Formennska í fastanefndum þingsins

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 10:33:10 (37)

1999-06-10 10:33:10# 124. lþ. 2.91 fundur 19#B formennska í fastanefndum þingsins# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[10:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og forseta er manna best kunnugt, hafandi lesið upp tilkynningar um kjör formanna og varaformanna í fastanefndir þingsins, þá tókst þannig til að þessu sinni að meiri hlutinn bauð ekki upp á neitt samstarf við stjórnarandstöðuna um að stjórnarandstaðan færi að einhverju leyti með forustu fyrir þingnefndum og/eða ætti eitthvað af varaformönnum þingnefnda. Þessari niðurstöðu mótmæli ég og harma hana. Ég tel að hér sé á ferðinni dapurlegt afturhvarf, herra forseti, til eldri tíma og uppgjöf gagnvart því að reyna að efla þingið sem sjálfstæða stofnun og draga úr þeirri hörðu skiptingu í meiri hluta og minni hluta sem hefur á köflum mjög plagað þingstarfið.

Þetta er einnig að mínu mati því miður til marks um að okkur miðar aftur á bak en ekki áfram hvað það varðar að þingið standi í lappirnar gagnvart framkvæmdarvaldinu og sé ekki sjálfvirk afgreiðslustofnun eða stimpill á það sem þaðan berst. Ekki vottar fyrir neinni viðleitni til að vega upp á móti þessum breytingum með einhverjum öðrum hætti eða það höfum við stjórnarandstæðingar a.m.k. ekki skynjað enn þá.

Herra forseti. Ég vil því nota þetta tækifæri til að koma óánægju okkar á framfæri og mótmæla þessu og koma því inn í þingtíðindin að við stjórnarandstæðingar erum ósátt við þetta upphaf á samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég vænti þess að forseti sé mér sammála um að þetta eigi prýðilega heima undir umræðum um störf þingsins og þurfi ekki athugasemda við.

Ég tek skýrt fram, herra forseti, að þessi orð eru ekki látin falla hér vegna þess að til formennsku og varaformennsku í þingnefndum hafi ekki valist hið mætasta fólk sem við stjórnarandstæðingar væntum að sjálfsögðu góðs samstarfs við. Þetta mál er ekki persónulegt heldur pólitískt og rökin fyrir því að færa það fram eru þau að okkur stjórnarandstæðingum er annt um þingræðið og sjálfstæði þingsins sem stofnunar og velferð þess.