Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Þriðjudaginn 08. júní 1999, kl. 22:21:02 (30)

1999-06-08 22:21:02# 124. lþ. 0.12 fundur 14#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, SvH
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 124. lþ.

[22:21]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég endaði orð mín í annarri umferð umræðunnar með því að varpa fram hvort ég gæti fengið skýr rökstudd svör við því hvers vegna til stendur að fela nefnd utan þings endurskoðun fiskveiðistjórnarlaganna svo sem hæstv. ríkisstjórn hefur lýst yfir en ekki sjálfri sjútvn. sem valin verður á næstu dögum í nýkjörnu þingi. Ég varpaði fram þeirri spurningu hvort þetta væri e.t.v. þáttur í þeirri lítilsvirðingu sem framkvæmdarvaldið hefur í vaxandi mæli leyft sér að sýna löggjafarsamkundunni og menn haft í flimtingum jafnvel að við byggjum ekki lengur hér í landi við þingbundna stjórn heldur stjórnbundið þing.

Eða eru refarnir kannski til þess skornir að stjórn útgerðaraðalsins ráði ferðinni í slíkri nefnd, ásamt fræðimönnum sem sitja fastir í eigin fræðigildru og telja sig eiga vísindaheiður sinn að verja að engu verði breytt frá núverandi ástandi í fiskveiðimálum? Og að ríkisstjórnin ætli sér að því búnu að skjóta sér á bak við álit slíkrar nefndar og aðhafast ekkert í svívirðislegasta ranglætismáli aldarinnar á Íslandi?

Að vísu er ekki margt sem vekur athygli í stefnuræðu þeirri sem hér er til umræðu. Hins vegar vekur samsetningin spurningar um málefni sem þar er ekki að finna eða lítil sem engin skil gerð. Hver er til að mynda launastefna hæstv. ríkisstjórnar? Dettur hæstv. ríkisstjórn í hug að nýfallinn dómur, m.a. kjaradómur um laun alþingismanna, muni engin áhrif hafa í þjóðfélaginu? Hvernig er kjaramálum hinna lægra launuðu háttað eins og nú standa sakir? Hafa þeir kannski ekki fylgst með því sem er að gerast í kjarabaráttu kennara? Að vísu snúa þau átök beint að sveitarfélögunum í landinu en varla getur hæstv. ríkisstjórn ályktað að henni sé það óviðkomandi. Engan staf er að finna um hvaða stefnu hæstv. ríkisstjórn ætlar að fylgja í þeim sökum enda þótt líði nú óðum að því að þessi mál komi til heldur rækilegrar og hressilegrar meðferðar ef að líkum lætur.

Ein af þeim staðreyndum sem við blasir þegar værðarvoðinni er svipt af eru gerbreyttar efnahagsforsendur. Þeim mun meir sem verðþenslan í þjóðfélaginu hefur aukist þeim mun aðsópsmeiri hafa ríkisstjórnarmenn gerst í stöðugleikatalinu. Það er stórvaxandi spenna á peninga- og lánamarkaði. Það er gegndarlaus verðsprenging á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Það ríkir stórháskaleg eyðslusemi sem lýsir sér m.a. í miklum viðskiptahalla. Varla fer hin firnalega skuldaaukning sveitarfélaganna í landinu fram hjá neinum og varla getur það verið hæstv. ríkisstjórn óviðkomandi, að maður tali ekki um hina hörmulegu staðreynd um skuldasöfnun heimilanna. Auðvitað er það vísbending um spennu og verðbólgu, hækkanir tryggingafélaganna sem kunna þó einnig að vera af einhverjum öðrum rótum runnar sem hér er látið liggja að a.m.k.

Þegar á þessar köldu staðreyndir er bent er því svarað með því að segja að stjórnmálamenn megi ekki gera sig seka um að halda allt öðru að fólki en efni standa til. Gumað er af niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs. Engar beinar tölur hef ég séð um þær niðurgreiðslur. Hins vegar liggja fyrir beinharðar tölur hver halli var á ríkissjóði fyrstu sex árin undir forsæti Sjálfstfl. og fjármálastjórn. Þá tvöfölduðust skuldir ríkissjóðs úr 89 milljörðum í 176 milljarða kr.

Nú á spennutímum á að selja eignir ríkisins og verja andvirðinu m.a. til þess að bora í gegnum fjöll. Á sprengitímum á fasteignamarkaði er Landsbanki Íslands látinn lána eiganda Stöðvar 2 hátt í milljarð til að kaupa byggingarlóðir á Arnarnesi á uppsprengdu verði og gefa vilyrði fyrir fjármagni til bygginga á þeim lóðum. Þessi fursti hefur að vísu aldrei verið í viðskiptum við Landsbankann en menn verða að leggja ýmislegt á sig til að laða að sér fjölmiðlamenn í kosningabaráttu.

Í sparnaðarskyni á spennutímum er viðskrh. færður Byggðasjóður til að negúsera með. Vanur maður í fjármálum sem kann ýmislegt fyrir sér eins og dæmin sanna. Í stefnuræðunni er látið sem ekkert sé, allt sé í himnalagi og engar blikur á lofti vegna aðsteðjandi verðbólgu. Þó er verðbólga sú óvættur að nærri liggur að segja megi að allt sé unnið fyrir gíg í fjármálum og efnahagsmálum ef hún nær sér niðri á nýjan leik.

Með verðbólgudrauginn í gættinni er þýðingarlaust að gera sér vonir um lækkun skatta og vaxta. Harkalegur niðurskurður á fjárlögum og frestun framkvæmda eru ráðstafanir sem þarf þegar í stað að grípa til. Ríflegum tekjuafgangi ríkissjóðs er mjög mikilsvert að ná. Þessu er Frjálslyndi flokkurinn tilbúinn að ljá fylgi sitt.

Hitt er svo annað mál að vandlifað verður á Íslandi ef aflagður verður sá siður með öllu að orð skuli standa. Þess höfum við séð heldur betur merki og raunar sannanir að undanförnu hvort heldur er í viðskiptum SH við Akureyri, Breiðdalsvíkur og Djúpavogs við Grindvíkinga, Meitils við Þorlákshafnarbúa, við Vestmannaeyinga o.s.frv. Keypt var stórt skip á Ísafirði og Ísfirðingar huggaðir með því að það mundi halda áfram að vinna og færa hráefni þar að landi. Það var svikið af því að gróðinn gengur fyrir því að orð skuli standa.

Ég vænti þess, óska og vona að hæstv. ríkisstjórn, nýtekin við völdum, muni beita sér fyrir því að undir því er mest að orð standi.