Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Þriðjudaginn 08. júní 1999, kl. 22:15:21 (29)

1999-06-08 22:15:21# 124. lþ. 0.12 fundur 14#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, KolH
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 124. lþ.

[22:15]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég tek undir heillaóskir til forseta og ríkisstjórnar um leið og ég þakka kjósendum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fyrir stuðninginn við þetta nýja stjórnmálaafl sem horfir fram á veginn með stóra drauma um auðugt mannlíf sem hefur umhverfisvernd og jöfnuð veraldargæðanna að leiðarljósi.

En undir smásjánni er stefna ríkisstjórnarinnar, stefnan sem á að færa þjóðinni aukinn hagvöxt hvað sem það kostar. Í nýafstaðinni kosningabaráttu þrástagaðist ríkisstjórnin á því að í landinu ríkti góðæri og ríkisstjórnarflokkarnir væru þeir einu sem gætu viðhaldið góðærinu.

Áróðursbragðið virkaði. Hræðsla fólks við að glutra niður góðærinu skilaði sér í afskaplega miklu fylgi ríkisstjórnarflokkanna. Nú stagast ríkisstjórnin á því sem aldrei fyrr að víst ríki góðæri og þeir sem andmæla eru bara að hræða fólk frá skynsamlegri hegðun, eins og segir í stefnuræðu forsrh.

En ríkisstjórnin ætlar að leggja grunn að hugarfarsbreytingu. Hún hvetur til sparnaðar. Jafnvel þeir sem góðærið gleymdi eiga að spara. Og svo verður heilmikil upplýsingatækni og einkavæðing og stóriðja. Þetta eru lausnarorðin.

En eru þau trúverðug, þessi töfraorð? Veita þau þá líkn sem ristir niður í kjarna mannlífsins? Ekki að mínu mati. Ekki á meðan lítilmagnarnir í samfélaginu þurfa að leita aðstoðar hjálparstofnana til að hafa í sig og á og ekki á meðan við blasir neyðarástand í menntunarmálum í mörgum fjölmennustu sveitarfélögum landsins þar sem kennarar flýja í hópum úr starfi vegna lágra launa og ekki á meðan sjúklingum er vísað frá sjúkrastofnunum stóran hluta ársins vegna rekstrarvanda og ekki á meðan við ógnum landinu okkar á þann hátt sem verið er að gera með virkjanaáformum ríkisstjórnarinnar. Sparnaður, upplýsingatækni, einkavæðing og stóriðja hljóma ekki sannfærandi í þessu samhengi.

Verum þess minnug að undirbúningur stórvirkjana á hálendinu okkar er í fullum gangi með uppistöðulónum og háspennumöstrum á stöðum þar sem mörg okkar telja bæði skynsamlegra og arðbærara að stofna þjóðgarða. Dýrmætar náttúruperlur, votlendissvæði, fossar og gljúfur eru í bráðri hættu. Væri ekki nær að setja krafta og peninga í rannsóknir á annars konar aðferðum við að virkja vatnsaflið okkar og leita leiða til þess að þessi hreina orka verði notuð til einhvers annars en að knýja mengandi málmbræðslur?

Það er erfitt að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina. Þó hefur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ákveðið að leggja fram á þessu þingi tillögu um að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum.

Það vekur athygli að nú kveður við nýjan tón í stóriðjumálunum. Allt í einu virðist Norsk Hydro bara hugleiða að leggja fram 20% kostnaðar við byggingu álversins á Reyðarfirði. Það er ekkert langt síðan talað var um að þetta fyrirhugaða álver væri bara norskt álver í eigu Norsk Hydro. Ekki nóg með það, einu sinni var talað um að Norsk Hydro legði fram hluta kostnaðar við nýtt raforkuver við þetta sama álver, þ.e. Fljótsdalsvirkjun. En ekki í dag.

Nú fagna stjórnvöld því tækifæri sem íslenskir fjárfestar fá við að fjármagna þetta fyrirhugaða álver. Álver sem kemur til með að auka losun gróðurhúsalofttegunda yfir landinu okkar um 210 þús. tonn á ári. Þetta er ekki ábyrg stjórnmálastefna. Þetta er glapræði sem ber einungis vott um hæfileikaskort stjórnvalda til að meta hin raunverulegu auðæfi þjóðarinnar. Óskandi væri að ríkisstjórnin bæri gæfu til að snúa frá villu síns vegar í stóriðjumálunum og að henni tækist að hefja umhverfismálin til vegs.

Vissulega má segja að einhver teikn séu á lofti um að slíkt geti orðið. Hún hefur skilið á milli landbrn. og umhvrn. og ég vona sannarlega að það verði gæfuspor og að aðskilnaðurinn skili sér í auknu vægi umhverfismála. Satt að segja er kominn tími til að umhvrn. njóti sjálfstæðis og fái frelsi til að ganga erinda umhverfisins en ekki erinda iðnrh.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ríkisstjórnin að svíkja þjóðina með óbilgirni sinni í stóriðjumálunum. Það er hreinlega eins og ekkert sé atvinnuuppbygging nema hleypt sé hrikalegum jarðvinnsluvélum á ósnortna náttúru, grafið í gegnum berg og vatnsföllum eytt og árfarvegum breytt.

,,Við verðum að ná tökum á ófreskjunni áður en hún gleypir gullin okkar`` --- sagði Páll Steingrímsson í Morgunblaðsgrein á liðnum vetri. Ég geri hans orð að mínum og lýk þar með máli mínu.