Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Þriðjudaginn 08. júní 1999, kl. 21:54:59 (26)

1999-06-08 21:54:59# 124. lþ. 0.12 fundur 14#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 124. lþ.

[21:54]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að óska landsmönnum öllum gleðilegs sumars og þakka fyrir þann mikla stuðning sem þeir veittu Sjálfstfl. í nýafstöðnum kosningum. Sá eindregni stuðningur veitti okkur þingmönnum flokksins og ráðherrum endurnýjað afl til þess að takast á við þau mörgu verkefni sem blasa við okkur í framfarasókn þjóðarinnar við aldahvörf. Stefnuræða forsrh. felur í sér fyrirheit um trausta landstjórn. Stjórnarflokkarnir hafa náð saman um stjórnarsáttmála sem er framhald af því samstarfi sem svo farsællega færði þjóðina fram til betri lífskjara en áður hefur þekkst hér á landi og við getum með sanni sagt að Ísland er í fremstu röð meðal þjóðanna á alla mælikvarða sem mælt er.

Þegar við byggjum á þessari góðu stöðu sem ekki var fengin átakalaust er mikilvægt að vanda vel næstu skref við landstjórnina og nýta sterka stöðu til þess að auðvelda okkur að takast á við sveiflur í efnahagslífinu sem við getum vissulega staðið frammi fyrir. Sagan segir okkur Íslendingum að við verðum að fara varlega til að búa í haginn, nýta auðlindir okkar af áræðni og fyrirhyggju og safna til mögru áranna. Það er vissulega sígildur sannleikur sem þjóðin getur ekki litið fram hjá.

Stjórnarsáttmálinn er hvatning til þjóðarinnar en um leið eru gefin ákveðin fyrirheit. Þar má nefna í fyrsta lagi að rík áhersla er lögð á jafnvægi í ríkisfjármálum og þannig stuðlað að stöðugleika og hóflegum vöxtum á hinum frjálsa fjármagnsmarkaði. Í öðru lagi að hvatt verði til sparnaðar almennings með ívilnun í skattkerfinu. Í þriðja lagi að breytingar verði gerðar á skattkerfinu með lækkun eignarskatta á íbúðarhúsnæði, dregið úr tekjutengingum barnabóta og þannig dregið úr jaðaráhrifum skattkerfisins. Í fjórða lagi vil ég nefna að einkavæðingu verði haldið áfram með sölu ríkisfyrirtækja og andvirði þeirra nýtt til þess að lækka skuldir, fjármagna sérstök verkefni í samgöngumálum og til að efla upplýsingasamfélagið. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna aðgerðir til þess að hraða uppbyggingu fjarskiptanetsins um landið allt þannig að styrkja megi upplýsingabrautina sem gegnir vaxandi og mjög mikilvægu hlutverki, ekki síst í upplýsingaiðnaði fyrir hinar dreifðu byggðir. Þannig verði sköpuð skilyrði til þess að auka fjölbreytni atvinnulífsins og útflutningsgreina á grundvelli menntunar og aukinnar þekkingar.

Í kosningabaráttunni voru byggðamálin mjög til umræðu. Samþykkt byggðaáætlunar markaði vissulega tímamót og þau áform sem henni fylgja eru mikilvæg. Engu að síður verður að kalla fleiri en ríkisvaldið eitt til aðgerða. Sveitarfélögin hljóta að hafa hlutverki að gegna og atvinnulífið einnig svo takast megi að snúa byggðaþróuninni við. Þar hljóta sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að hafa skyldur, enda getur það ekki verið í þágu íbúa höfuðborgarsvæðisins að byggðaþróun verði þannig að landið sporðreisist undan fólksflutningum á höfuðborgarsvæðið með allri þeirri óhagkvæmni sem því fylgir. En af hálfu stjórnarflokkanna mun byggðaáætluninni verða fylgt fast eftir og leitað allra leiða til þess að árangur náist.

Á því kjörtímabili sem nú er hafið er ljóst að á vegum samgrn. verður í mörg horn að líta. Ferðaþjónustan gegnir vaxandi hlutverki sem ein af höfuðatvinnugreinum þjóðarinnar og þar er mjög litið til ráðstefnuhalds og uppbyggingar í tengslum við það sem skapar möguleika á því að lengja ferðamannatímann og nýta þannig betur þá fjárfestingu sem er í ferðaþjónustunni.

Vegagerð er eitt mikilvægasta framfaramál í byggðum landsins og raunar einnig og ekki síður á höfuðborgarsvæðinu. Vegáætlun verður til endurskoðunar á næsta þingi og nú þegar mun hefjast vinna í ráðuneytinu við þá vinnu. Má í því sambandi nefna jarðgangagerð en slíkar stórframkvæmdir þurfa langan aðdraganda og vandaðan undirbúning.

Kröfur á sviði umhverfismála eru vaxandi og umræður um mengun andrúmsloftsins eru þekktar. Úrbætur í vegamálum geta haft veruleg áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda því einn þriðji af losun okkar er vegna umferðarinnar. Stytting þjóðveganna og lækkun fjallvega getur því haft umtalsverð áhrif á eldsneytisnotkun. Því eru auknar vegaframkvæmdir og bætt skipulag umferðaræða um landið allt liður í að draga úr eldsneytisnotkun og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar fjallað er um fjárfestingar í vegamálum.

Samfylkingin hefur sett hér fram athugasemdir og vakið athygli á því að hætta sé í tilteknum byggðum vegna sjávarútvegs og reynir um þessar mundir að gera að pólitísku bitbeini þann vanda sem er í þeim sjávarbyggðum. Ég vil vísa þessum athugasemdum algerlega á bug og vil vekja athygli á því að sjávarútvegurinn hefur staðið svo vel að mati Samfylkingar að hún ætlaði sér að leggja sérstakan skatt á sjávarútveginn. Það hefði varla komið því fiskverkafólki sem nú á í miklum vanda í nokkrum byggðum til góða ef Samfylkingin hefði náð að taka hér um stjórnvölinn. Ég er sannfærður um að fólkið í landinu skilur það og er fegið því að þau áform náðu ekki fram að ganga hjá Samfylkingunni.

Virðulegi forseti. Tími minn er búinn. Ég hef gert grein fyrir nokkrum málum sem unnið verður að á næsta kjörtímabili á grundvelli stjórnarsáttmálans og nauðsynlegt er að vekja athygli á við þessa umræðu. Ég vænti þess að eiga gott samstarf við þingið og að starf okkar á þessu kjörtímabili verði farsælt.