins vegar að viðurkenna að við lesturinn snerist tilhlökkunin á augabragði í vonbrigði.

Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. er hvorki fersk né ný. Hugmyndir hennar, stefnumál og yfirbragð bera þess merki. Ég fæ ekki betur séð en liðsmenn hennar séu nokkuð móðir í upphafi nýs kjörtímabils. Ef til vill er þar harðvítugri baráttu um ráðherrasæti um að kenna.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er þó um margt athyglisvert plagg en aðallega vegna þess sem ekki í því stendur. Eftir þriggja vikna yfirlegu færustu samningamanna leit dagsins ljós dauflegur texti þar sem ekki örlar á frumlegri hugsun, hvað þá framtíðarsýn fyrir íslenska þjóð.

[21:30]

Meginatriði stefnu ríkisstjórnarinnar eru almennt orðuð og oft ekki ljóst hvert menn eru að fara í bollaleggingunum. Stjórnin telur það að öllum líkindum kost að á hinni almennu stefnu má byggja margvíslegan málatilbúnað. Það munu landsmenn vísast fá að reyna á næstu missirum. Með þessum hætti er einnig auðvelt að saka hvern þann sem hreyfir mótmælum við hinni almennu stefnu um að vera andsnúinn framþróun og blómlegu, eða skyldi ég segja fjörlegu efnahagslífi.

Líklega er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna merkilegust fyrir þær sakir að í henni er hvergi tekið á meginviðfangsefnum samtímans. Umhverfismál, jafnréttis- og mannréttindamál og staða Íslands í samfélagi þjóðanna eru afgangsstærðir í stefnu ríkisstjórnar Íslands og helst á henni að skilja að ítarleg umfjöllun um slík meginviðfangsefni heyri til sparðatínings. Því spyr ég, herra forseti: Hvert stefnir í þessum veigamiklu málaflokkum? Hvernig hyggst stjórnin ná því sem kallað er ,,ásættanleg niðurstaða um sérmál landsins`` svo hægt sé að gerast aðili að Kyoto-bókuninni? Gott væri ef hæstv. umhvrh. legði fram hugmyndir sínar um hvernig komast eigi að viðunandi niðurstöðu svo að hægt sé að fjalla um málið á hinu háa Alþingi og í samfélaginu.

Ekkert skal gert til þess að tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindum lands og sjávar. Undir stjórn Sjálfstfl. og Framsfl. munu almannahagsmunir áfram fyrir borð bornir í umhverfis- og auðlindamálum.

Jafnréttismálin, hinn rauði þráður stjórnmála samtímans, eru ekki spunnin í stefnu stjórnarinnar. Hvar er aðgerðaáætlun um lengingu fæðingarorlofs? Hvernig hyggst ríkisstjórnin tryggja feðrum sjálfstæðan rétt í þeim efnum? Í stuttu máli sagt skilar stjórnin auðu í jafnréttismálum. Líklega telja menn sig góða að hafa loks tekist, árið 1999, að fjölga konum í ríkisstjórn. Meira að segja Sjálfstfl. hefur skipað eina konu sem ráðherra. En hæstv. forseti, svo gott sem það nú er þá er það ekki nóg ef engin fylgir jafnréttisstefnan.

Það er umhugsunarefni að utanríkisstefna stjórnarinnar ber þess lítil merki að tíu ár eru liðin frá lokum kalda stríðsins. Gjörbreytt heimsmynd krefst þess að Íslendingar skoði rækilega stöðu sína og hlutverk á vettvangi alþjóðamála. Skelfilegt stríð hefur geisað á Balkanskaga, stríð sem við Íslendingar berum jafnmikla ábyrgð á og aðrar aðildarþjóðir Atlantshafsbandalagsins. Milljón manns eru á flótta í Evrópu og óvíst er hvort nokkur þeirra fær tækifæri til að snúa heim áður en ný öld gengur í garð. Enn situr Slobodan Milosevic forseti Júgóslavíu við völd í Belgrad. Hér gefst ekki ráðrúm til þess að ræða ítarlega hinar geigvænlegu afleiðingar hernaðarins á Balkanskaga. En óhætt er að draga þá ályktun af darraðardansi undanfarinna vikna að íslensk þjóð eigi að einbeita sér að alþjóðasamvinnu á friðvænlegri vettvangi en þeim er býðst við herstjórnarborð Atlantshafsbandalagsins. Stríðið í Kosovo kallar á endurmat á stöðu okkar í Evrópu og því hvaða leiðir við teljum vænlegar til samskipta við önnur ríki.

Herra forseti. Örlög kosningaloforða Framsfl. eru rannsóknarefni nú í þingbyrjun. Hæstv. forsrh. gerði óábyrgan leik með orð að umfjöllunarefni í ræðu sinni. Þar hitti hæstv. ráðherra loks naglann á höfuðið, enda hljóta kosningaloforð Framsfl. næsta dapurleg örlög í stefnuyfirlýsingunni títtnefndu. Þeir fjölmörgu foreldrar sem hafa þungar áhyggjur af fíkniefnavanda barna sinna hljóta að spyrja hvað orðið hafi um milljarðinn, þúsund milljónirnar sem Framsfl. lofaði til baráttunnar við vímuefnavandann. Í stjórnarsáttmálanum er þá upphæð hvergi að finna.

Hæstv. forseti. Fyrir Samfylkingunni og stuðningsfólki hennar um allt land liggja mörg brýn verkefni. Á næsta ári, aldamótaárinu 2000, mun samfylkingarfólk stíga sögulegt skref inn í framtíðina með stofnun nýrrar stjórnmálahreyfingar, fjöldahreyfingar sem gengur í takt við þá tíma sem við lifum á. Með almannahagsmuni að leiðarljósi munu þingmenn Samfylkingarinnar, stærsta stjórnarandstöðuaflsins, hvergi draga af sér í þágu lýðræðis og mannréttinda. Aðeins þannig verður Ísland að sönnu land tækifæranna.