Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Þriðjudaginn 08. júní 1999, kl. 21:42:21 (24)

1999-06-08 21:42:21# 124. lþ. 0.12 fundur 14#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 124. lþ.

[21:42]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Verkefni sumarþings eru fá en verkefni ríkisstjórnar og Alþingis bíða í þjóðfélaginu og þola mjög litla bið.

Stjórnarflokkarnir leggja áherslu á samheldni og eindrægni þjóðarinnar og samvinnu vinnuveitenda og launþega, dreifbýlis og þéttbýlis. Svo mikill munur er nú á kjörum fólks á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu að það verður að gera sérstakt átak til að draga úr því. Mikilvægt er að þær aðgerðir miði að styrkingu byggða og stöðvi þá búseturöskun sem í gangi er. Þá fyrst verður hægt að tala um samvinnu dreifbýlis og þéttbýlis.

Mismunur á kjörum fólks á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæði kemur m.a. fram í lægri launum á landsbyggðinni, bæði karla og kvenna, og þá sérstaklega lægri launum kvenna. Munurinn kemur einnig fram í húshitunarkostnaði, vöruverði, kostnaði við nám og námsaðstöðu, auk verðlítilla eigna á stöðum þar sem búseturöskunin hefur verið viðvarandi eða atvinnuöryggið er í hættu. Sú þjónusta sem þarf að vera til staðar til að halda uppi öflugu velferðarkerfi verður að vera jafnaðgengileg fyrir alla hvar sem þeir búa. Því setjum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði alvarlegan fyrirvara við sölu ríkisfyrirtækja svo sem Landssímans, sem fyrirhugað er að selja á næstunni.

Menntun er lykilorð að bættum kjörum og afkomu okkar á nýrri öld. Fjarnám og rafræn upplýsingatækni getur skipt okkur sköpum og nýst mörgum sem annars hefðu ekki haft möguleika á námi eða atvinnu. Fjarnám, hversu gott sem það kann að vera, kemur aldrei í stað lifandi menntastofnunar og því verður áfram að styrkja framhaldsskóla og háskólastofnanir um allt land. Rekstur fámennari framhaldsskóla er erfiður. Það verður að tryggja þeim rekstrargrundvöll svo þeir séu samkeppnisfærir við fjölmennari skóla í framboði á námsgreinum, ráðningu kennara og viðhaldi og uppbyggingu húsnæðis.

Nauðsynlegt er að efla verk- og tæknimenntun svo að þjóðin verði samkeppnisfær með innlenda framleiðslu. Sérstaklega þarf að efla námið á landsbyggðinni þar sem þróunin hefur orðið sú að verknám hefur að mestu flust hingað í höfuðborgina.

[21:45]

Því fjölbreyttara sem námsframboðið er heima í héraði eða í næsta nágrenni því líklegra er að ungt fólk velji sér búsetu og vinnu utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta hefur glögglega komið í ljós í samanburði á staðarvali nema úr Háskóla Íslands og Háskóla Akureyrar.

Hæstv. forseti. Stöðugleiki í ríkisbúskap og óheft frjálsræði í viðskiptum getur stangast á. Góðæri undanfarinna ára sem skapaðist að miklu leyti af ytri aðstæðum er nú ógnað af sömu ástæðum að því viðbættu að margir hafa notað meiri fjárráð til fjárfestinga í stað sparnaðar. ,,Frelsi til athafna, frelsi til að kaupa.`` Heilsíðuauglýsingar bjóða vörur á raðgreiðslum og/eða veltukortum. --- ,,Kauptu nýjan bíl og borgaðu seinna.`` Þetta svokallaða frelsi er að fara illa með margar fjölskyldur, sérstaklega ungt fólk sem áttar sig ekki á vaxtabyrði lána.

En það eru ekki allir sem hafa grætt í góðærinu og atvinnu og heilsu margra er ógnað í ótryggu atvinnuumhverfi. Þar má sérstaklega nefna fólk í sjávarbyggðum. Sala og leiga kvóta hefur kippt undan atvinnuöryggi fólks í heilu byggðarlögunum. Á þeim stöðum þar sem rótgróin fyrirtæki eru til staðar getur fólk ekki einu sinni verið öruggt því að það ræður engu um það hvort eða hvenær kvótinn verður seldur frá staðnum. Þessu verður að breyta meðal margs annars við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.

Auk aldraðra og öryrkja má nefna að staða margra bænda og þá sérstaklega sauðfjárbænda er mjög alvarleg og verður hið allra fyrsta að bæta þar úr með margháttuðum aðgerðum. Draga má í efa að flutningur Byggðastofnunar yfir í iðnrn. sé til þess fallinn að styrkja stöðu stofnunarinnar. Íslenskar landbúnaðarafurðir standast fyllilega samanburð við erlendar hvað hollustu varðar og ef eitthvað er þá eru þær hollari, a.m.k. eru þær að mestu lausar við eiturefni og genabrenglun. Því þarf að fullvinna landbúnaðarvörur eftir nútímakröfum með útflutning að markmiði og skapa með því traustari framleiðslugrundvöll og meiri ásamt fjölbreyttari atvinnu.

Sama gildir um vinnslu sjávarfangs. Á sviði hugvits og verkkunnáttu eigum við að byggja upp undirstöðu fyrir atvinnu á nýrri öld og færa okkur inn á framleiðslu sem byggir á sjálfbærri nýtingu auðlindanna í stað þess að horfa á einstakar lausnir á sviði stóriðju og stórvirkjana.